18.04.1963
Neðri deild: 75. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1299 í B-deild Alþingistíðinda. (1221)

227. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. 2. minni hl (Lúðvík Jósefsson):

Herra forseti. Eins og þegar hefur komið fram í þessum umr., hefur fjhn. d. ekki orðið sammála um afgreiðslu málsins. Meiri hl, n., stuðningsmenn ríkisstj. í n., vill láta samþ. frv. í því formi, sem það kom frá Ed., og treysti sér ekki til þess að standa að því, að gerðar verði á frv. neinar breytingar. Ég tel nú þegar óhjákvæmilegt, að gerðar séu breyt. á frv., og kaus því þann háttinn að gefa út sérstakt nál. um afstöðu mína til málsins, og er það birt á þskj. 683.

Undirbúningur þessa máls hefur verið með óeðlilegum hætti. Ríkisstj. kaus að hafa þann hátt á, að skipa starfsmenn sína til þess að fara yfir gildandi lög og reglur um tolla og aðflutningsgjlild og umsteypa fyrri lagaákvæðum í einn nýjan frv: bálk, en hún hefur varazt að leyfa stjórnarandstöðunni að koma nokkuð nærri þessum undirbúningi. Þó að ríkisstj. hafi haldið á undirbúningi málsins á þennan hátt, hefur hún eigi að síður farið þannig að, að hún leggur ekki þetta flókna og mikla mál hér fyrir til afgreiðslu, fyrr en komið er rétt undir þinglok. Það er því alveg augljóst mál, að stjórnarandstaðan hefur i rauninni enga aðstöðu til þess að geta staðið þannig að afgreiðslu þessa máls, sem eðlilegt ætti að telja. Ríkisstj. taldi þó rétt á undirbúningstíma málsins að leyfa ýmsum aðilum utan þings að fylgjast með því, sem verið var að gera. Það kom t.d. fram í blöðum verzlunarmanna, að verzlunarmannasamtökin höfðu fengið málið til athugunar nokkru fyrir áramót, þó að þm. stjórnarandstöðunnar fengju hins vegar ekki að sjá málið fyrr en komið var undir þinglok. Og hæstv. fjmrh., sem lagði frv. fram hér á Alþ., kaus að hafa þann hátt á að ræða efni frv. fyrst á almennum stjórnmálafundi á vegum síns flokksfélags, áður en hann mælti fyrir frv, hér á hv. Alþ. Ég tel, að slík vinnubrögð sem þessi, sem hér hafa verið viðhöfð um jafnstórt og viðamikið mál eins og tollskráin er, séu vítaverð. Hér eru í rauninni brotnar almennar lýðræðis- og þingræðisreglur, og þm. er ekki gefinn eðlilegur kostur á því að standa að afgreiðslu þýðingarmikilla mála á Alþ. Það er svo líka alveg augljóst, að það nær engri átt, að Nd. Alþ. skuli vera sett frammi fyrir þeim vanda að verða að afgreiða slíkan lagabálk eða slíkt frumvarpsbákn og hér liggur fyrir án þess að mega gera nokkrar breytingar á frv., þó að menn sjái, að augljóslega þyrfti að gera þar á ýmsar breytingar. Þeir, sem standa vilja að samþykkt frv. óbreytts, afsaka afstöðu sína með því, að það séu allar líkur til þess að vísu, að breyta verði frv., en þá verði bara að gera það t.d. á næsta þingi eða síðar. Ég tel, að slík vinnubrögð sem þessi séu fordæmanleg og það beri að varast þau í framtíðinni.

Það er sagt, að höfuðbreytingarnar, sem þetta frv. felur í sér frá gildandi innflutningsgjaldaákvæðum, séu fólgnar í því að sameina margar tegundir af innflutningsgjöldum, sem áður giltu, í einn verðtoll á hverri vörutegund, og að auk þess sé hér um allmikla samræmingu að ræða á tollum hinna ýmsu vöruflokka. Það er auðvitað enginn vafi á því, að sú breyting að gera aðflutningsgjöldin einfaldari en þau hafa verið í formi, hún er gagnleg, og það var auðvelt að koma þeirri breytingu við án þess að viðhafa þau vinnubrögð, sem viðhöfð hafa verið við undirbúning þessa máls. Það er sagt, að frv. stefni að nokkurri lækkun á tollum frá því, sem verið hefur. Reiknað er með, að tollalækkunin geti numið um 97 millj. kr., miðað við það innflutningsmagn, sem var árið 1962. Það er þó ljóst, að þessi tiltölulega litla lækkun á heildartollinnheimtunni kemur að litlu eða engu leyti niður á almennum nauðsynjavörum. Lækkunin er mestmegnis á þeim vörum, sem yfirleitt hafa verið flokkaðar sem ónauðsynlegar vörur eða ekki almennar notavörur. Þannig virðist t.d. ein mesta lækkunin á tollum frá því, sem í gildi hefur verið, eiga að verða á varahlutum í alls konar bifreiðar. Og auk þess lækka svo tollar á öllum þeim vörum, sem hæst voru tollaðar áður, eins og alls konar glysvarningi og munaðarvörum.

