09.04.1963
Neðri deild: 69. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1283 í B-deild Alþingistíðinda. (1216)

227. mál, tollskrá o.fl.

Eysteinn Jónsson:

Herra forseti. Ég mun reyna að vera ekki langorður, því að ég vil greiða fyrir því, að þetta frv. geti komizt til n. Það er ekki seinna vænna, að það komist þangað, miðað við að Alþingi geti orðið lokið í tæka tíð og málið afgreitt. þar sem búið er að rjúfa þingið og öllu settar mjög fastar skorður.

Ég get ekki stillt mig um að minna á það einmitt í sambandi við þetta mál, vegna þess hve það er víðtækt og flókið, að meinlegri óstjórn hefur að mínu viti verið á þessu Alþ., sem er að ljúka störfum, en mörg dæmi eru til áður. Meginhluta vetrar hefur Alþ. setið hér aðgerðalítið og aðgerðalaust og beðið eftir málum frá hæstv. ríkisstj., og var eins og einhver doði hefði heltekið ríkisstj. Sífellt var verið að gefa yfirlýsingar um, að mál væru rétt að koma, sem ætti að afgreiða, en aldrei varð neitt úr neinu, fyrr en nú fyrir örstuttu, að ríkisstj. virtist vakna með andfælum, og var þá fleygt hér inn nokkrum frv. á síðustu stundu. Fæst af því eru nú raunar stórmál, en þó þannig varin, að þau taka nokkurn tíma, og einstaka mál, eins og t.d. þetta tollskrármál, er þannig varið, að það verður að finna að því, að þessi háttur skuli vera hafður á varðandi það.

Eins og hæstv. ráðh. gat um, mun þetta mál hafa verið 3 ár í undirbúningi, og það mun vera búið að vera hér í ýmsum stofnunum í höfuðstaðnum a.m.k. vikum, ef ekki mánuðum saman til athugunar, en Alþ. fær ekkert af þessu að sjá, fyrr en aðeins örfáar vikur eru eftir af þeim tíma, sem hugsanlegur er með góðu móti til þinghaldsins.

Á hinn bóginn hefði verið ærið nógur tími í vetur til þess að skoða þetta má: ofan í kjölinn á þinginu, ef þessari vinnu hefði verið betur stjórnað. Nú verður niðurstaðan sú, að það verður hrein málamyndameðferð, sem málið fær, og viðurkenna það auðvitað allir, jafnt þeir, sem stjórninni fylgja, og hinir. Er það illa farið, vegna þess að sannast að segja er tollalöggjöfin svo þýðingarmikil og snertir svo marga þætti i þjóðarbúskapnum, að varla er önnur löggjöf, sem kemst til jafns við hana að því leyti, og raunar engin.

Það er alveg óhugsandi, að þm. geti gert sér nokkra grein fyrir því í einstökum atriðum, hvað verið er að samþykkja með þessu nýja tollskrárfrv., og það kveður svo rammt að þeim erfiðleikum, sem á þessu eru, að fjhn. getur ekki einu sinni lesið frv. allt yfir. Þess er enginn kostur, ef þetta á að ljúkast á þessu þingi. Þetta er ákaflega slæmt, og hefði verið miklu heppilegra að hafa þann hátt á að leggja frv. fyrr fyrir Alþ., snemma vetrar, og láta síðan umsagnir annarra koma inn og síðan hefðu þær verið skoðaðar í tómi á þinginu og frv. þá meira breytt á þinginu sjálfu. En með þessu lagi má segja, að frv. verði hreinlega að öllu leyti afgreitt utan Alþingis og án íhlutunar frá alþm., nema þá kannske örfáum, sem kvaddir hafa verið til bak við tjöldin. Afgreiðsla málsins verður með þessu móti nálega gersamlega án íhlutunar alþm., líka fjölmargra alþm. úr stjórnarflokkunum.

Ég vildi láta þessi fáu orð falla um þessa hlið málsins, vegna þess að mér finnst rík ástæða til að finna að þessu, því að hér er um að ræða að setja algerlega nýja tollskrá. Allt öðru máli hefði gegnt, ef hér hefði aðeins verið um að ræða breytingar á tollskrá, sem menn hefðu getað skoðað á stuttum tíma. Þá var ekkert við þessu að segja. En þar sem hér er sett algerlega ný tollskrá, þá er þessi aðferð mjög aðfinnsluverð.

