17.12.1962
Neðri deild: 29. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 196 í C-deild Alþingistíðinda. (2108)

49. mál, félagsheimili

Frsm. (Björn Fr. Björnsson):

Herra forseti. Ég þykist vita það, að flestallir þm. hafi nokkra hugmynd um það, hver hagur félagsheimilasjóðs sé í dag, og ekki síður hv. 1. þm. Vestf. (GíslJ) en við hinir, en hann er mjög bágborinn. Hæstv. menntmrh. hefur lýst yfir, að það sé í athugun að efla hann meir en áður. Og það er sýnt, og m.a. vakti það fyrir okkur í menntmn., að höfuðatriði frv., að hjálpa til að reisa fremur héraðsheimili en einstök félagsheimili, mundi verka til sparnaðar félagsheimilasjóði, og það held ég að hv. þm. öllum hljóti að vera ljóst. Þetta er höfuðatriði frv., sem hér er á ferð. Frekari fjáröflun til félagsheimilasjóðs er svo annað mál, sem sjálfsagt getur tekið langan tíma að finna sæmilegan flöt á, þannig að teljast megi viðunandi úrlausn.

Ég sé út af fyrir sig ekki, að það sé ástæða til að fresta afgreiðslu frv., sem hér liggur fyrir, og geri ekki tillögu um það. En ég vænti þess, að hæstv. menntmrh. geti einhvers staðar á leiðinni komið að sínum till. til úrbóta á hinum bágborna hag félagsheimilasjóðs. En það frv., sem hér liggur fyrir, eða efni þess hlýtur að vera í augum flestra, ef ekki allra þm., mjög nauðsynlegt til þess m.a. að koma hag félagsheimilasjóðs á réttari og betri kjöl.