17.12.1962
Neðri deild: 29. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 193 í C-deild Alþingistíðinda. (2104)

49. mál, félagsheimili

Benedikt Gröndal:

Herra forseti. Ég vil gefa þá skýringu á því, sem hv. síðasti ræðumaður nefndi, að menntmn. lét ekki fylgja máli þessu ýtarlega prentaða grg. Í fyrsta lagi var flutt allýtarleg munnleg grg. af hálfu frsm. n. og í öðru lagi var þetta mál afgreitt frá n. á síðasta þingi.

Ef n. liti svo á, að með þeirri breyt., sem hún mælir með á þessu frv., væri hún fyrst og fremst að auka útgjöld félagsheimilasjóðs, teldi ég eðlilegt, að hún mælti ekki með slíku, áður en hún fengi ýtarlega grg. um ástand sjóðsins, hvaða getu hann hafi til þess að taka slík útgjöld á sig. N. lítur hins vegar svo á, að þetta frv. eigi, áður en mörg ár líða, ekki að auka, heldur að draga úr útgjöldum sjóðsins. Það er viðurkennt, að félagsheimili hafa sums staðar verið stór og of nærri hvert öðru miðað við byggðina. Hugmyndin á bak við þetta frv, a.m.k. hugmyndin á bak við minn stuðning við þetta mál, er, að frv. eigi að hafa þau áhrif, að skipulagning heimilanna yrði skynsamlegri og í meira samræmi við þörfina og að með því að fleiri sveitarfélög sameinuðust um félagsheimili, þar sem það er hægt vegna samgangna, yrði niðurstaðan sú, að ekki aðeins fengist betri hagnýting, heldur mundu, þegar frá líður, útgjöld sjóðsins verða minni en ella. Ég hef út af fyrir sig ekkert á móti því, ef hv. þm. óska eftir, að nota þetta frv. sem tilefni til að fá inn í þingið ýtarlega skýrslu um það, hvernig félagsheimilasjóðurinn stendur. Það er búið að nefna áður í umr., að hann er orðinn langt á eftir í greiðslum, og það er mikið vandamál, sem mér er kunnugt um að viðkomandi ráðh. hefur íhugað.

Ég vildi gefa þessa skýringu á stuðningi og afgreiðslu n. við frv. Ég sé í þessu frv. leið til að fá skipulegri og hagkvæmari byggingu félagsheimila, sem mundi draga úr útgjöldum heldur en hitt, að þetta mundi auka verulega útgjöld umrædds sjóðs.