Það verður að skoða tolla- og skattapólitík á þá lund, að hún er aðeins einn liður í þeirri efnahagsmálastefnu, sem fylgt er hverju sinni, og vitanlega verður að líta á þetta tollskrárfrv, þannig. Nú ætla ég ekki að halda hér erindi um efnahagsmálastefnu ríkisstj. Ég er búinn að ræða það mál oft í vetur og á eftir að ræða það á næstunni. En ég verð að benda á, að þetta tollskrárfrv. staðfestir í höfuðatriðum það, sem framsóknarmenn sögðu fyrir að verða mundi, miðað við það, hvernig hæstv. ríkisstj. fór að í efnahagsmálum og hefur unnið síðan.

Ríkisstj. tók upp þá stefnu strax eftir kosningarnar 1959 að leita þess, sem hún kallaði jafnvægi í efnahagsmálum landsins og þjóðarbúskapnum, með því að magna dýrtíðina sem allra mest og einnig með því að gera lánsfé sem dýrast og draga úr lánsfé í umferð. Síðan hefur ríkisstj. alla tíð viljað og lagt höfuðkapp á að halda niðri launatekjum og afurðaverði. Þannig átti að ná jafnvægi í þjóðarbúskapnum með því að magna dýrtíðina, og það var gert með gengislækkun, fyrst einni og síðan annarri, og með því að leggja á stórfelldar nýjar álögur til ríkissjóðs um leið. En áður hafði það ætíð verið svo, að pegar gengislækkun varð, eða a.m.k. oft, var slakað á verðtollum og öðrum álögum um leið. Því var ekki til að dreifa í þetta sinn, heldur voru álögur magnaðar, um leið og gengislækkuninni var skellt á, nýr söluskattur innleiddur, bæði innanlands og hár söluskattur á innflutningi, og fleiri ráðstafanir gerðar, sem höfðu í för með sér nýjar álögur.

Þetta allt saman varð til þess, að dýrtíðarhjólið rann af stað með miklum hraða, og við bentum á það strax, að af þessu mundi leiða hverja dýrtíðarbylgjuna af annarri, enda hefur farið svo. Enn fremur bentum við á, að ef á þessa lund væri haldið á efnahagsmálunum og þessi stefna framkvæmd svona harkalega, leitað sífellt jafnvægis með því að magna dýrtíðina, þá væri óhugsandi, að því gætu fylgt minnkandi álögur. Það hlytu að fylgja því sífellt varandi álögur, og það er þetta, sem tollskrárfrv. staðfestir algerlega.

Þegar við nú lítum yfir kjörtímabilið, og það er tilefni til þess einmitt í sambandi við þetta frv., því að þetta mun eiga að vera sveinsstykkið hjá hæstv. fjmrh., þá hafa heildarálögur til ríkissjóðs varið um 1 milljarð og 400 millj. kr. Þetta er svo geigvænlegt, að ég held, að sá, sem hefði spáð þessu fyrir nokkrum árum, hefði ekki verið talinn líklegur spámaður, – hækkað um 1 milljarð og 400 millj., bara til ríkissjóðs eins. Þar fyrir utan eru svo margvíslegar aðrar álögur, sem ég ætla ekki að eyða tíma hér til að telja upp, því að það hefur þráfaldlega verið gert.

Í þessum álögum er einn skattur sérstaklega, sem átti að vera eins konar prófsteinn í þessum efnum, og það var bráðabirgðasöluskatturinn frægi, sem innleiddur var 1960 og nú gefur ríkissjóði hartnær 300 millj. kr. Það var sagt, þegar farið var af stað, að þessi söluskattur væri til bráðabirgða. Það var talað fyrir honum þannig, að hann væri kominn inn vegna þess, að mönnum hefði láðst að gæta þess, að álögurnar fyrsta ár viðreisnarinnar gæfu fullar tekjur, því að það væri liðið svo langt á árið, áður en þær kæmu til framkvæmda. Þess vegna yrði að bæta þetta upp í eitt ár með bráðabirgðasöluskattinum. Síðan mundi sú þörf ekki verða fyrir hendi.

