06.12.1962
Neðri deild: 26. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1344 í B-deild Alþingistíðinda. (1312)

58. mál, búnaðarmálasjóður

Björn Pálsson:

Herra forseti. Það hafa ekki orðið miklar umr. um þetta mál, og það virðist sem mér hafi viljað sem minnst um það tala, skjóta sér bak við það, að fulltrúar bænda hafi óskað eftir þessu og þetta sé vilji bænda og þess vegna sé sjálfsagt að gera þetta. En ef maður ræðir um þetta við einn og einn mann, hvort heldur er í búnaðarsamtökunum eða þm.„ þá virðist mér koma í ljós, að öllum þyki leitt að þurfa að samþykkja þetta gjald áfram. Ég held því, að bezt sé, að ég taki að mér að segja mína meiningu um þetta mál, fyrst ekki vilja aðrir verða til þess.

Arnór Sigurjónsson gerði yfirlit yfir það 1960, hvað nettótekjur bænda væru á öllu landinu, og þær urðu að meðaltali 64 þús. kr., en skv. áætlun, sem gerð var og gerð er árlega, þá var gert ráð fyrir 68 þús. kr., en þær voru 64 þús. kr. raunverulega, þannig að þær urðu 4 þús. kr. lægri. Hæstar urðu þær í Eyjafirði um 88 þús. kr., en lægstar í Norður-Múlasýslu 47 þús. kr. Í ár er gert ráð fyrir, að nettótekjur bænda verði 94 þús. kr. Það er gert ráð fyrir, að brúttótekjur þeirra verði 211 þús. kr. Af því eru aukatekjur, sem ekki eru af búsafurðum, nokkur hluti, þannig að tekjur af búsafurðum er gert ráð fyrir að verði 192 þús., þegar heimamjólk er frádregin, sem þetta gjald mundi ekki ná til. Þá er líklegt, að það mundu verða um 180 þús., sem búsafurðirnar mundu nema, sem þessi gjöld mundu ná til.

Nú er það svo, að bændur þurfa að borga 1% í Búnaðarbankann. Svo er gert ráð fyrir, að þeir borgi 1/2% í búnaðarmálasjóð, 1/4% til Stéttarsambands bænda, og 1/4% gengur svo til búnaðarsambandanna. Þetta eru því alls 2 %. 2 % af 180 þús. kr. gera 3600 kr., og bændur eiga að hafa 94 þús. kr. í kaup, en hafa það sennilega ekki, því að yfirleitt hafa þeir haft lægra kaup en gert er ráð fyrir. Þá er þetta dálítil fjárhæð. Þeir þurfa að sjá fyrir sínum heimilum, halda við íbúðarhúsum, greiða öll útgjöld og yfirleitt að sjá á allan hátt fyrir sinni fjölskyldu með þessum tekjum. Það er ekki mikil fjárhæð, þessar 90 þús. kr., og ef á að taka í þessi gjöld 3600 kr., þá er það dálítið tilfinnanlegt fyrir bændur. Allir verða að greiða þetta gjald, hvort sem þeir hafa miklar eða litlar tekjur.

Ég álít, að það minnsta, sem þingið geti gert, sé að athuga, hvort það sé engin leið önnur fær en þessi, hvort ekki sé eitthvað hægt að gera til að draga úr þessum aukaútgjöldum á bændur.

