19.11.1962
Neðri deild: 16. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1335 í B-deild Alþingistíðinda. (1304)

58. mál, búnaðarmálasjóður

Jón Pálmason:

Hæstv. forseti. Ég bjóst nú við því, að hér mundi tala einhver frsm. fyrir hv. landbn. En úr því að það er ekki, þykir mér ástæða til að segja um þetta mál fáein orð. Og satt að segja furðar mig á því, að hv. landbn. þessarar d. skuli flytja frv. um það að framlengja þennan milljónaskatt á bændastétt landsins, sem búinn er að vera í gildi í 4 ár og í upphafi var gert ráð fyrir að ekki mundi verða framlengdur.

Á þinginu 1958 var hér talsvert hörð barátta í þessari hv. d. um afgreiðslu þessa gjalds, og á því þingi var ég algerlega andvígur því að samþykkja þennan milljónaskatt. Á sama hátt barðist hæstv. núv. landbrh. algerlega gegn þessu máli, og sýndum við sameiginlega með glöggum rökum, hvílíkt öfgamál hér væri á ferðinni. Nú var það svo, að á því þingi var af flm. málsins gert ráð fyrir því, að þetta stóra hús, sem sennilega er stærsta hús, sem byggt hefur verið hér á landi, mundi kosta 25–30 millj. kr., og ef svo hefði verið, þá var náttúrlega fyrir sig, að í þetta væri ráðizt. En ég og hv. þáv. 1. þm. Rang., núv. hæstv. landbrh., sýndum fram á, að þetta næði ekki nokkurri átt, því að húsið mundi verða miklum mun dýrara en þessu næmi. Og nú er það að koma í ljós, að það munar ekki neinum smáum upphæðum á þessari húsbyggingu, því að eftir fregnum, sem ég hef af því, er það orðið alveg víst, að kostnaðurinn við þessa húsbyggingu fer á annað hundrað millj., og má mikið vera; ef fer ekki svo, um það er lýkur, að það verði 100 millj. kr. hærri kostnaðurinn við þessa byggingu en 25 millj., sem var áætlað að kosta mundi í byrjun. Og það er rosalegasta áætlunarhækkun, sem maður hefur heyrt getið um.

Á þinginu 1958 flutti ég sem minni hl. landbn. dagskrártill. um það að vísa þessu máli frá og vék að því m.a., sem ég rakti rækilega í umr., að það væru mörg önnur mál, sem bændastéttinni riði meira á að fá fram, heldur en hótelbygging hér í Reykjavík, sem ég taldi að væri eitt þeirra mála, sem sveitamennirnir ættu einna sízt að skipta sér af. Ég vék m.a. að því, hvað mikið er eftir af vega- og brúargerðum til þess að fullnægja þörfinni í okkar dreifðu sveitum, og ég vék að því, hvernig ástatt væri um rafmagnsmálin, sem eru eitt mesta áhugamál almennings í sveitum landsins, og svo er um margt fleira. Ég sýndi fram á það og færði að því nokkuð sterk rök, að í mínum landsfjórðungi, Norðlendingafjórðungi, væri það nokkurn veginn áreiðanlegt, að þar væri meiri hl, bændanna á móti þessum skatti.

Hæstv. núv. landbrh. flutti tvær brtt. við frv. á því þingi, aðra um það, að þetta skyldi borið undir atkv. allra bænda í öllum búnaðarfélögum landsins til þess að fá sannað, hvort meiri hl. bændanna væri með þessu eða hve mikill hluti bænda vildi fallast á þetta. Þessi till. var stráfelld af þeim, sem börðust fyrir þessu máll. Aðra till. flutti hæstv. núv. landbrh. á þessu þingi, og hún var á þá leið, að ef þessi skattur yrði á lagður, þá skyldi hann ganga inn í verðlagið, svo að hann félli á þjóðina alla. Þetta var einnig fellt og frv. samþ. eins og það lá fyrir, sem er 1/2% gjald á allar söluvörur landbúnaðarins.

Nú hef ég að vísu ekki upplýsingar um það; hve mikið búið er að leggja í þetta hótel í gegn um þetta skattgjald, en það er áreiðanlegt, að eins og nú er komið með allri þeirri verðhækkun, sem orðið hefur, þá verður þetta skattgjald miklu hærra en það hefur þó verið á undanförnum árum, og má gera ráð fyrir, að þetta verði 4–5 millj. kr. á ári og getur orðið náttúrlega hækkandi, eftir því sem lengra líður.

