18.04.1963
Neðri deild: 75. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1305 í B-deild Alþingistíðinda. (1223)

227. mál, tollskrá o.fl.

Frsm. 8 minni hl. (Lúðvík Jósefsson):

Hæstv. forseti. Það voru nokkur orð í sambandi við ræðu hæstv. fjmrh. Það hafði komið illa við hann, að bent var á staðreyndir málsins í sambandi við undirbúning hans að þessu máli, sem hér liggur fyrir. Hann reynir nú að afsaka það, hvernig hann hefur haldið á málinu, og drap hér á þrjú atriði, sem fundið hafði verið að, og taldi sig geta réttlætt þau.

Það fyrsta var, eins og hann orðaði það, að fundið væri að því, að sérfræðingar hefðu unnið að undirbúningi málsins. Að þessu hefur enginn fundið, þvert á móti. Það hefur komið greinilega fram, að allir ætlast til þess, að sérfræðingar vinni að undirbúningi slíks máls eins og hér er um að ræða. En venjan hefur verið sú, að alþm. væri einnig gefinn kostur á því, þegar á að umsteypa slíkri löggjöf eins og hér um ræðir, að fylgjast með því. Það var sú venja, sem var brotin af hæstv. fjmrh. í þessu tilfelli og ekki einu sinni, heldur allan undirbúningstímann í gegn, því að það virtist vera sérstakt kappsmál hjá hæstv. ráðh: að halda þessu máli þannig á öllu undirbúningsskeiðinu, að alþm. úr stjórnarandstöðunni gætu þar ekki fylgzt með. Sá háttur hafði verið hafður hér á oftsinnis áður, að Alþingi kysi mþn., þegar tollskráin var tekin til endurskoðunar. Varðandi einstök dæmi um það, að kosnir hafi verið alþm. í nefndir og það hafi gefizt illa, þá held ég megi nefna mörg dæmi þess, að ríkisstj. hafi skipað nefndir, sem ekkert hefur komið frá. Slíkt eru ekki frambærileg rök fyrir þeim hætti, sem hæstv. ráðh. hefur haft á í þessum efnum.

Þá segir hæstv. fjmrh., að það sé ekki rétt, að hann hafi leitað eingöngu ráða hjá samtökum kaupmanna og iðnrekenda um samningu hinnar nýju tollskrár. Ég a.m.k. hef ekki haldið því fram, að hæstv. ráðh. hafi ekki leitað til annarra. En mér var kunnugt um það, að í blöðum verzlunarmanna hafði það birzt fyrir jól, að þeir væru um tíma búnir að hafa málið til umsagnar og athugunar. En þá var mér einnig kunnugt um það, að við þm. úr stjórnarandstöðunni höfðum óskað eftir því að fá að sjá þessi sömu drög, sem þá lágu fyrir af tollskrármálinu, að við, sem áttum að vinna að afgreiðslu málsins í n. á Alþingi, fengjum þá þegar að fylgjast með þessum undirbúningi málsins, og okkur var neitað um það, okkur alþm, var neitað um þann rétt, sem verzlunarmönnum var boðið upp á og iðnrekendur máttu verða aðnjótandi. Það er þetta, sem er fundið að. Ég veit, að hæstv. fjmrh. veit mætavel, að óskir voru lagðar fram um það á þessum tíma, að stjórnarandstaðan fengi að fylgjast með undirbúningi málsins, m.a. til þess að greiða fyrir afgreiðslu málsins, þegar það yrði lagt fram á Alþ. En ríkisstj. var ekki á þeim buxunum að leyfa helmingi alþm. eða þar um bil að fylgjast með málinu, þó að kaupsýslumenn mættu fylgjast með því, hvernig setti að breyta tollalöggjöf landsins. En sá háttur hefur verið hafður á hingað til, að það væri nauðsynlegt einmitt að halda vissum upplýsingum frá slíkum aðilum, til þess að þeir gætu ekki notfært sér þær á óeðlilegan hátt. En nú var annar háttur hafður á. Og svo kemur þessi skýring frá hæstv. ráðh., að honum þótti alveg sjálfsagt að leita til samtaka iðnrekenda og verzlunarmanna og, eins og hann segir, fulltrúa atvinnuveganna, en það átti að varast að leyfa fulltrúum almennings í landinu að fylgjast með því, hvað var verið að gera. Þó að tollskrá varði vissulega mikið verzlunarmenn og iðnrekendur og atvinnurekendur, þá varðar fulltrúa almennings í landinu, þá menn, sem eru kjörnir af almenningi í landinu til þess að fjalla um þessa lagasmíð, ekkert minna um þessi mál heldur en atvinnurekendur og verzlunarmenn. Og það hefði hæstv. fjmrh. átt að vita.

