28.03.1963
Neðri deild: 61. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 86 í C-deild Alþingistíðinda. (2029)

84. mál, jafnvægi í byggð landsins

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Það er ekki í fyrsta sinn, sem við sjáum hér á hv. Alþingi frv. til l. um jafnvægi í byggð landsins. Það eru mörg ár síðan við sáum slík frv. hér fyrst, og oft hafa þau komið aftur. Og á síðasta þingi var að lokum lögfest að verja því fé, sem áður hafði verið varið til atvinnubóta frá ári til árs, til sjóðsstofnunar, sett yfir þennan sjóð stjórn og aðalhlutverk þess sjóðs skyldi vera, að manni skildist, að auka jafnvægi í byggð landsins. Nú er til þess vitnað af stjórnarsinnum, að vegna þessarar lagasetningar á síðasta þingi sé alveg óþarft að bera fram frv. á hv. Alþingi nú um þetta efni. Ég held, að þetta sé alveg röng afstaða, af því að hitt frv., sem samþ. var á síðasta þingi, var sniðið af slíkri smámunasemi, að sú löggjöf er alls ófær um að skapa jafnvægi í byggð landsins. Þess vegna er það mín skoðun, að það sé vissulega þörf nýrrar og stórbrotnari löggjafar til að mæta þessum þjóðlífsvanda. Ég stóð þó ekki aðeins upp til þess að tjá þessa afstöðu mína til þess frv., sem hér liggur fyrir, — ég fellst ekki á röksemdir hv. stjórnarflokka um það, að löggjafar sé ekki þörf, — heldur til hins, að leiðrétta nokkur atriði úr ræðu hv. 1. þm. Vestf., því að þar var farið rangt með margt. Ég tók eftir því, að hv. 1. þm. Norðurl. v. fór hér í ræðustól í dag til að leiðrétta nokkrar missagnir, og var ekki vanþörf á því, en það eru nokkrar missagnir, sem sérstaklega snúa að Alþb. í sambandi við þetta mál, sem ég vil leyfa mér að leiðrétta.

Hv. þm. hefur mörg undanfarin ár sagt söguna af „litlu, gulu hænunni“, þ.e.a.s. frv., sem flutt var hér ár eftir ár og átti að heita frv. til l. um jafnvægi í byggð landsins. Það er rétt, að ég skopaðist dálítið að þessu frumv., og það situr alltaf í hv. þm. og getur aldrei yfir það fyrnt, hve ég taldi það vera smátt í sniðum og lítt til þess fallið að valda því mikla verkefni, sem því var ætlað að valda, og þá kallaði ég það einu sinni í umr. í mesta sakleysi „litlu, gulu hænuna.“

Það er og rétt, sem hv. þm. sagði, að í sambandi við þetta frv. fluttum við þm. Alþb. nokkrir allmargar brtt. við þetta frv., og voru þar síður en svo til að spilla málinu. Þær voru til þess fluttar, að frv., ef till. væru samþykktar, yrði miklu stórbrotnara frv. til aukins jafnvægis í byggð landsins. Og það fór svo, eins og hv. þm. einnig sagði, að þessar brtt. Alþb. fengu þingfylgi, höfðu meirihlutafylgi á Alþingi aldrei þessu vant. Okkar till. voru samþ. En þá var frv. orðið svo innihaldsríkt og stórbrotið, að þáv. stjórnarflokkar gátu ekki við það unað og létu frv. veslast upp, það fékk ekki afgreiðslu. Þeim ofbauð alveg, hvað þá átti að gera mikið samkv. þessu endurbætta frv. til jafnvægis í byggð landsins, og spyrntu við fótum og komu þannig í veg fyrir, að frv., svo breytt, yrði samþykkt. Hv. þm. harmaði mjög, að þessar brtt. skyldu hafa verið samþ. En þær voru til stórbóta á málinu, og ef það hefði náð fram að ganga þannig, hefði það komið að einhverju verulegu gagni.

Þegar svo þetta frv. loks var samþykkt á s.l. ári, var ákveðið, að það skyldi árlega leggja 10 millj. kr. til þessa verkefnis. En þær 10 millj. kr. voru ekki jafnvirði 4 millj. kr., miðað við verðlag, þegar frv. var fyrst flutt, svo að alltaf hafði vesalings „litla, gula hænan“ verið að minnka. Nú hefði þurft ekki aðeins 10 millj., ekki aðeins 15 millj., eins og atvinnubótaféð var þó orðið á árunum, þegar vinstri stjórnin svokallaða sat við völd, heldur hefðu nú þurft að vera 30–50 millj. kr. ætlaðar til þessa hlutverks. 30 millj. kr. eru sízt verðmeiri nú en 15 millj. 1957 og 1958. En það voru látnar nægja 10 millj.