Nú er það svo, að þetta hús er það langt komið, búið að byggja það svo mikið, að það má gera ráð fyrir, að það sé sjálfsagt; að það verði að ljúka við það. En þeir mörgu menn, sem barizt hafa fyrir þessu og stutt að því, og þær félagsstofnanir, sem þar standa að, ættu að hafa svo mikið áhrifavald, að þær ættu að geta komið því til leiðar, að þessu væri lokið með lánsfé, því að það er auðvitað eina rétta leiðin, að þessu húsi, að svo miklu leyti sem vantar fé í það, sé lokið með lánsfé. Kæmi þá alveg greinilega fram á næstu árum, hve mikil stoð er í þeirri höfuðröksemd forustumanna þessa máls, búnaðarþingsmanna og annarra, að þetta geti verið gróðafyrirtæki fyrir Búnaðarfélag Íslands og Stéttarsamband bænda, að stofna þetta hótel og reka það. En mér finnst, að ef hv. Alþingi ætti nú að fara að framlengja þennan milljónaskatt á bændastéttina, þá bendi það til þess, að þeir, sem fyrir byggingunni standa og ætla að reka hana, séu fyrir fram að gefa yfirlýsingu um, að það þurfi að fá peninga til þess að standa undir rekstrarhallanum á þessari starfsemi, og það sé þess vegna algerlega öfugt við það, sem þeir hafa áður haldið fram, bæði í einkaviðræðum og opinberlega, að til þessa væri stofnað til þess að gera að gróðafyrirtæki fyrir þær stofnanir, sem hér eiga hlut að máll.

Nú er annars að geta einmitt í þessu sambandi. Og það er það mál, sem hér lá fyrir og var harðvítugt deilumál á síðasta þingi og fjallaði um það að koma á réttan kjöl aðallánastofnunum landbúnaðarins, ræktunarsjóði og byggingarsjóði. Þeir sjóðir voru komnir í það ástand, þegar núv. hæstv. ríkisstj. tók við, að það vantaði stóra upphæð til, að þeir ættu fyrir skuldum. Og þó var sá reikningur miðaður við það, að öll útistandandi lán þessara lánastofnana mundu innheimtast. En þó að við höfum nú verið nokkuð bjartsýnir í því efni og séum það að vísu enn, þá er það með þessar stóru lánastofnanir eins og margar fleiri, að það er næsta lítil von til þess, að það verði ekki eitthvað af lánunum, sem ekki innheimtist.

Nú var um tvennt að velja fyrir bændastétt landsins, þegar svona var komið. Annaðhvort var að leggja eitthvað af mörkum til að fá enn meira af ríkisins hálfu til að leiðrétta ástand þessara stofnana og koma þeim í starfhæft ástand aftur, eins og við, sem vorum því samþykkir, töldum einu réttu leiðina, ellegar hitt hefði orðið að gera, að láta starfsemi þessara sjóða stöðvast a.m.k. í bili. En ég verð að segja það, að mér þykir mjög undarlegur hugsunarháttur þeirra manna, sem eru sömu mennirnir, sem börðust mest fyrir þessum hótelskatti og gera það sjálfsagt enn, en börðust algerlega gegn því, að það væri lagður nokkur eyrir fram af bændastéttarinnar hálfu til þess að koma í starfhæft ástand aðallánastofnunum bændanna, ræktunarsjóði og byggingarsjóði. Ég get ekki annað en vikið að þessu í þessu sambandi, því að þetta er einhver undarlegasti hugsunarháttur, sem fram kemur þarna hjá þessum mönnum, að það er erfitt að finna samanburð í okkar félagsmálastarfsemi.

Nú hefur því að vísu alltaf verið haldið fram sem aðalröksemd fyrir þessari byggingu, að hún hefði verið nauðsynleg vegna starfsemi Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. En ég verð að segja, að það hefði fyrir löngu verið hægt að byggja ríflegt hús til þeirrar starfsemi fyrir um 10 millj. kr., svo að maður taki nú ekki neina smáupphæð til. En aðaldeilumálið í þessu efni er hótelbyggingin, sem sagt er að eigi að verða dýrasta og veglegasta hótel hér á landi, og á annan hátt líka veizlunarhúsnæði, sem í þessari höll á að vera. Ef líkur eru til þess, að þetta verði svo arðvænlegt, þessi hótelrekstur og verzlunarbygging, eins og forustumennirnir hafa viljað vera láta, þá á ekki að þurfa að vera að pína bændastéttina með milljónaskatti árlega í þessa starfsemi, heldur á hún þá að geta staðið undir sér og fullnægt sínum þörfum með lánsfé, hvort sem þeir, sem fyrir því standa, geta kríað það út erlendis eða innanlands.

Ég vildi nú taka þessi atriði fram til þess að sýna það og láta hv. alþm. vita, að ég hef óbreytta skoðun á þessu máli frá því, sem var 1958 á þinginu, og ég er ófáanlegur til þess að greiða atkv. með þessu frv., sem hér liggur fyrir. En það má vera, úr því að hv. landbn. er öll sammála um flutninginn á þessu máli, að það sé búið að undirbúa það svo, að þetta sé tryggt í gegn. Það verður þá að vera. Ef ég verð hér við atkvgr., þá verður það gegn mínum vilja og mínu atkv.