19.11.1962
Neðri deild: 16. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1340 í B-deild Alþingistíðinda. (1306)

58. mál, búnaðarmálasjóður

Gísli Jónsson:

Herra forseti. Þetta mál var hér til 1. umr. 1. þ. m. og hefur ekki verið tekið á dagskrá síðan fyrr en í dag. Ég ætla mér hér ekki að ræða málið efnislega, en mér þykir eðlilegt að benda á, að ég tel það mjög óviðeigandi, að hv. landbn. skuli ekki gefa neinar aðrar upplýsingar um þetta mál hér í þessari hv. d. en það, sem kemur fram á þskj. 58. N. hefur nú haft þriggja vikna tíma til þess að gefa okkur upplýsingar, sem eigum að greiða atkv. um málið, til þess að fara eftir, en þær hafa hvorki komið fram hér í framsögu né heldur í framsögu við 1. umr.

Það er alveg rétt, sem hv. þm. sagði hér áðan, að það er ekkert óvenjulegt, að nefnd flytji frv, og að því sé ekki vísað aftur til hennar. En þegar um svo veigamikið mál er að ræða, eins og hér er til umræðu, og einkum að hér er um að ræða 100 millj. kr. skekkju frá raunverulegum áætluðum kostnaði, eftir því sem hv. 4. þm. Norðurl. (JPálm) upplýsti hér, þá hefði ekki verið óeðlilegt, að fyrir okkur lægi hér nákvæm skýrsla um það, hvernig þetta er tilkomið og hvort þetta sé endanlegur kostnaður við bygginguna eða hvort það megi vænta þess, að aftur 1965 verði enn óskað eftir framlengingu á þessu bráðabirgðaákvæði til þess þá að standa kannske undir enn öðrum 100 millj. kr., sem ekki er vitað um í dag.

Ég vil því mega leyfa mér að fara þess á leit við hv. form. landbn., að hann óski eftir, að þessari umr. verði frestað og að n. gefi út álit, þótt frv. hafi ekki verið vísað til hennar, svo að v ér þm. gætum séð, hvernig er saga þessa máls, hver er ástæðan fyrir því, að byggingin hefur kostað svo miklu meira en ákveðið var í upphafi, og hvaða möguleikar liggi til þess að geta lokið þessari byggingu án þess að leggja þessa byrði á bændurna. Ég held, að það sé það minnsta, sem við getum krafizt af landbn., að hún leggi fram eitthvað annað og meira í þessu máli en þessa stuttu grg., sem hún setur hér fram á þskj. 58 og segir bókstaflega ekkert til um málið. Kemur ekki einu sinni fram í grg, á þskj., hvort samþykktin, sem gerð er á aðalfundi Stéttarsambands bænda, hefur verið samþ. með öllum greiddum atkv. eða gegn einhverjum minni eða meiri hl. Hér kemur því ekkert fram um það, hvort þetta er raunverulega vilji bændanna sjálfra eða hvort þetta er aðeins vilji búnaðarþings, svo sem hér kemur fram.

Um sjálft málið skal ég ekki ræða, en ég vil endurtaka þá ósk mína til hv. formanns n., að hann óski eftir, að umr. verði frestað og að fyrir liggi hér fullkomin skýrsla um málið fyrir okkur þm. til þess að athuga, áður en gengið er til atkv. Liggi hún ekki fyrir, mun ég ekki sjá mér fært að greiða atkv. um málið yfirleitt. Ég veit ekkert, hvað ég er að gera, þegar ekki liggja fyrir önnur gögn en þau, sem fram koma í þessu þingskjali.