Það er alrangt hjá hv. þm., að það hafi verið gerður samningur, þegar vinstri stjórnin var mynduð, um að láta frv. ekki koma til framkvæmda. Það var enginn samningur um það gerður. En hins vegar var atvinnubótaféð á vinstristjórnarárunum hækkað, þannig að það hefur aldrei jafnhátt orðið. Það hefur hækkað upp í 15 millj. kr., sem nú mundi svara til um 30 millj. kr.

Þá sagði hv. þm., að á þeim árum hefði þetta ekki verið til aukins jafnvægis í byggð landsins, því að féð hefði þá alveg eins farið á Faxaflóasvæðið og annars staðar. Þetta er eitt af mörgu alröngu, sem hv. þm. sagði. Það var einmitt ákveðið þá, að úthlutun atvinnubótafjár skyldi hagað þannig, að það mætti verja því til byggðanna á Vestfjörðum, Norðurlandi og Austfjörðum, en ekki til Vestmannaeyja og Faxaflóasvæðisins, af því að þá var sæmilegt atvinnulíf þar, en byggðir að eyðast norðanlands og vestan og austan og atvinnutækjaskortur þar og ástæða til að veita þangað fé með ríkisatbeina, og það var gert. En þá fékk enginn maður, sem ætlaði að kaupa bát á Faxaflóasvæðið eða til Vestmannaeyja, neitt af atvinnubótafé. En þegar búið var að lögfesta atvinnubótasjóðinn, var fé veitt til bátakaupa um allt landið, sama upphæð til manns, sem ætlar að kaupa bát á Faxaflóasvæðið og til Vestmannaeyja, eins og til Austfjarða og Vestfjarða, þar sem byggðin stendur höllustum fæti, og þar með er þetta fé ekki lengur til jafnvægis í byggð landsins. En það var það vissulega. Það voru fastar reglur um það, að enginn gæti fengið atvinnubótafé til bátakaupa við Faxaflóa eða í Vestmannaeyjum.

Hv. þm. sagði, að það hefðu verið um 100 millj. kr., sem hefðu verið lagðar fram sem stofnfé, þ.e.a.s. hin áður veittu atvinnubótalán hefðu nú verið lögð til sjóðsins og þetta væri hinn mikli styrkur sjóðsins. Það verður þá víst einhvern tíma í framtíðinni. Það er ekki orðið nú. Ég spyr hv. þm.: Hvað er mikið búið að innheimta af þessum 100 millj. kr. sjóði og hvað mikið er komið til úthlutunar af því nú til jafnvægis í byggð landsins? Það er enginn eyrir, svo vítt ég veit. Og það er ekkert búið að innheimta og víst engar ráðstafanir gerðar hérna megin við kosningar til þess að innheimta neitt af því. Það getur verið, að þetta verði gert eftir kosningar.

