08.04.1963
Efri deild: 69. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1276 í B-deild Alþingistíðinda. (1207)

227. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. meiri hl. (Ólafur Björnsson):

Herra forseti. Ég hafði boðað það í framsöguræðu minni, að vænta mætti nokkurra frekari brtt. frá fjhn. eða meiri hl. hennar. Ég mun leyfa mér að leggja fram 3 brtt., sem fluttar eru af meiri hl. n. Ástæðan til þess, að meiri hl. flytur þetta, er ekki sú, að ég ætli, að hv. fulltrúar stjórnarandstæðinga í n. séu þessum till. andvígir, en það hefur ekki gefizt tóm til þess að ræða þær í n. í heild, og því flytur meiri hl. þær.

1. brtt. er við tollskrána sjálfa og er á þann veg, að 84.11.00, eins og það er í tollskránni nú, skuli skiptast í tvö númer, svo hljóðandi: „84.11.01 Heyblásarar eftir nánari skýrgreiningu og ákvörðun fjmrn. 10%. — 84.11.09 Annað 35%.” Það mun hafa verið fyrir vangá, að heyblásararnir komu undir þetta númer, en áður voru þeir með lægri tolli. Mun ekki hafa verið ætlunin hjá neinum að hækka þann toll.

2. brtt., sem meiri hl. fjhn. flytur, er flutt skv. ósk hæstv. fjmrh. Er hún við 3. gr. frv. eða heimildaákvæðin um lækkun tolla. Brtt. er á þessa leið:

„Við 28. lið 3. gr. bætist eftirfarandi: Þá er heimilt að endurgreiða aðflutningsgjöld af efni, vélum og tækjum til viðgerða, breytinga og endurbóta á einstökum hlutum í skipum og bátum, eigi framkvæmdin sér stað innanlands, fart kostnaður viðgerða, breytinga og endurbóta fram úr 500000 kr.“

N. hafði borizt erindi um þetta frá Félagi íslenzkra iðnrekenda, og var þar réttilega bent á það, að eins og nú er njóti skipaviðgerðirnar í rauninni neikvæðrar tollverndar. Sérfræðingar þeir, sem frv. sömdu, töldu að vísu frá tolltæknilegu sjónarmiði ýmsa annmarka á því að koma til móts við þetta, en í dönskum og norskum tollalögum eru ákvæði, sem heimila slíkt, og ætti því að vera unnt að framkvæma þetta einnig hér á landi.

3. og síðasta brtt., sem meiri hl. fjhn. flytur, er einnig við 3, gr., að 33. liður hennar orðist svo: „Að ákveða, að greiða skuli 15% verðtoll af lyfjum, sem teljast til nr. 30.05.00 og til númera í 13., 28. og 29. kafla tollskrárinnar, enda gefi ráðuneytið út sérstaka skrá með lyfjum þeim, er hér um ræðir.“

Hér er bætt einu tollskrárnúmeri við þá undanþágu, sem frv. upphaflega gerði ráð fyrir, og er það samkv. tilmælum sérfræðinga, sem tollskrárfrv. sömdu, að þessi till, er flutt.

Þá tel ég og rétt að vekja athygli á því, að inn í brtt. fjhn. á þskj. 566 hefur slæðzt ein prentvilla. Það er í o-lið, að þar stendur: „Pappírspokar margfaldir til umbúða, að flatarmáli 2 m2 og þar yfir útflattir“ o.s.frv. Í staðinn fyrir 2 m2 á að standa: 0.2 m2. Mun þskj. verða prentað upp með tilliti til þessa, en hér er aðeins um prentvillu að ræða.

Þó að ýmislegt væri í ræðu hv. frsm. minni hl., sem tilefni gefur til athugasemda, þá mun ég ekki hafa þessa ræðu lengri til að tefja málið ekki að nauðsynjalausu, enda er annar hv. frsm., sem kunnugt er, fjarverandi.