29.03.1963
Neðri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 117 í C-deild Alþingistíðinda. (2038)

84. mál, jafnvægi í byggð landsins

Jónas Pétursson:

Herra forseti. Ég mun ekki eyða löngum tíma í að svara hinni löngu ræðu hv. 1. þm. Austf., en ég vil aðeins drepa hér á nokkur höfuðatriði. Það, sem mér finnst nú koma mjög greinilega í ljós, er það að framsóknarmenn eru að reyna að búa til ágreining eða búa til einhvern mismun á milli þessara tveggja mála, þeirra laga, sem samþ. voru hér fyrir ári um atvinnubótasjóð, og þess frv., sem þeir eru að bera fram nú, að öðru leyti en því, sem ég benti á í ræðu minni áðan, að ég tel vera meginmuninn. Það er um það, að í l. er lögð áherzla á það fjármagn, sem til þessa er veitt, en í frv., sem nú liggur fyrir, er meginkaflinn um stjórn málanna. Hann vildi, hv. 1. þm. Austf., telja það furðulegt, ef ég teldi nú allar áætlanir fyrir fram fánýtar eða einskis virði. Það voru ekki mín orð, og ég vildi benda á það, að einmitt í l. um atvinnubótasjóðinn segir m.a. þetta, með leyfi hæstv. forseta:

„Þegar sjóðsstjórninni þykir ástæða til, skal hún leita umsagnar sveitarstjórna, Fiskifélags Íslands, Alþýðusambands Íslands, Búnaðarfélags Íslands, Iðnaðarmálastofnunar Íslands, eftir því sem við á, áður en umsókn er afgreidd.“

Það er gert ráð fyrir því, að þegar stjórn atvinnubótasjóðs þykir ástæða til, leiti hún sér upplýsinga um þær framkvæmdir, sem verið er að leita eftir láni til. En það er nokkur og verulegur munur á þessu eða hvort það á að gera allar þessar áætlanir fyrir fram, eins og raunar virðist vera meginhugsun í því frv., sem liggur fyrir frá hálfu framsóknarmanna. En sem sagt, það kom náttúrlega fram hjá hv. 1. þm. Austf., að auðvitað er það, sem máli skiptir, það fjármagn, sem er til umráða. Það er það, sem máli skiptir, og það lagði ég áherzlu á í minni fyrri ræðu, þó að honum þætti nú hentugra að reyna að láta í það skína, að ég hefði ekki gert mikið úr því, teldi vel fyrir þessum málum séð með þeim 10 millj., sem nú væru veittar, og hann vildi sem sagt telja, að þarna væri um mikinn ágreining að ræða á milli okkar. En ég tók það einmitt skýrt fram, að ég teldi æskilegt, að þetta fjármagn væri meira, og það verður vitanlega á hverjum tíma til athugunar að auka þetta, eftir því sem nauðsyn krefur.

Hv. þm. var að hafa eftir mér, að ég hefði talið, að þetta væri skringilegt. Ég man nú ekki, hvort þetta er rétt eftir haft, en það skiptir ekki miklu máli. En hitt mun ég hafa sagt, og ég er þeirrar skoðunar, að það sé ekki þinglegt, við skulum hafa það orð, að afgreiða núna frv. framsóknarmanna vitandi það, að frv. um atvinnubótasjóðinn var afgreitt á þessu sama þingi fyrir tæpu ári.