Það hefur mikið verið gert að því, og ekki sízt í tíð núv. ríkisstj., að leggja gjöld á brúttótekjur atvinnurekenda. Þetta hefur einkanlega náð til sjávarútvegsins, en einnig til bænda, og það er verið að auka þetta. Ég skal játa, að mér er meinilla við þessi útgjöld. Ég tel þau ósanngjörn og mjög hættuleg. Þetta getur gengið í góðum árum, en þegar illa árar, þá eru þetta óþolandi gjöld, og þau eru ranglát að því leyti, að þau koma jafnt niður á þeim, sem geta ekki borgað þau, og þeim, sem geta borgað þau. Gjöld, sem lögð eru á brúttótekjur, eru ævinlega meira eða minna vafasöm. En þetta er handhæg leið til að innheimta fé. Ég vil taka það fram, að ég álít, að það liggi ekki fyrir, að bændur vilji greiða þetta gjald. Upphaflega mun 4 ára gjaldið hafa verið borið undir bændur, en þá var það fullkomlega látið í ljós, að þetta kæmi ekki til greina nema 4 ár, og bændur hafa alls ekki verið að þessu spurðir. Ég veit, að ég sem bóndi hef aldrei verið að því spurður, hvort ég vildi framlengja þetta gjald. Hitt er annað mál, að þegar upphaflega var ráðizt í þetta fyrirtækt, að byggja þessa svokölluðu Bændahöll, þá var ekki gert ráð fyrir, að hún yrði svona dýr, eins og raun hefur á orðið. Gengislækkunin er búin að hækka hana um 20–30 millj.

Það er nokkur misskilningur, sem komið hefur fram hér í þeim litlu umr., sem fram hafa farið um þetta, að kostnaðurinn sé miklu hærri en upphaflega var gert ráð fyrir. Þetta er ekki rétt, ef tekið er tillit til allra aðstæðna, því að í upphaflegu áætluninni var gert ráð fyrir, að byggingin væri 25 þús. m3, en hún varð endanlega um 42 þús. m3. Þar að auki hefur byggingarvísitalan hækkað frá 1952 til 1962 úr 94 í rúmlega 170. Það eru hlutföllin. Það er sama, hvort maður notar það eða 900 og 1700. Byggingarvísitalan hefur hækkað nær um helming á þessu tímabili. Þetta hvort tveggja veldur því, að munurinn á áætluninni og byggingarkostnaði, ef þetta er tekið til greina, er sáralítill og ekki meiri en má búast við á mörgum byggingum.

Það má segja, að það þýði ekki að deila um orðinn hlut. Það er búið að ráðast í þessa byggingu. En hitt er ég sannfærður um, að þó að svona stór bygging hefði verið byggð fyrir bændasamtökin, ef þeir hefðu ekki ráðizt í hótelbygginguna, hefðu byggt þetta allt sem skrifstofubyggingu og getað leigt það út, þá þyrftu þeir á engri aðstoð að halda.

Ég er ekki mjög hræddur um, að þessi bygging geti ekki borið sig, jafnvel þó að það hafi verið ráðizt í hótelið, ef rétt er að farið, en það verður erfitt nú í bili. Vegna gengislækkananna hefur þessi bygging hækkað um 20–30 millj. Þetta er bara ein af afleiðingum gengislækkunarinnar, sem hefur komið fram í ótal myndum. Það hefði ekki þurft að leggja þetta 1% í Búnaðarbankann frá bændum, ef gengið hefði ekki lækkað svona mikið. Gengislækkunin er á ýmsan hátt að koma fram. Ég skal ekki fara út í það, því að það yrði langt mál, en þetta er ein afleiðingin.

Þeir bera meiri ábyrgð á þessum aðgerðum, Jóhannes Nordal og Jónas Haralz, en hin raunverulega ríkisstj., og þetta eru menn, sem ekki hafa mikla reynslu í atvinnumálum, vægast sagt. Og ég er í efa um, að þeir hefðu verið hæfari en aðrir sem atvinnurekendur. Það er oft svo í veröldinni, að þeir, sem aldrei þekktu ráð, þeir eiga að bjarga öðrum. Það er nú þannig með þessa ríkisstj., að þetta eru ekki slæmir menn, og ef þeir gera eitthvað misjafnt af sér, þá hafa þeir haft vilja til að bæta fyrir það, að svo miklu leyti sem það er hægt. Vil ég í því sambandi benda á stofnlán sjávarútvegsins og einnig lausaskuldalán bænda. Það v ar tilraun til þess að bæta fyrir syndir. Það er þakkarvert. Mér þætti því ekki ólíklegt, að þeir vildu bæta fyrir þessar syndir, sem þeir hafa framkvæmt með þessari gengislækkun gagnvart Bændahöllinni, vildu eitthvað greiða fyrir því, að þetta geti gengið sem bezt, og ég efa ekki, að þeir vilja það.