Ég tel, að þessi breyting sé mjög vafasöm. Það hefði verið miklu meiri þörf á því, að láta þá lækkun, sem fært þótti að gera á tekjustofnum ríkisins, koma niður á ýmsum öðrum vöruflokkum en gert er í þessu frv. Mér sýnist líka, að sú gífurlega tollvernd, sem verið hefur fyrir innlendan iðnað í mörgum greinum fram til þessa, eigi í öllum aðalatriðum að halda áfram. Afram á það að verða svo, að fjölmargar vörur, sem framleiddar eru hér í landinu, eiga í innflutningi að tollast um 100% og allt upp í 125% og þannig í ýmsum tilfellum að vera áfram útilokað að flytja þær vörur inn, nema þá með því, að þeim sé haldið í óeðlilega háu verði í landinu. Mér sýnist líka, að það sé ljóst, að áfram eigi að vera mikill mismunur á milli einstakra framleiðslugreina í þessari tollvernd. Það vandamál, sem auðvitað þarf að taka til athugunar tiltölulega fljótlega, er tollvernd íslenzka iðnaðarins og það mikla misræmi, sem þar er á milli einstakra iðngreina. Við því hefur að sáralitlu leyti verið hreyft í sambandi við þá endurskoðun, sem hér hefur farið fram á tollalöggjöfinni.

Það hefur verið á það bent hér í þessum umr., að tollar muni vera orðnir miklu hærri hér á landi en í flestum eða öllum öðrum löndum, og enginn vafi er á því, að hinir raunverulegu tollar hafa hækkað til mikilla muna í tíð núverandi ríkisstj. Það hefur verið gert oftast nær með öðrum hætti en þeim að hækka tollskalana sjálfa. Það hefur veríð gert með endurteknum gengislækkunum, því að á þann hátt er vitanlega hægt að hækka verðtollinn í krónum talið á innflutningsvörum, og það hefur verið gert með því að leggja á nýja söluskatta. Alla þessa gífurlegu skattabyrði á nú að lögbinda til frambúðar í formi eins verðtollsgjalds. Það er enginn vafi á því, að þegar málunum hefur þannig verið komið fyrir, þá mun hin raunverulega hækkun, þegar um gengisbreytingu er að ræða, verða enn þá meiri og tilfinnanlegri á tollinnheimtu ríkisins heldur en hún nokkurn tíma hefur verið að undanförnu. En eins og ég hef sagt hér áður, þá er ljóst, að það er ætlun hæstv. ríkisstj. að koma í veg fyrir allar breyt. á frv. frá því, sem nú er orðið. Ég tel því í rauninni nú á síðustu dögum þingsins tilgangslítið að halda hér uppi löngum umr. um þetta mál, þó að það gefi vissulega tilefni til þess. Ég sé ekki heldur ástæðu til að flytja hér margar brtt., þegar þessi afstaða ríkisstj. liggur hér fyrir, að hún getur ekki fallizt á neinar breytingar, þar sem hún er komin í tímahrak með afgreiðslu málsins. Ég hef því kosið að hafa þann hátt á að flytja tiltölulega fáar brtt., og þær hef ég flutt hér á þskj. 684. Allar brtt. mínar, sem eru á því þskj., eru um að lækka nokkuð frá því, sem gert er ráð fyrir í frv., tolla á almennum nauðsynjavarningi.

Í till. mínum er gert ráð fyrir því, að tollar verði nokkuð lækkaðir á ýmsum tegundum af búsáhöldum. Ég geri þó ráð fyrir því, að tollar á þessum vörum verði áfram verulega háir, en i stað 80 og 100%, sem segir í ýmsum gr. frv. að tollur skuli vera á slíkum varningi, legg ég til að færa tollinn niður í 50% og í sumum tilfellum niður í 35%.

Þá legg ég til, að tollur á ýmiss konar fatnaði, fatnaði karla og kvenna, nærfatnaði og ytri fatnaði, verði lækkaður nokkuð frá því, sem lagt er til í frv. Þar er um svipaða lækkun að ræða, í ýmsum tilfellum frá 90%, nokkrum frá 70% og niður í 50–60%. Þá legg ég til, að tollur á hreinlætistækjum verði einnig lækkaður úr 80% í 50%. Á þvottavélum og öðrum slíkum varningi verði líka um nokkra lækkun að ræða. Ef það hefði virkilega vakað fyrir að breyta tollunum til hagsbóta fyrir almenning, þá hygg ég, að tollalækkanir af því tagi, sem mínar till. fjalla um, hefðu verið bornar fram í frv. En mér sýnist, að allt annað hafi vakað fyrir hæstv. ríkisstj. með breyt. sínum á tollalöggjöfinni heldur en að koma fram tollalækkun á nauðsynjavarningi almennings.

Þá flyt ég einnig till. um það, að ríkisstj. verið heimilað að endurgreiða þeim, sem byggja íbúðarhús, nokkurn hluta eða 75% af þeim aðflutningsgjöldum, sem hvíla á byggingarefninu. Þessi till. er í samræmi við till., sem við Alþýðubandalagsmenn höfum gert hér áður á Alþ. og rökstutt hér ýtarlega. Ég vil benda á í sambandi við þessa till., að fordæmi eru fyrir því, að slík endurgreiðsla fari fram. Nú eru alveg hliðstæð ákvæði í lögum um endurgreiðslu á tollum í sambandi við smíðar á fiskibátum innanlands, eins og þarna er gert ráð fyrir að taka upp í sambandi við íbúðarhúsabyggingar. Það væri því mjög auðvelt að koma þessari endurgreiðslu við. Hér er aðeins spurningin um það, hvort ríkisstj. vill láta fallast á að létta tollum nokkuð af byggingarefni til íbúðarhúsabygginga, þar sem um er að ræða byggingar íbúða af hóflegri stærð.

Ég skal svo ekki eyða lengri tíma af takmörkuðum tíma þingsins í ræðuhöld um þetta mál, en vonast til þess, að brtt. mínar, þær sem ég hef nú gert grein fyrir, verði samþ.