Ég má til að minnast aðeins á vextina, sem hv. þm. drap á, að ég væri frægur fyrir að hafa látið uppi um einhverja þá vitlausustu skoðun, skildist mér, sem nokkurn tíma hefði komið fram, að það væri vinningur að því eða hefði verið, eins og ég orðaði það, yfirsjón fyrir nokkrum árum með vextina af stofnlánum til landbúnaðarins, að þeir hefðu ekki verið hækkaðir. En hann sagði einnig: „og lánstíminn styttur“. En þetta hef ég aldrei sagt. Það er reginmunur á því, hver vaxtahæðin er og aftur með lánstímann, og það er vitanlega nauðsynlegt alltaf að geta haft lánstímann sem lengstan af framkvæmdalánunum, — það er nauðsynlegt. En hinu verður maður að gera sér grein fyrir, að fjármagnið, sem er til, og fjármagnsþörfin, — það er þetta tvennt, sem skapar það, hvað hægt er að ganga langt í því efni. En út af þessu tali um vextina þykir mér rétt að vekja athygli á því í sambandi við verðlagsgrundvöll landbúnaðarvara, að það hefur mikið verið talað um einmitt þennan lið, vexti af eigin fé bændanna, sem þeir hafa lagt í búreksturinn, og það segja margir og það með réttu: Það er ekki von, að menn fáist til þess að leggja fé í landbúnað, þegar þeim eru ekki ætlaðir nema mjög lágir vextir, við skulum segja 3½%, eins og var ákveðið í verðlagsgrundvellinum næstsíðasta. Það var að vísu hækkað upp í 5% á síðasta ári. En ég vil bara vekja athygli á því, að auðvitað hljóta þeir að hafa veruleg áhrif á það, hvaða vextir eru ákveðnir af eigin fé, þeir vextir, sem ætlaðir eru af stofnlánum, sem veitt eru til landbúnaðar, og því lægri vextir sem eru af stofnlánum, sem veitt eru til landbúnaðar, þá liggur auðvitað í hlutarins eðli, að því lægri verða vextirnir af eigin fé bændanna, sem þeir eiga í búskapnum. Það er þess vegna alls ekki svo einfalt mál, og það hefur líka sína ókosti, eins og ég einmitt var að reyna að leiða fram og benda á, að hafa vexti mjög lága. Þetta hefur m.a. háð landbúnaðinum um langa hríð, að vegna þess að það var talið, að hann gæti ekki greitt nema mjög lága vexti af sínum stofnlánum, þá leiddi það af því, að eigið kapítal bóndans var lítils metið og það var ekki talið bera nema litla vexti eða njóta nema lítilla vaxta í búrekstrinum.

Hv. þm. sagði, að ég hefði verið að reyna að gera sem allra minnst úr árangri af því atvinnuaukningarfé, sem farið hefur til Austurlandsins. Það lá alls ekki í mínum orðum, það er mikill misskilningur. En hitt fannst mér óþarfa drýldni, ef svo mætti segja, sem kom fram í ræðum þeirra framsóknarmanna, og ég gat ekki stillt mig um að benda á það, að nokkuð af þessu fé fór, eins og ég nefndi, til þess að greiða halla af togaraútgerð á Austurlandi, — togaraútgerð, sem var þannig ástatt um, að togararnir hvorki lögðu upp afla sinn á Austurlandi, heldur gerðu það við Faxaflóa, og skipin voru ekki einu sinni mönnuð að austan. Það felst ekki í þessu, að þetta fé gæti ekki komið að notum, en því var bara ekki varið þannig, að það kæmi að notum.

Ég ætla ekki að fara út í síldarverksmiðjumálin. Það gefst vafalaust tækifæri til þess síðar, en þá er ég illa svikinn, ef hv. 1. þm. Austf. fær marga til að trúa því, að þar hafi ekki orðið mjög mikil breyting á í tíð þessarar ríkisstj.

Hv. 1. þm. Austf. spurði, hvort það væri léttara nú en áður var að byggja og kaupa skip, t.d. heldur en var í tíð vinstri stjórnarinnar, og yfirleitt að vinna að framkvæmdum. Ég skal ekki halda því fram, en ég vil þá bara spyrja hv. þm.: Hvers vegna hélt þá ekki vinstri stjórnin áfram að starfa og lofa þjóðinni að búa áfram við þessi góðu kjör? Þetta er spurning, sem ákaflega æskilegt væri að fá svör við. Eða var það kannske þannig, að þetta var sjónhverfing, þessi góðu kjör? Var það kannske þannig, að framkvæmdirnar kostuðu meira en fram var talið, og það varð seinni tíminn, sem þetta kom niður á?

Ég skal líka sleppa að ræða hér um landhelgismálið. Ég býst við, að það verði erfitt fyrir hæstv. stjórnarandstæðinga að klína því á Sjálfstfl., að hann hafi verið andstæður útfærslu landhelginnar. Ég get alveg leitt hjá mér að svara slíku?

Ég ætla ekki að vera að skattyrðast meira út af þessu máli. Það var að vísu margt, sem kom fram í ræðu hv. þm., sem vafalaust gefst tækifæri síðar til þess að ræða um, en eins og ég sagði áðan, fannst mér ekki rétt að láta það með öllu ógert að tala nokkur orð út af þessu máli. Svo skal ég láta máli mínu lokið.