18.12.1962
Efri deild: 31. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1352 í B-deild Alþingistíðinda. (1319)

58. mál, búnaðarmálasjóður

Frsm. meiri hl. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra í forseti. Frv. það, sem hér liggur fyrir, er flutt í landbn. Nd. að beiðni Búnaðarfélags Íslands og Stéttarsambands bænda. Það, eins og hv. m. er kunnugt, fjallar um framlengingu á, búnaðarmálasjóðsgjaldi, 1/2% af búvörum bænda, um 4 næstu ár, og það nær til áranna 1962–1965.

Þetta mál var skýrt nokkuð við umr. í Nd. og lesin skýrsla frá byggingarnefnd svokallaðrar Bændahallar, sem þetta gjald á að renna til, og sé ég ekki ástæðu til að fara að endurtaka það. Um þetta mál hefur verið rætt bæði á síðasta búnaðarþingi, síðasta stéttarsambandsþingi í haust, og af báðum þessum stéttarfélagssamkomum bændanna hefur þess verið óskað mjög eindregið, að þetta gjald yrði framlengt. Við atkvgr. um það hefur verið lítill ágreiningur, þó að þess að sjálfsögðu hafi gætt eitthvað. En mikill meiri hl. þessara fulltrúa bændanna hefur óskað eftir því, að þetta gjald yrði framlengt, og tel ég óhjákvæmilegt að gera það, til þess að bændasamtökin geti haldið áfram byggingu þess húss, sem þau hafa ráðizt í að byggja, hið mikla stórhýsi á Hagamel í Reykjavík.

Ég get getið þess, að þegar lagt var út í þetta fyrirtæki, var nokkur ágreiningur um það meðal bænda úti um land, hvort ætti að gera það. Ýmsir töldu sem svo, að þar væri lagt í fyrirtæki, sem var svo stórt og kostnaðarsamt, að það væri óskynsamlegt af bændum að vera að leggja fé í það. Hins vegar munu ekki hafa verið skiptar skoðanir um það, að bændasamtökin þyrftu að byggja yfir sig eða sína starfsemi, því að allir vita, að það húsnæði, sem Búnaðarfélag Íslands býr í, Búnaðarfélagshúsið við Lækjargötu, er orðið mjög gamalt og lélegt, og önnur starfsemi bændasamtakanna, t.d. Stéttarsambandið, hefur búið í leiguhúsnæði. En ágreiningurinn var um það, hvort bændasamtökin ættu að byggja aðeins yfir sína starfsemi, og ég hygg, að allir bændur hafi verið sammála um, að það skyldi myndarlega gert, en þau sjónarmið réðu að byggja miklu stærra hús.

Ég get sagt fyrir mig, að þegar þetta mál var til umr, á fundum bændanna úti um land, hallaðist ég miklu frekar að því að byggja aðeins yfir starfsemi Búnaðarfélagsins og Stéttarsambandsins og gera það að sjálfsögðu myndlega, en vera ekki að hugsa um aðrar byggingar. En hin sjónarmiðin réðu þá, og í þetta var ráðizt. Og nú hygg ég, að allur þorri bænda telji óhjákvæmilegt að halda áfram með þessa byggingu og koma henni upp, en hætta ekki í miðju kafi og verða að ráðstafa henni einhvern veginn öðruvísi en upphaflega var ætlað. Og þótt ýmsir bændur hafi verið á móti byggingunni í upphafi, svona stórri og kostnaðarsamri, þá tel ég, að bændur geti ekki almennt verið nú á móti því að halda áfram með bygginguna, úr því sem komið er, og fullgera hana. Slíkt væri mikill undansláttur og sannast sagt mjög óaðgengilegt fyrir bændur að verða þannið að leggja árar í bát. Og þar sem ekki kemur fram neinn ágreiningur, sem að kveði, á þessum félagsfundum bændanna, verður að líta svo á, að þetta sé mjög eindregin ósk þeirra fulltrúa, sem fara með umboð bændanna, að þetta 1/2% gjald verði framlengt í 4 ár. Ég tel ekki, að Alþingi geti neitað þessum fulltrúum stéttarsamtakanna um að lögfesta gjaldið, eins og á stendur.

Ég sé ekki ástæðu til á þessu stigi málsins að ræða þetta frekar. Meiri hl. landbn. hefur litið svipað á þetta og ég hef hér skýrt, og við fengum á fund til okkar framkvstj. byggingarnefndar, Sæmund Friðriksson, til þess að skýra málið, og af upplýsingum þeim, sem hann gaf, tel ég enn frekar nauðsynlegt en áður að framlengja þetta gjald og legg til fyrir hönd meiri hl. landbn., að frv. verði samþykkt.