31.10.1962
Sameinað þing: 8. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1938 í B-deild Alþingistíðinda. (1854)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Dómsmrh. (Bjarni Benediktsson):

Herra forseti. Því fer auðvitað fjarri, að ég hafi getað rakið allt þetta mál í þeim fáu orðum, sem ég sagði hér áðan. Ég einungis reyndi að svara þeim fsp. og aðfinningum, sem komu fram. En ég hef af ásettu ráði alveg haldið mig frá því að ræða um kröfur læknanna sjálfra og viðbrögð ríkisstj, til þess að reyna að friða þá, ef svo má segja, Í þeim efnum er vegna réttarstöðunnar ríkisstj. mikill vandi á höndum, eins og mér skildist hv. síðasti ræðumaður í raun og veru játa. En það er rétt, að það komi fram hér, að landlæknir hefur lengi með vitund ríkisstj. reynt að finna á þessu vandamáli lausn. En milli hugmynda þeirra, sem landlæknir setti fram, og læknanna var svo mikið bil, að ríkisstj. virtist augljóst, að ekki væri hægt að brúa það nema með samkomulagi við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, vegna þess að ef verða ætti við kröfum læknanna, að við skulum segja verulegu eða verulegustu leyti, þá væri hætta á, að slíkt fordæmi yrði skapað, sem aðrir starfsmenn mundu mjög illa una við og telja, að gengið væri á móti því samkomulagi, sem við þá var gert á s.l. sumri.

En eins og ég segi, þá held ég, að það bæti ekki á nokkurn hátt samkomulagshorfur í þessu máli að fara að rekja einstök stig deilunnar á þessu stigi. Mér er t.d. ljóst, að frásögn hins ágæta læknis Friðriks Einarssonar í morgun er, eins og vera hlýtur, einhliða sett fram af læknanna hálfu. Ég athugaði í morgun, hvort ástæða væri til þess að gera aths. þar við. Ég komst að þeirri niðurstöðu, að það væri betra að láta allar slíkar deilur bíða, á meðan málið þróaðist og betur sæist, hvað í því gerðist.

En ég tek alveg undir það með hv. síðasta ræðumanni, að hér er fyrir utan lagahlið málsins mjög mikið vandamál á ferðum. Og vissulega ber okkur að búa þannig að læknunum, að þeir treysti sér til að starfa í okkar landi. En eins og ég vil einnig segja, þá verða læknarnir að muna, að þeir eru aldir upp af íslendingum, meðal Íslendinga, og íslenzka þjóðin og íslenzka ríkið hefur kostað miklu fé og margir mikilli fyrirhöfn til þess, að þeir gætu aflað sér þeirrar ágætu menntunar, sem þeir nú hafa. Og þess vegna verða þeir einnig í kröfum sínum að muna og vita, í hvaða þjóðfélagi þeir eru staddir. Við vitum, að launakjör og sérstaklega launamismunur er allt annar á Íslandi en ég vil segja í öllum öðrum löndum, sem við þekkjum. En minn skilningur var sá, að með því samkomulagi, sem var gert milli ríkisins og bandalagsins á s.l. vori og staðfest með l. frá 28. apríl í vor, hefðu annars vegar fulltrúar ríkisins og hins vegar starfsmennirnir orðið ásáttir um í fyrsta lagi Að leysa úr þessum vanda, ef þeir gætu með allsherjarsamningum og ef það tækist ekki að leggja þá úrskurð um það mál undir kjaradóm. Og það er vitanlega undir þeirri úrlausn að lokum komið, hvernig tekst að halda læknum hér til frambúðar í landinu, hvort þeir í verki vilja sætta sig við þá úrlausn, sem þá fæst.