Það, sem þarf að gera, er að útvega Bændahöllinni hagkvæmt lán, svo að hægt sé að ljúka verkinu, helzt innlent lán, og ef það er ekki hægt, þá erlent með tiltölulega lágum vöxtum. Það er skilyrði til þess, að hægt sé að hafa eitthvað upp úr byggingunni, að það sé lokið við hana. Svo verður erfitt í eitt eða tvö ár, en hinu er ekki að neita, að þjóðin þarf á hótelinu að halda. Ég vil benda á það, að þegar Hótel Borg var byggð 1930, þá aðstoðaði ríkið á allan hátt við það. Það viðurkenndi, að það væri þörf fyrir hótelið. Aftur var Hótel Borg keypt nýlega af öðrum aðilum og enn mun hafa verið aðstoðað við það, a.m.k. af bönkunum. Það var greitt fyrir því, að einstaklingar gætu keypt það og rekið, af því að það var þjóðarnauðsyn. Það er líka þjóðarnauðsyn, ef við ætlum að hafa tekjur af gestum, að við höfum fullboðlegt hótei, meðan þeir dveljast hér.

Þess vegna er það tvennt, sem veldur því, að ríkisstj. á að greiða fyrir því, að bændasamtökin geti fengið hagstæð lán til þessarar byggingar. Það er bæði það, að það er þörf fyrir hótelið þjóðarinnar vegna, og það er einnig af því, að ráðstafanir núv. ríkisstj. hafa valdið því, að byggingin hefur orðið allt að 30 millj. kr. dýrari en hún hefði annars orðið. Ég efast ekki um það, að ríkisstj. vilji gera þetta. Ég held, að ef hægt er að koma rekstrinum í heilbrigt horf, geti hótelið borið sig. Það ættu að vera miklar tekjur af ferðamönnum. Það er ekki vafi á því, að ferðamannastraumur til Íslands getur skapað mikinn erlendan gjaldeyri, og er þá nokkuð óeðlilegt, að greitt sé fyrir því, að bændasamtökin geti starfrækt þessa byggingu? Ég hygg, að það sé ekki. En ég er algerlega á móti því að vera að leggja gjald á bændur til að byggja fyrir lúxushótel. Ég hygg, að það sé engin stétt á Íslandi, sem veitir sér minni munað en bændastéttin. Ég hygg, að bændafjölskyldurnar eyði minna en flestar eða jafnvel allar aðrar stéttir í alls konar munað, bæði viðvíkjandi fötum, húsgögnum og ferðalögum, er mér óhætt að segja líka.

Þegar samþ. var gjaldið til Stéttarsambands bænda, var það haft allríflegt, það var haft 1/4%, en til L.Í.Ú. eru aðeins 0.42 þúsundustu. Það er nefnilega sex sinnum lægra til L.Í.Ú. en til Stéttarsambandsins. Nú er dálítið varasamt að skammta mönnum meira en þeir þurfa til neyzlu, því að annaðhvort skemmist maturinn eða það er farið að fikta eitthvað með hann. Og ef menn hafa peninga, sem þeir þurfa ekki að nota, þá vilja þeir gjarnan fara að braska eitthvað með þá. Stéttarsambandið er búið með of háum gjöldum, sem lögð hafa verið á bændur, sem hafa of litlar tekjur, að reyta saman 7–9 millj. á þessum árum, síðan það fór að starfa. Nú er það ágætt að deila á aðra fyrir, að þeir leggi gjöld á bændur, eins og gert hefur verið viðvíkjandi gjaldinu til Búnaðarbankans. En þeir sömu aðilar mega þá ekki leggja óþarflega há gjöld tí beendur. Menn mega ekki búa í glerhöll, ef þeir ætla að kasta steinum. Og ég get sagt um þetta eina prósent, sem bændur greiða til Búnaðarbankans, að heldur vil ég greiða það en skatt til hótels og fá peningana aldrei aftur.

