06.04.1963
Sameinað þing: 45. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1957 í B-deild Alþingistíðinda. (1876)

Fyrirspurnir um stjórnarráðstafanir

Sjútvmrh. (Emil Jónsson):

Herra forseti. Mér þykir leitt að verða að skýra hv. 11. landsk. þm. frá því, að ég get því miður ekki gefið neinar verulegar upplýsingar í þessu máli. Það hefur ekki verið undir mig borið, og ég veit þess vegna of lítið til þess að svara, hvaða ástæður liggja til þess, að þessi framleiðsla hefur verið stöðvuð. Hins vegar virðist mér eins og komið hafi fram hjá framkvæmdastjóranum í þessu blaðaviðtali, að sölutregða valdi. En það er kunnara en frá þurfi að segja, að sá niðursuðuiðnaður, sem til hefur verið stofnað á Íslandi, hefur því miður allt of oft steytt á því skeri, að það hefur reynzt mjög erfitt að selja framleiðsluna. Hvort það stafar af því, að ekki hafi verið nægilega leitað eftir sölu erlendis, eða af öðrum ástæðum, það skal ég ekkert fullyrða um, því að málið hefur ekki neitt til minna kasta komið og ég hef ekki af hálfu verksmiðjustjórnarinnar verið kvaddur til að hafa nein áhrif á þetta mál. Hins vegar get ég lofað hv. þm. því, að ég skal kynna mér það og sjá, hvað valdið hefur. Það væri náttúrlega sönnu næst, að verksmiðjustjórnin, sem tekið hefur þessa ákvörðun, gefi skýrslu um málið og skýrði frá því, hvað þarna liggur til grundvallar. Kannske þeir hv. alþm., sem eiga sæti í verksmiðjustjórn, gætu gefið einhverjar upplýsingar í þessu efni.