Síðan hafa sífellt dunið yfir yfirlýsingar um það, að þessi skattur mundi verða felldur niður, og síðast nú í haust mun hæstv. fjmrh. hafa lýst því yfir, að þessi bráðabirgðasöluskattur yrði felldur niður. Hami var þá spurður að því, hvort hann yrði felldur niður með þeim hætti að fella hann imi í nýjan verðtoll inn í tollskrána nýju, og því svaraði hæstv. fjmrh. ekki þá. Sjá menn nú, að honum var vorkunn, þó að hann svaraði ekki, því að það var auðvitað það, sem hæstv. ráðh. hafði í huga með þessum orðaleik, að söluskatturinn skyldi felldur niður. Sá hæstv. ráðh. fram á, að hann gat litlu sleppt af þeim álögum, sem hann hafði beitt sér fyrir, og þess vegna svaraði hann ekki, þegar hann var spurður að því, hvort hann yrði felldur niður með þeim nýstárlega hætt að innlima hann í nýja verðtoll eða nýja tollskrá.

Nú kemur það í ljós við endalok kjörtímabils, að það er lögð fram ný tollskrá, og efni hennar er að lögleiða til frambúðar allar þær álögur, sem hæstv. ráðh. og stjórnarmeirihl. hafa beitt sér fyrir á kjörtímabilinu, og þar með taldir a.m.k. 2/3 hlutar af bráðabirgðasöluskattinum, sem á að haldast áfram. Það á að ganga á móti öllum yfirlýsingum um, að hann falli niður, og 2/3 af honum eru ásamt öllum hinum álögunum innlimaðir i nýja verðtollinn samkv. tollskránni, en um það bil 1/3 af bráðabirgðasöluskattinum á að fella niður.

Eins og frv. kom fram og eins og það liggur fyrir enn í dag, áttu sveitar- og bæjarfélögin að bera helminginn a.m.k. af þeirri tilslökun, sem í tollskránni fólst, því að í frv. er aðeins gert ráð fyrir að bæta bæjar- og sveitarfélögunum upp fyrir árið 1963, þ.e.a.s. fyrir yfirstandandi ár, en ekkert ákvæði um, að þeim skyldi bætt upp það, sem af þeim er tekið með söluskattinum, eftir 1, jan. 1964, og engin yfirlýsing um slíkt í grg., heldur var þar aðeins fjallað um árið 1963.

Framsóknarmenn bentu strax á þessa veilu og bentu á, að eins og þetta lægi fyrir, væri bæjar- og sveitarfélögunum ætlað að bera um það bil helminginn af þessari tilslökun, taka hana á sig, og væri það í raun og veru engin lækkun, sveitarfélögin mundu þurfa að bæta sér það upp með öðru móti. Fljótlega komu þá fram frá hæstv. ráðh. yfirlýsingar um það, að ætlunin væri að bæta bæjar- og sveitarfélögunum þetta upp, og nú hefur hæstv. ráðh. staðfest það í þeirri ræðu, sem hann flutti hér áðan, að stjórnarmeirihl. mundi beita sér fyrir því, að bæjar- og sveitarfélögunum yrði bætt þetta upp á þessu þingi með löggjöf.

En ég legg áherzlu á, að þegar frv. kom fram, var bæjar- og sveitarfélögunum aðeins bætt þetta upp til ársloka 19&i og engin yfirlýsing í frv. sjálfu um, að það yrði gert til frambúðar. En ég geri ráð fyrir því, að hæstv. ráðh. hafi séð það, undireins og hann heyrði, að eftir þessu var tekið mjög víða og það m.a. af framsóknarmönnum, þá hafi hann strax séð, að það dugði ekki annað en setja án undanbragða skýr ákvæði um, að bæjarog sveitarfélögin skyldu ekki missa neins í. Er það gott, að hæstv. ráðh. hefur nú skýr ummæli um þetta og lýsir yfir skýrt og skorinort, að hann ætli á þessu þingi að beita sér fyrir því, að það verði lögfest til frambúðar, að bæjar- og sveitarfélögin fái hluta af verðtollinum.