Mér er það engin launung, Búnaðarbanka þurfum við að hafa, og við, sem höfum fengið lán, þegar krónan var tiltölulega verðmikil, getum borgað nú með verðlitlum krónum. Við þurfum ekkert að telja eftir að borga þetta eina prósent. En hluturinn er erfiðari hjá bændum, sem eru að byrja, verða að taka að láni verðlitlar krónur, verða að borga hærri vexi, í skemmri lán og verða svo að borga í ofanálag það, sem tapazt hefur með gengislækkunum hjá þeim, sem fengið hafa tiltölulega verðmiklar krónur að láni. Hlutur þeirra er erfiður, ósanngjarnlega erfiður. Stéttarsambandið á nú raunverulega 7–9 millj., sem hafa runnið til Bændahallarinnar. Ef rétt hefði verið að farið, ef t.d. Stéttarsambandið hefði keypt 10–12 íbúðir hér í Reykjavík og leigt þær út, þá væri hægt að létta þessu gjaldi algerleg af bændum. Ef peningarnir hefðu verið lagðir í banka, sem er að því leyti ótryggara, ef gengið lækkar, þá voru vextir af því meira en nógir til að starfrækja Stéttarsambandið. Vegna þess, að þessar 7–9 millj. voru lagðar í hótelið, þarf að framlengja þennan skatt. Ef hótelið hefði ekki verið byggt, hefði verið hægt að lækka búnaðarmálasjóðsgjaldið eða fella það alveg niður, þetta 1/2%, og þar að auki að fella niður gjaldið til Stéttarsambandsins, vegna þess að eignir Stéttarsambandsins eru orðnar svo miklar, að það gæti algerlega starfað með vöxtunum og meira en það.

Það, sem ég álít að eigi nú að gera við Bændahöllina, er, að bændasamtökin eiga að eiga þann hluta, sem ekki er hótel. Það er góð eig . Þau eru trygg með að fá um það bil 21/2 millj. kr. í vexti. Búnaðarfélagið og Stéttarsambandið eru búin að borga um 30 millj., og það er sem svarar kostnaðinum á þeim hluta byggingarinnar. Ef þau hefðu enga byrði af hótelinu, þá, væri hægt að létta stéttarsambandsgjaldinu alveg af og búnaðarmálasjóðsgjaldinu líka. Þau gætu haft þarna af eigin fé 21/2 millj. í tekjur á ári. En haldist stéttarsambandsgjaldið, þá gætu þau látið afganginn af því ganga til þess að bera uppi kostnaðinn við hótelið, og það yrðu þá rúmlega 21/2 millj, á ári, og það gæti gengið til þess að bera uppi kostnaðinn við hótelreksturinn það vaxtatap, sem yrði á hótelinu fyrstu árin, — þannig að ef bændasamtökin fengju lán fyrir kostnaðinum við hótelið, sem verður sennilega um 70 millj., þá hefðu þeir ráð á því, þótt búnaðarmálasjóðsgjaldið væri fellt niður, að láta vextina af hinum hluta byggingarinnar ganga upp í væntanlegan hallarekstur á þessu eða afborganir af skuldum næstu árin og þar að auki afganginn, sem Stéttarsambandið hefur af þessum 1/4%. Þetta yrðu um 3 millj. Ef þetta dugir ekki, vil ég fara aðra leið en að leggja lögboðinn skylduskatt á bændur, sem er alveg útilokað að þeir fái nokkurn tíma endurgreiddan, hvað sem menn segja, að þetta eigi að vera tekjur fyrir bændastéttina í heild og þannig eigi að vera hægt að létta stéttarsambandsgjaldinu af bændum. Það var alveg óþarfi að ráðast í þetta þess vegna. Stéttarsambandið átti nóg til þess, og vextirnir af eignum þess gátu borið uppi allan kostnaðinn. En tekjum af hótelinu verður aldrei deilt meðal bænda, það fullyrði ég.

