19.03.1963
Neðri deild: 56. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1494 í B-deild Alþingistíðinda. (1570)

92. mál, lántaka vegna vatnsveituframkvæmda í Vestmannaeyjum

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég hef ásamt öðrum fjhn: mönnum skrifað undir nál. á þskj. 354 og mæli með því, að frv. þetta verði samþ. með þeim breyt., sem n. gerir till. um á þessu þskj. Fólkið, sem þar býr á landinu, sunnan landsins, hefur lengi átt í erfiðleikum sökum skorts á vatni, og er mikil þörf úr að bæta eg réttmætt, að það opinbera, þ.e.a.s. ríkið, komi þar til aðstoðar. Nú hefði mátt virðast eðlilegt og meira í samræmi við þá venju, sem tíðkazt hefur, að forráðamenn Vestmannaeyjakaupstaðar hefðu farið fram á það að fá ríkisábyrgð fyrir láni, sem þeir tækju sjálfir til þessarar framkvæmdar. Hins vegar hafa þeir komizt að þeirri niðurstöðu, að það væri erfiðara að leysa málið með þeim hætti, og fara því fram á það, að ríkisstj. verði heimilt að taka lán og endurlána Vestmannaeyjum til vatnsveituframkvæmdanna, og eins og ég segi, þá hef ég ekkert við þetta að athuga og mæli með því.

En ég vil rifja það upp í þessu sambandi, að fyrir tveim árum voru sett lög hér á Alþingi um ríkisábyrgðir, og með þeim var gert nokkru örðugra en áður, bæði fyrir bæjar- og sveitarfélög og aðra aðila að nota sér þann möguleika að fá ríkisábyrgðir fyrir lánum til nauðsynjaframkvæmda heldur en áður hafði verið, og ég get búizt við, að það sé einmitt að rekja til þeirrar lagasetningar þetta, að hér er tekinn upp nýr háttur, farið fram á það, að ríkið taki lán og endurláni til framkvæmdanna. Þar kemur einnig til, að í þessi lög, sem ég nefndi um ríkisábyrgðir, var sett það ákvæði, að þeir, sem fá ríkisábyrgðir, skyldu borga gjald fyrir það, frá 1% upp í 11/2% af upphæð ábyrgðar. Þetta var nýmæli. Við framsóknarmenn beittum okkur á móti þessu gjaldi á Alþingi fyrir 2 árum, töldum ósanngjarnt að fara fram á slíkt gjald af þeim, sem þyrftu á ríkisábyrgðum að halda, en hins vegar var þetta gjald lögfest, samþ. af stjórnarliðinu.

Nú er auðvitað með þessari aðferð, sem forráðamenn Vestmannaeyja hér vilja hafa, hægt fyrir þá að losna við þetta gjald, og ég tel það réttmætt, að þeir sleppi við það. (Gripið fram í: Er það víst?) Víst, já, já, það held ég að hljóti að vera, því að þetta er ekki ábyrgð. Ég hygg, að þeir losni við þetta, og ég tel, að þeir megi gjarnan sleppa við þetta og það mættu fleiri gera.

En ég vil, um leið og ég mæli með þessu frv., aðeins láta þess getið, að ég tel, að með afgreiðslu þessa máls skapist nokkurt fordæmi. Ég get vel búizt við því, að það verði fleiri en þeir, sem stjórna málum Vestmannaeyjakaupstaðar, sem vilja gjarnan losna við þetta ábyrgðargjald, og þess vegna feti þeir í fótspor þeirra þar suður frá og óski eftir því, þegar þeir þurfa að útvega fé til nauðsynjaframkvæmda, að ríkið taki lán og endurláni þeim. Og þá sýnist mér það eðlilegt, þegar þar að kemur, að Alþingi taki vel í slíkar málaleitanir, á sama hátt og það væntanlega gerir við þessa málaleitun þeirra í Vestmannaeyjum.