Svo segir hæstv. fjmrh., að það hafi ekki verið mikið saknæmt við það, þó að hann hafi fyrst gert grein fyrir tollskrárfrv. á almennum stjórnmálafundi í sínu stjórnmálafélagi, áður en hann mælti fyrir frv. á Alþingi, vegna þess að hann hafi þó verið búinn að leggja frv. hér fram. Jú, það er rétt. Málinu var útbýtt í skyndi hér á Alþ. þann daginn, sem fundurinn í sjálfstæðisfélaginu hér í Reykjavík var haldinn um málið. Það er auðvitað enginn að fara fram á það að múlbinda hæstv, ráðh., hvorki í þessum málum né öðrum. Hann hefur auðvitað fulla aðstöðu til þess að tala um málin eins og honum sýnist. En það er vægast sagt mjög óviðkunnanleg aðferð með tilliti til alls undirbúnings í þessu máli, þegar hann hefur þann hátt á að gera grein fyrir slíku máli sem tollskrárfrv. er, að fara fyrst á almennan stjórnmálafund og gera þar grein fyrir málinu, áður en honum vannst tími til þess að tala fyrir málinu á Alþ. Og hver hafði komið í veg fyrir það, að hæstv: ráðh, gæti talað fyrir málinu á Alþ., áður en hann talaði fyrir því á Varðarfundi? Var það kannske stjórnarandstaðan, sem hafði þvælzt þar fyrir? Ætli hæstv. ráðh. hefði ekki getað lagt fram frv. einum deginum fyrr og mælt þá fyrir málinu? Nei, það var bara vegna þess, að hann var svona síðbúinn með frv. og hafði lagt á það slíka ofsaáherslu allan tímann, að alþm. skyldu þó ekkert fá um að vita utan stjórnarliðsins, fyrr en þeim væri sagt, að nú setti að fara að bera málið upp á Alþ. og afgreiða það.

Hæstv, ráðh. veit það mætavel, að sá tími, sem Alþ. hefur verið ætlaður til þess að afgreiða þetta stórmál, er allsendis ónógur. Það hefur engin aðstaða unnizt til þess í þeim nefndum, sem hafa fjallað um málið, ekki einu sinni að lesa frv. sameiginlega yfir. Ég held því, að það væri eðlilegast, að hæstv. ráðh. bæði afsökunar á því, hvernig til hefur tekizt, og að hann hefði ekki ætlað eins illt með þessum undirbúningi og undirbúningurinn bendir þó til.

Nei, þegar slík lagasetning er undirbúin eins og ný tollskrá, þar sem fyrri reglan er gersamlega umsteypt og allt sett í alveg nýtt form frá því, sem áður hafði v erið, þurfti auðvitað á rúmum tíma að halda, til þess að þeir, sem eiga að bera ábyrgð á lagasetrúngunni, þeir sem eru til þess kosnir að standa að lagasetningu, hefðu einhverja möguleika á því að fylgjast með því, hvað um var að ræða. Þó að verzlunarmenn og iðnrekendur séu mikilsverðir, þá eru það ekki þeir út af fyrir sig, sem bera ábyrgð á setningu laga á Alþ. Til þess hafa ákveðnir menn verið kosnir, og þeir eiga að fá tækifæri til þess að fylgjast með því, hvað er verið að lögleiða á hverjum tíma.

Ég álít því, að þær aths., sem ég hef gert viðvíkjandi undirbúningi málsins, hafi allar átt fullan rétt á sér, og ég get ekki séð, að þau orð, sem féllu hér frá hæstv. fjmrh., hafi afsakað hans gerðir viðvíkjandi ófullnægjandi undirbúningi og óeðlilegum undirbúningi málsins á nokkurn hátt.