Á hinn bóginn felldi stjórnarliðið í Ed. till. frá framsóknarmönnum um, að bæjar- og sveitarfélögin fengju hluta af tekjunum. En ef þeim þykir það eitthvað skemmtilegri vinnuaðferð að fella slíka till. frá stjórnarandstæðingum fyrst og samþykkja hana síðar frá sjálfum sér í öðru frv., þá er engin ástæða til þess að finna að því, það er bara dálítið broslegt, en á hinn bóginn alveg í samræmi við það, sem komið hefur þráfaldlega fyrir, að stjórnarflokkarnir hafa fellt till. frá stjórnarandstöðunni um ýmis málefni, en síðan tekið till, upp og gert þá ný frv. eða flutt málin einhvern veginn í öðru formi og samþ. þannig.

Ef þeim þykja þetta eitthvað skemmtilegri vinnubrögð, þú er það vitanlega þeirra mál. Menn brosa góðlátlega að þessu yfirleitt, þessum sýningarleik, en það má segja, að þetta sé meinlaust. Þess vegna er engin ástæða til þess að vera að finna að þessu, þó að ég bendi á það, né deila hart á það, þó að hæstv. ríkisstj. og stjórnarflokkar vilji heldur bæta úr þessari yfirsjón sinni, sem fyrir lá í þessu frv., þegar þeir lögðu málið fram, með frv. frá sjálfum sér, heldur en samþykkja á þessu leiðréttingu frá framsóknarmönnum.

Ég benti á það áðan, að það er ekki mikið, sem hæstv. ráðh. gefur til baka skattborgurunum eftir þau viðskipti, sem hann hefur við þá haft á kjörtímabilinu. Brosa margir að því og þykir þunnur þrettándi að fá rúmar 90 millj. af þessum 1400 til baka rétt fyrir kosningarnar, og ekki sízt þykja mönnum þetta léleg viðskipti, þegar menn hafa í huga, að það er alveg víst, að eftir kosningar liða ekki margir mánuðir, þangað til þetta hefur verið tekið til baka og vafalaust margfalt, miðað við allar horfur að óbreyttum vinnuaðferðum, því að alls staðar eru vellandi hækkanir fram undan á öllum sviðum. Og ef hæstv. ríkisstj. ætlar að nota sömu aðferðina og hún notaði t.d. sumarið 1961, þegar hún felldi gengið á nýjan leik til að leita jafnvægis enn á ný með þeim nýstárlega hætti, — ef hún ætlar að halda áfram þeim leik, þú efast víst enginn um, að nýjar álögur flæða yfir, margfaldar á við það, sem slakað er til nú í bili, annaðhvort í formi nýrra gengislækkana eða nýrra söluskatta eða álaga með einhverju slíku móti eða með öllu þessu móti, eins og varð raunar 1960, því að þá var allt í senn, bæði gengislækkanir og söluskatta- og vartahækkanir. Því miður verður þetta skammgóður vermir, ef allt fer á sömu lund og orðið hefur nú um sinn.

Ég minntist nokkuð á þá stefnu, sem hæstv. ríkisstj. hefði fylgt og hefði verið fólgin í því alla tíð að magna dýrtíðina og leita þannig jafnvægis, en halda niðri tekjum. Það er fróðlegt að athuga þau áhrif, sem þessi stefna hefur haft á verðlag í landinu og lífskjör. Ég skal ekki fara langt út í það núna til að tefja ekki fyrir málinu, en ég vil bara í því sambandi rifja upp, að dýrtíðarvísitalan hefur hækkað um 47 stig, þ.e.a.s. sá þáttur dýrtíðarvísitölunnar, sem sýnir vörur og þjónustu. Þá kemur spurningin: Hvað er þessi dýrtíðarvísitala? Ég tók eftir því, að hæstv. ráðh. talaði í Ed. heldur niðrandi um þessa vísitölu, og manni heyrðist á því, sem hann sagði, að hún væri ekki sérlega merkilegur gripur eða mælikvarði. En dýrtíðarvísitalan er nú samt sem áður yfirlit um nauðsynleg útgjöld venjulegra launamannafjölskyldna í landinu, venjulegrar launþegafjölskyldu, meðallaunþegafjölskyldu í landinu. Hún er ekkert ómerkilegri hlutur en það, að hún er yfirlit um, hvað slík fjölskylda telst þurfa til þess að lifa sómasamlegu lífi. Það er dýrtíðarvísitalan. Og ekki fyrir löngu var dýrtíðarvísitalan endurskoðuð með það fyrir augum að reyna að sýna sem sannasta mynd af þessu, og hún var endurskoðuð í samvinnu við launþegasamtökin í landinu. Dýrtíðarvísitalan er því enginn hégómi.