Ef þarf að fara aðra leið, þá er rétt að stofna hlutafélag um hótelið. Það má deila um, hvernig því hlutafélagi á að vera fyrir komið. Ég stakk upp á því í grein, sem ég skrifaði í fyrra, að það yrði þannig. að Stéttarsambandið, Búnaðarfélagið, Búnaðarbankinn, ríkið, jafnvel flugfélögin og skipafélögin, sem hafa miklar tekjur af ferðamönnum, yrðu aðilar að þessu hlutafélagi. Ef forráðamenn bændasamtakanna vilja ekki ganga inn á annað en að eiga bygginguna, þó að ég álíti, að það í sjálfu sér skipti engu máli, ef þeir ættu meira eða minna í henni, þá er önnur leið til, og það er að hafa félagsskapinn svipaðan og er hjá Eimskip, að hafa frjáls framlög í hlutafé. Það er tvennt unnið við það. Í fyrsta lagi t.d., ef einhver bóndi leggur 10 þús. í hlutafélag, þá er hægt að endurgreiða honum vexti af þeirri upphæð, þegar fyrirtækið fer að bera sig. Það er hægt að endurgreiða honum árlega vexti, eins og yfirleitt er gert í hlutafélögum, sem bera sig, og þannig getur hann fengið sína fjármuni endurgreidda, og það getur verið góð eign, meira að segja mjög góð eign. Í öðru lagi er ekki tekið fé af mönnum, sem ekki geta misst peningana. Það er ekki gert með skylduskatti. Og það er allt annað, þótt bóndi, sem hefur efni á því, leggi 10–20 þús. í hlutafélag, eða taka þetta af bláfátækum mönnum, sem varla geta keypt nauðsynlega hluti handa sér og sinni fjölskyldu.

Þetta eru tvær ólíkar leiðir. Ég held nefnilega, að þeir hafi ekki reynt að gera sér neina grein fyrir þessu, þessir forráðamenn bændasamtakanna, að nein leið sé fær önnur en þessi. Þetta er ósköp handhæg leið, senda miða til þingsins, biðja það að samþykkja skatt á bændur. Fulltrúar á stéttarsambandsfundum og búnaðarþingi eru búnir að koma sjálfum sér í sjálfheldu, raunar með aðstoð ríkisstj., gengislækkunin gerði það að verkum, gerði mönnum erfitt fyrir. Þeir gerðu vitanlega ekki ráð fyrir því. Þeir eru komnir þarna í hálfgerða sjálfheldu, og í staðinn fyrir að spyrja bændur, hvað þeir vilja, þá er það ekki gert, heldur send beiðni til þingsins að samþykkja þennan skatt.

Nú lít ég svo á, að það sé alls ekki hlutverk þingsins að samþykkja það, að bændur eða útgerðarmenn og er mér óhætt að segja, sjómenn, því að þeir borga náttúrlega sinn hlut, sjómennirnir, þeir leggi einhverja vissa prósentu af tekjum sínum annaðhvort í banka, eins og gert er með útgerðarmennina og bændur líka, eða til þess að byggja hótel. Þetta er alls ekki hlutverk þingsins, hvorki þings né stjórnar, heldur að ákveða skatta til ríkisins. Ég lít svo á, að þetta sé hreint ekki í samræmi við bókstaf stjórnarskrárinnar. En þetta hefur verið gert. Ég held því, að það, sem eigi að gera í þessu máli, sé að fresta afgreiðslu þess, taka til athugunar, hvort ekki séu aðrar leiðir færar, — og ég er alveg viss um, að þær eru færar, ef vilji er fyrir hendi, — reyna á þann hátt að létta þessu gjaldi af bændum. Forráðamenn bændasamtakanna geta ráðið, hverjum þeir hleypa í þetta hlutafélag, þeir geta meira að segja samþykkt, að það séu eingöngu bændur eða bændasamtök, sem stæðu að því. Það væri allt í lagi. En það er allt annað, hvort menn kaupa hlutabréf fyrir 10–20 þús. kr. og fá vexti af þeim eða hvort maður borgar 1/2% af brúttótekjum sínum, sama sem 1% af kaupi sínu, og fær aldrei neitt til baka. Það er allt annar hlutur, það er allt önnur aðferð.

