12.02.1963
Efri deild: 43. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1370 í B-deild Alþingistíðinda. (1345)

93. mál, jarðræktarlög

Frsm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Mál þetta er komið frá Nd. og var rætt þar nokkuð og reifað þar á sinum tíma. Nd. gerði lítils háttar orðalagsbreytingar á frv., en efnisbreytingar ekki. En efni frv. er það, að greiddur skuli jarðræktarstyrkur út á endurvinnslu lands, sem orðið hefur fyrir kalskemmdum. Þetta er nýtt ákvæði í jarðræktarlögum. En ástæðan fyrir því, að þetta frv. er flutt, er sú, að á undanförnum árum, einkanlega nú tvö síðastliðin vor, hafa orðið mjög stórfelldar skemmdir af þessum sökum á túnum allvíða um land, einkanlega þó í víssum landshlutum. Af þessu hefur skapazt vandræðaástand á nokkrum jörðum í landinu eða hjá nokkrum bændum á landinu, og það kvað svo rammt að því s.l. vor norðaustanlands og austan, að sumir bændur munu ekki hafa fengið nema liðlega hálfan töðufeng af túnunum í sumar vegna þessara skemmda. Það hefur verið reynt hjá ýmsum bændum að brjóta þessa landskika aftur og sá í þá til þess að ná grasi upp úr þeim. Út af fyrir sig er það naumast, að þessi aðferð leysi þann vanda, sem hér er á ferðinni, því þó að yfirleitt sé talið, að þessar kalskemmdir stafi af slæmu tíðarfari, þá er álit margra, sem þekkingu hafa á þessum málum, að orsakirnar liggi dýpra. En það er hvergi nærri ljóst, af hverju þessar skemmdir stafa, og þess vegna er það, sem þarf að gera fyrst og fremst í þessu máli, að rannsaka það með tilraunum. Það tekur að sjálfsögðu nokkurn tíma að komast til botns i því, hvað hægt sé að gera til varnar þessari stórkostlegu eyðileggingu, sem sums staðar er á nýræktinni, en það er mjög nauðsynlegt að það sé gert.

Frv. það, sem hér um ræðir, er ekki um þetta, heldur lítils háttar aðgerð til þess að bæta úr í bili, þar sem menn telja sig til neydda að brjóta nýræktarland eða tún að nýju og sá í þau. Og landbn., sem hefur fjallað um þetta frv., er á einu máli um, að rétt muni vera að koma til móts við þá bændur, sem þarna eiga hlut að máli, með því að veita þeim að nýju jarðræktarstyrk til þess að brjóta þau svæði í túnunum, sem v erst hafa farið. Af þessari breyt. á jarðræktarlögunum getur ekki leitt neinn verulegan kostnað fyrir ríkissjóð, því að yfirleitt fara bændur ekki út í það að endurvinna túnin, nema þar sem kalið hefur verið svo stórkostlegt, að svo til ekkert gras stendur eftir í túninu á vissu svæði. Það er einnig svo dýrt fyrir bændur að rækta, að sá jarðræktarstyrkur, sem hér er gert ráð fyrir að verði veittur í þessu skyni, freistar engra til þess að fara að rækta að nýju eða endurvinna land að nýju, nema þar sem þess er alveg brýn þörf til þess að leysa úr því ástandi, sem hefur skapazt á vissum stöðum, þar sem túnin hafa farið verst.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða um þetta mál, og þar sem landbn. Ed. er sammála um það að leggja til, að frv, verði samþ., og þar sem landbn. Nd. hefur einnig lagt hið sama til og Nd. samþ. frv. fyrir sitt leyti, þá vænti ég þess, að hv. deild hér geti séð sér fært að samþykkja frv.