Þá kemur spurningin: Hvaða úrbót er að þessu frv. hæstv. ráðh. eða hæstv. ríkisstj., tollskrárfrv., í sambandi við dýrtíðina? Hvað verður linað mikið á dýrtíðarspennunni með þessu frv.? Hvað verður bætt mikið úr fyrir almenningi? Er þetta kjarabót fyrir almenning, teljandi kjarabót? Bætir hæstv, ríkisstj. hér eitthvað verulega úr?

Er skemmst af því að segja, að það, sem hér er á ferðinni, er þannig varið að þessu leyti, að hæstv. ráðh. mun hafa notað þau orð yfir það í Ed. að þetta frv. hafi ekki teljandi áhrif á dýrtíðarvísitöluna. M.ö.o.: það þýðir, að þetta frv. hefur ekki teljandi áhrif á afkomu meðallaunþegafjölskyldu í landinu, svo að það sé orðað blátt áfram og rétt. Þetta frv. hefur ekki teljandi áhrif á afkomu meðallaunþegafjölskyldu í landinu. Það er vitnisburðurinn, sem hæstv. ráðh. sjálfur gefur þessu frv., sem annað veifið er talað um sem einhvern atburð í efnahagsmálum og kjaramálum.

Eftir því sem ég kemst næst, munu sérfræðingar ekki telja taka því að reyna að reikna út, hver áhrif þetta hafi á vísitöluna eða afkomu meðallaunþegafjölskyldu í landinu, áhrifin séu ekki teljandi, eins og raunar hæstv. ráðh. mun sjálfur hafa orðað það. Það þýðir vafalaust, að hér mundi vera um að ræða aðeins brot úr vísitölustigi. Og þegar við sjáum, að hæstv. ríkisstj. hefur með margvíslegum ráðstöfunum á undanförnum árum hækkað vísitölu vöru og þjónustu um 47 stig, þá skiljum við, hvað hér er að gerast. Þetta frv. á að vera talsverð fjöður í hattinn, að því er manni skilst. Það er verið að gefa til baka eftir viðskiptin á kjörtímabilinu. Enn þá er það þannig varið, að dýrtíðarvogin mælir það ekki, tekur það ekki, það er fyrir neðan það, sem vogin tekur. Aftur á móti hefur ekki borið á öðru en vegin hafi getað mælt hækkanir hæstv. ríkisstj. Þær hafa verið það ósleitilega útilátnar, að þær hafa fullkomlega haft áhrif á vogina, því að það eru ekki minna en 47 stig á vörum og þjónustu.

Ég skal ekki fara út það hér, hvernig þessar álögur duga yfirleitt. En útlitið er, að því er manni skilst, ekki nema miðlungi gott, þó að hæstv. ráðh. telji, að tekjur muni skila sér, vegna þess að innflutningur muni enn vara á miður nauðsynlegum vörum. En eitthvað vænti ég, að það mundi þá snerta gjaldeyrinn, ef það yrði. En látum það nú vera.

En ekki verður þetta þó of drjúgt, því að ráðgerðar eru í öllum áttum lántökur til að greiða ýmsa liði í ríkisbúskapnum, sem áður hafa yfir höfuð verið greiddar af tekjum, og þar með skotið til framtíðarinnar stórfelldum fúlgum. Og ekki gerir það þessi málefni léttari viðfangs framvegis, þegar búið verður að kjósa. En lán eru ráðgerð í rafveituhalla, lán til að greiða framlög í atvinnuleysistryggingasjóð, lántökur í skólabyggingar, lántökur í lögreglustöð, lán til að borga ríkisábyrgðatöpin og lán í vegagerðir, og þannig mætti vafalaust lengur telja, þó að ég skuli ekki halda því lengur áfram. Þetta er það, sem ég man eftir núna í bili af lántökum, sem settar eru utan við ríkisbúskapinn.