Það gæti einnig komið til greina að stofna hlutafélag um rekstur hótelsins, ef það þætti hagkvæmara. Það er vitanlega hægt að stofna hlutafélag um rekstur fyrirtækis, alveg eins og eign þess, og fá það leigt einhvern ákveðinn tíma. En ég er sannfærður um, ef rétt er að farið, að það þarf ekki að leggja þennan skatt á bændur sem skylduskatt, og meira að segja undireins og fyrirtækið fer að bera sig, þá er hægt að létta stéttarsambandsgjaldinu af bændum, vegna þess að Stéttarsambandið á svo miklar eignir, að það nægir því fullkomlega til rekstrarfjárþarfa. Og að gefnu tilefni vil ég taka það fram, að ég hef séð reikninga Stéttarsambandsins, og það hefur verið mjög vel með fé þess farið. Og ég hygg, að þótt ýmislegt hafi kannske verið fundið að byggingu þessarar Bændahallar, sé það ekki allt réttlátt. Sá maður, sem hefur séð um þetta, er mjög hagsýnn að eðlisfari og hefur yfirleitt gert þessa hluti eins vel og unnt var. Við vitum, að menn eru mislagnir að hirða kindur. Sumir eyða miklu heyi í kindurnar og hafa þær magrar, aðrir eyða litlu heyi og hafa þær í góðu lagi. Spyrji maður þann, sem eyðir miklu heyi og hefur kindurnar ekkert sérstaklega góðar, hvað valdi þessu, segir hann, að það hafi þurft að gefa svona mikið. Hann mun líka segja, að þær hafi ekki þrifizt betur en þetta á heyinu. En þetta liggur bara í ótal smáatriðum. Sá, sem er klaufi að hirða skepnur, leitar aldrei eftir því, hvort önnur aðferð sé fær. Það er erfitt að kenna svona hluti.

Ef bóndi hefur kornakur, þá er auðvitað það vitlausasta, sem hann gerir, að vinna akurinn svo illa og bera þannig á hann, að kornið spretti ekki til fulls. Þess vegna er í raun og veru það vitlausasta, sem ríkisstj. gerir, hún er þegar búin að aðstoða viðvíkjandi byggingu þessarar Bændahallar með því að útvega erlent lán, 35 millj., — en það vitlausasta, sem hún gerir, er að hætta við hálfnað verk. Annaðhvort er að hjálpa eða hjálpa ekki. Annaðhvort á að vinna þannig akurinn, bera þannig á hann og hirða þannig um hann, að kornið spretti, eða eiga ekkert við að rækta það. Þess vegna er ekki nema ein leið í raun og veru fær og réttlát í þessu máli fyrir ríkisstj., og það er að aðstoða bændasamtökin við að ljúka við hótelið, útvega hagkvæm lán, — það er vel hægt. Ríkisstj. getur það, sem hún vill í þeim efnum, og þá mun ekki líða langur tími, þar til þessi bygging getur borið sig.

Þó skal ég taka það fram, að það var miklu betra fyrir bændasamtökin að byggja húsið sem skrifstofuhús heldur en sem hótel, miklu öruggara fjárhagslega: En vegna þjóðarinnar er þörf fyrir hótelið. En það er vitanlega enginn nauðsyn fyrir íslenzka bændur að taka það á sig að byggja lúxushótel fyrir þjóðina, ekki hin minnsta, og var barnaskapur að ráðast í það. Þar að auki eiga menn aldrei að fást við það, sem þeir hafa ekkert vit á. Vitanlega hafa aldraðir bændur lítið vit á hótelrekstri. Sá eini á meðal þeirra, Sveinn á Egilsstöðum, sem hafði eitthvert vit á hótelrekstri, var alltaf á móti þessari byggingu. En það var vitanlega ekki hlustað á hann, því að það er yfirleitt erfitt, þegar margir koma saman, að fá menn til að fara eftir því, sem sá vitrasti segir.