Þegar menn eru að rökstyðja það, að þessu frv. beri að vísa frá, vegna þess að þess sé ekki þörf sökum þeirrar löggjafar, sem sett hafi verið á síðasta þingi, þá hefðu þeir menn, sem slík rök bera fram, haft gott af því að heyra hljóðið í fulltrúum sinna flokka í sjóðsstjórninni nú fyrir nokkrum dögum, þegar þeir voru að úthluta atvinnubótafénu. Þeir komu saman á fyrsta fund, áttu að úthluta 10 millj. kr. Og það, sem við þeim blasti, var það, að ef þeir ætluðu að úthluta þeim, sem voru að kaupa báta og skip núna, sömu upphæð að krónutölu og ákveðið hafði verið 1956, 1957 og 1958, 200 þús. kr. á skip, þá var nærri því öll upphæðin farin í þennan eina lið. Og þá hefðu þeir ekki nema 2–3 millj. til alls annars til úthlutunar, og þyrfti vitanlega enga úthlutunarnefnd, það mætti alveg eins fela bönkunum að ákveða hverjum skipskaupanda 200 þús. kr., þegar það á að ganga alveg jafnt yfir allt landið og til sérhvers manns, sem kaupir slíkt skip. Það þarf enga úthlutunarstjórn til þess. En svona stóðu þeir að vígi. Og þeir sögðu: Okkur er ekki fært að starfa, þetta er svo lítið fé, að fara að úthluta einum 3 millj. kr., sem eftir eru, til allra annarra þarfa, samkv. öllum þeim umsóknum, sem fyrir liggja, einmitt úr hinum dreifðu byggðum. — Hvað var gert? Jú, það var farið krjúpandi á hnjánum til hæstv. ríkisstj., sem talið er að hafi alls staðar yfirfulla sjóði, og hún beðin um í lífsnauðsyn að bæta 5 millj, við, svo að það yrðu þó 7–8 millj. kr., sem hægt væri að hafa til úthlutunar, þegar búið væri að láta hvern skipskaupanda hafa 200 þús. kr., sem er ekki helmingur þess fjár, sem þeir áður fengu til styrktar við skipakaup. Krónutalið nú hið sama þýðir helmingi minna verðmæti og vel það. Það, sem nú átti samkv. löggjöfinni frá í fyrra að verja til jafnvægis í byggð landsins, varð, þegar á átti að herða og úthlutunin til skipakaupanna var fráskrifuð, 2–3 millj. Varð að biðja um 5 millj. í viðbót, svo að n. treysti sér til að gefa þessu nafn. Það var sem sé eins og dropi í haf. Með minna en 7–8 millj. kr. treystu þeir sér ekki til þess að starfa. Og svo segja menn: Það er ekki þörf vegna þessarar ágætu löggjafar frá því í fyrra. Þar er búið að ráða þessu máli til lykta, bæta úr því til fulls, meir er ekki þörf. — Og það er einmitt aðalfaðir „litlu, gulu hænunnar“, sem heldur þessari röksemd fram, segir, að nú sé búið að setja slíka ágætislöggjöf, að hér sé ekki þörf á meira. Nei, það er sannarlega svo mikið jafnvægisleysi nú, einmitt nú, í byggð landsins, að það er stórra átaka þörf til að auka það jafnvægi.

Ég flutti á þessu þingi þáltill. um aðstoð þjóðfélagsins til eins lítils sveitarfélags á Vestfjörðum, og sú aðstoð, sem þar hefði þurft, hefði numið sjálfsagt einum 2 millj. kr., ef myndarlega hefði verið við brugðið og þessu sveitarfélagi veitt sú aðstoð, sem enginn getur deilt um að var fullkomlega þörf á til þess að tryggja byggðina í því sveitarfélagi. Þessi till. fór til umsagnar Sambands ísl. sveitarfélaga, og formaður Sambands ísl. sveitarfélaga, Jónas Guðmundsson, hefur tjáð mér, að hann hafi ritað umsögn um þessa till., viðurkennt fyllilega, að þörf væri þeirrar aðstoðar, sem þarna væri farið fram á við þetta litla sveitarfélag, en hann hefur ekki komizt hjá að benda á, að það væru fjölmörg sveitarfélög á Norðurlandi, sem væru að leggjast í auðn, og hann nafngreindi þau ein 4–5 á Austfjörðum, sem væru að leggjast í auðn, og þau eru til meira að segja hér á Suðvesturlandinu. Það var einn þm. í upphafi þessa þingfundar að nefna Selvogsbyggðina hér á Suðvesturlandinu, sem sé að eyðast og væri full þörf á að hið opinbera reyndi að bjarga. Ég hygg, að þessi dæmi nægi til að sannfæra menn um, að það eru ekki réttar röksemdir, sem eru í frammi hafðar, þegar sagt er: Löggjöfin frá því í fyrra, þegar frv. um „litlu, gulu hænuna“ var gert að lögum, leysir allan vanda hinna dreifðu byggða. Hún tryggir jafnvægi í byggð landsins. Það er alveg óþarft að fara að bera fram frv. til l. um slíkt ofan á þá ágætu löggjöf.

Ég fellst á það, það er rétt, sem hv. 3. þm. Reykv. sagði hér rétt áðan, þetta frv. er ekki nægilega stórt í sniðum til þess að taka af myndarskap á þessu máli. En með flutningi þess er viðurkennt, að enn þá sé full þörf til aðgerða, að lagasetningin frá í fyrra hafi ekki nægt, rísi ekki undir sinu verkefni og hér þurfi úr að bæta með annaðhvort breytingu á þeirri löggjöf ellegar nýrri löggjöf, og ég álít, að þar sé mikilla úrbóta þörf. Þrátt fyrir það er þetta frv. góðra gjalda vert, og ég mun því fylgja því.