Það má segja, að það sé í einni grein talsverð tilslökun á tollum, og, það er á landbúnaðarvélum, þ. á m. dráttarvélum, og er augljóst, að í því efni hefur stjórnin svignað undan þrýstingi frá framsóknarmönnum, sem hafa á kjörtímabilinu þráfaldlega flutt till. um að fella niður aðflutningstoll á þessum tækjum og vélum vegna þess, hversu þær eru orðnar óhóflega dýrar. Má segja, að í þessu sé gengið til móts við sjónarmið framsóknarmanna og þarna tvímælalaust um árangur af þeirra baráttu að ræða. Á hinn bóginn verður að harma, að hæstv. ríkisstj. sér sér ekki fært að ganga lengra í þessu efni og taka inn í till. lækkun á ýmsum öðrum tollum, sem framsóknarmenn hafa barizt fyrir, og mun verða reynt hér eins og í Ed. að fá nokkrar lagfæringar á því.

Ég skal svo aðeins að lokum í örfáum orðum rifja upp þá heildarmynd, sem mér sýnist núna blasa við í skatta- og tollapólitíkinni. Hún er í stuttu máli svona: Öll núv. aðflutningsgjöld á að innlima i verðtollskerfið og lækka í leiðinni sem svarar 1/3 af bráðabirgðasöluskattinum, sem marglofað var að fella niður alveg. Þennan bráðabirgðasöluskatt á að innlima nú að 2/3 hlutum a.m.k. í verðtollskerfið til frambúðar. Heildarálögur til ríkissjóðs hafa síðan 1958 hækkað, eins og ég sagði áðan, um 1400 millj., fyrir utan mýmörg aukagjöld, sem haldið er utan ríkisreiknings og fjárl. Með þessu frv. er gert ráð fyrir að sleppa í bili örlitlum hluta af þessum gífurlegu nýju álögum. Þá blasir það einnig við, að tollabyrðin hefur verið í varandi mæli flutt yfir á brýnustu lífsnauðsynjar, og á það m.a. þátt í því, hversu útgjöld meðallaunþegafjölskyldunnar í landinu hafa hækkað gífurlega, svo sem ég var að greina frá áðan. M.a. hefur á þessu kjörtímabili í fyrsta sinn verið lagður skattur á neyzlufisk, kjöt og eins konar söluskattur á mjólk. Slíkt er með öllu fordæmalaust áður í Íslandssögunni. Ríkisstj. lætur loks undan síga margra ára baráttu Framsfl. fyrir lækkun aðflutningsgjalda á landbúnaðarvélum, en tekur ekki á hinn bóginn tillit til ýmissa lækkunartill., sem flokkurinn hefur verið með á öðrum vörum. Jafnhliða því, sem aðflutningsgjöldin eru þannig innlimuð til frambúðar í v erðtollinn og þar á meðal bráðabirgðasöluskatturinn að 2/3, þá eiga söluskattar innanlands, sem stjórnin hefur innleitt, allir að haldast óbreyttir. Hér við bætist, að vísitala beinna skattaútgjalda hjá vísitölufjölskyldunni, — ég sagði beinna skatta hjá vísitölufjölskyldunni, þ.e.a.s. hjá meðalfjölskyldu, — hefur hækkað, en ekki lækkað á kjörtímabilinu til viðbótar öllum þessum gífurlegu nýju tollaálögum. En það hefur átt að vera, eins og við þekkjum, skrautblóm á vegum hæstv. ríkisstj., hve beinir skattar hafi lækkað mikið. En hjá meðallaunþegafjölskyldu hafa beinir skattar hækkað og vísitala beinna skatta hækkað. Það er vegna þess, að beinir skattar á þeim tekjum, sem þarf til að geta borgað útgjöld vísitölufjölskyldunnar, hafa hækkað, en ekki lækkað á þessu tímabili. Þetta mundi ég segja, að væri niðurstaðan af skatta- og tollapólitíkinni.

Að lokum vil ég svo aðeins benda á það enn, að meginstefna hæstv. ríkisstj. hefur verið að leita jafnvægis, sem hún kallar, í efnahagsmálunum með því að hækka allt verðlag og auka dýrtíðina og kostnaðinn við lánsfé, og allar hennar ráðstafanir hafa ævinlega byggzt á þessu. En þessi stefna leiðir óhjákvæmilega til síhækkandi ríkisútgjalda með óstöðvandi hraða, eins og reynslan glögglega sýnir. Og því er alveg augljóst, að eftir kosningarnar leiðir þessi stefna til nýrra söluskatta eða nýrra álaga eða nýrra gengislækkana, og áfram sama veltan og verið hefur síðan 1960, ef ekki verður breytt um stefnu.