Það er vitanlega ekkert meiri ástæða fyrir bændur að vera að leggja sína litlu fjármuni í hótelbyggingu heldur en t.d. iðnaðarmenn eða aðrar stéttir þjóðfélagsins, síður en svo. Það eru engir, sem gista síður á þessum hótelum en bændur. Þeir sjást ekki hér á dýrari hótelunum. Helzt fara þeir alls ekki á hótel, og ef þeir fara á hótel, þá fara þeir á ódýrustu hótelin. En það er komið sem komið er. Það er bíúð að ráðast í þetta. Bændasamtökin eru búin að borga 30 millj., 35 millj. munu vera skuldir erlendis, og allmikið er af lausaskuldum. Gert er ráð fyrir, að öll byggingin kosti um 100 millj. Þeir þurfa því að fá um 70 millj. kr. lán til þess að geta lokið þessu. Auk þess get ég tekið fram, að ég álít afar óhyggilegt í fyrsta lagi að ráðast í byggingu á hóteli af mönnum, sem hafa ekki neina sérþekkingu á því máli, og enn fremur er það hæpið að reka hótel án þess að sá, sem rekur það, eigi eitthvað í því eða beri ábyrgð á rekstrinum.

Það var skýrt frá því, að gert væri ráð fyrir, að leigan eftir heildarbygginguna yrði 81/2 millj., en það liggur hreint ekkert fyrir um það, að nokkrum manni detti í hug að taka hótelið á leigu. Ef það lægi fyrir, þá væri sannarlega ekki þörf á að jafna þessu 1/2% niður á bændur. Þá væri þetta allt saman á þurru og hægt að fá nóg lán. En það liggur bara alls ekki fyrir, og persónuleg skoðun mín er sú, að mönnum detti hreint ekki í hug að taka hótelið á leigu fyrir 6 millj. á ári, fyrr en búið er að reka það í nokkur ár. En það er dálítið óhagkvæmt að hugsa sér það að reka jafnstórt fyrirtæki og þetta hótel er, án þess að sá, sem stjórnar því, eigi þar einhverra persónulegra hagsmuna að gæta, eigi eitthvað í því. Í fyrsta lagi er vandfundinn maður til þess að gera það. Það er mjög vandasamt verk að reka hótel og mikið starf, sem liggur í því. Þess vegna væri mjög hagkvæmt að mínu áliti, að sá, sem ræki hótelið, ætti hluta í því, og það verður ekki gert öðruvísi en stofna hlutafélag. Og það er sannfæring mín, að á einhvern hátt eigi að gera það. Hitt er í raun og veru ekki aðalatriðið, á hvern hátt það verður gert. En það er í raun og veru ekki hægt að gera mikið viðvíkjandi útvegun fjár, án þess að ríkisstj. aðstoði við það á einhvern hátt. Þess vegna er ekki hægt að leysa þetta mál á hagkvæman hátt fyrir bændastéttina öðruvísi en ríkisstj. beint eða óbeint beiti sér fyrir því að gera það í samráði við bændasamtökin. En ég held, að bændasamtökin hafi ekki reynt að fara neina aðra leið en þessa, að óska eftir því að leggja þennan, skatt á bændur.

Ef bændur endilega vildu borga þennan skatt, eins og haldið er fram, þá þyrfti ekki að vera að semja nein lög um það, það væri nóg að senda línu til afurðasölufélaganna og biðja þau að innheimta þetta 1/2% af bændum, þei væru guðsfegnir að borga það. En það liggur alls ekki fyrir, vegna þess að bændur hafa aldrei verið spurðir um, hvort þeir vildu borga þetta gjald eða ekki. Og auðvitað vilja þeir ekki borga það, þeir vilja fegnir losna við það. Bónda, sem er að basla með 60–70 þús. kr. tekjur yfir árið fyrir sig og sína fjölskyldu, langar ekkert til að vera að borga fjárhæð, sem hann þarf ekki að borga. Það gefur auga leið. Þess vegna er það eins og hvert annað mas, að þetta sé gert eftir ósk bænda yfirleitt.