19.11.1962
Neðri deild: 16. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1339 í B-deild Alþingistíðinda. (1305)

58. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. (Gunnar Gíslason):

Hæstv. forseti. Hv. 4. þm. Norðurl. v. (JPálm) lét í ljós undrun sína á því, að við þessa umr. skyldi ekki koma fram frsm. af hálfu landbn. Ég vil aðeins skýra það, að frv. þetta er flutt af landbn. samkv. ósk Búnaðarfélags Íslands og byggingarnefndar Bændahallarinnar og var hér til 1. umr. um daginn. Þá var því ekki vísað aftur til n., og n. sá þess vegna ekki ástæðu til að gefa út sérstakt nál., enda hygg ég, að séu fordæmi hér í þinginu fyrir slíkri meðferð mála, sem flutt eru af nefndum.

Það er að sjálfsögðu síður en svo, að það sé mér nokkurt fagnaðarefni, að til þess þurfi að koma að framlengja 1/2% viðbótargjaldið til búnaðarmálasjóðs vegna byggingar Bændahallarinnar. En eins og ég sagði við 1. umr. málsins, þá sé ég ekki, að það sé hægt að komast hjá þessu, m.a. vegna þess, sem hv. síðasti ræðumaður tók fram, að það er sýnilegt, að það þarf til að koma mikið lánsfé, til þess að það sé hægt að ljúka þessu verki, til þess að það sé hægt að reisa þetta hús, og ég fæ ekki séð, að það geti auðveldað lántökur, ef það kemur nú í ljós, að bændurnir, sem hafa óskað eftir þessari byggingu, eða samtök þeirra, vilja svo ekkert á sig leggja til þess að auðvelda lántökur og til þess að stuðla að því, að komizt verði frá því að byggja þetta mikla hús. Ég held því, að það verði ekki hjá því komizt að framlengja þetta gjald, ef bændurnir eða samtök þeirra vilja halda þessari byggingu og eiga hana. Og það hygg ég, að samtökin séu sammála um í dag að reyna.