11.02.1963
Efri deild: 39. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 197 í C-deild Alþingistíðinda. (2117)

49. mál, félagsheimili

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Frv. þetta er flutt af samþingsmönnum mínum úr Austurlandskjördæmi, en þeir eiga allir sæti í hv. Nd.

Samkv. gildandi lögum njóta félagsheimili fjárhagsstuðnings úr félagsheimilasjóði, þannig að heimilað er að greiða allt að 40% byggingarkostnaðar. Með frv. þessu er lagt til að gera þá breyt. á lögunum, að félagsheimili verði flokkuð í tvo flokka: Annars vegar séu hús, sem reist eru í þágu eins sveitarfélags og sveitarfélagið sjálft og önnur félög standa saman að byggingu slíkra húsa. Þegar um þann flokk félagsheimila sé að ræða, verði stuðningur úr félagsheimilasjóði hinn sami og nú er samkv. gildandi lögum. En hinn flokk félagsheimila, sem gert er ráð fyrir að þetta frv. taki til, má kalla héraðsheimili, en það eru hús, sem félög á stóru svæði eða mörg sveitarfélög ákveðins héraðs gera samning um að reisa og reka sameiginlega, enda hafi 80% sveitarfélaga héraðsins og eigi færri en 3 gert með sér slíkan samning. Frv. gerir ráð fyrir, að styrkur til slíkra húsa megi nema allt að 50% byggingarkostnaðar.

Það er augljóst, að það er hagkvæmt fyrir félagsheimilasjóð, að þessi starfsemi færist þannig saman, að sveitarfélög á allstóru svæði myndi með sér samtök um að reisa og reka hús til félagsstarfsemi, ef samgöngur og aðrar ástæður leyfa það eða mæla með, að svo verði. En það, sem hvetur þm. Austurlandskjördæmis til að flytja þetta mál og reyna að koma því fram, er, að Egilsstaðakauptún er orðið miðstöð samgangna, verzlunar og félagsstarfsemi á Fljótsdalshéraði, og þar er í smíðum félagsheimili, sem á að starfa í þágu margra sveitarfélaga í þessum landshluta, og standa þau sameiginlega að byggingu félagsheimilisins.

Þetta frv. hlaut einróma meðmæli menntmn. Nd. og er nú komið hér til 1. umr. í síðari þd. Ég vænti þess, að það eigi góðum skilningi að mæta í þessari hv. d. og fái hér greiða afgreiðslu. Ég tel rétt, að frv. verði vísað að lokinni umr. til menntmn.