09.04.1963
Efri deild: 70. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í C-deild Alþingistíðinda. (2245)

218. mál, ferðamál

Frsm. (Jón Þorsteinsson):

Herra forseti. Samgmn. hefur athugað þetta frv. til l. um ferðamál.

Í þessu frv. eru 3 meginatriði. Það er í fyrsta lagi, að stofnað er svonefnt ferðamálaráð, sem greinir frá í 11. gr. frv. Ráð þetta skal skipað 9 mönnum, og aðilarnir, sem tilnefna menn í ráðið, eru: Eimskipafélag Íslands, Félag sérleyfishafa, Ferðafélag Íslands, Flugfélag Íslands h.f., Loftleiðir h.f., Ferðaskrifstofa ríkisins, Samband veitinga- og gistihúsaeigenda og Landssamband íslenzkra ferðaskrifstofa, auk þess er svo formaður ráðsins skipaður af ráðh. En um hlutverk ferðamálaráðs er greint í 12. gr., og þar segir m.a., að hlutverk þess sé að vera Alþingi og ríkisstj. ráðgefandi um allt, er varðar ferðamál í landinu, að gera áætlanir og tillögur um skipan gistihúsamála í landinu og að inna af hendi annað það, sem ráðinu er sérstaklega falið með lögum þessum eða á annan hátt.

Annað meginatriði frv. er um Ferðaskrifstofu ríkisins. Lögin um Ferðaskrifstofu ríkisins eru felld niður, en í staðinn eru ákvæði um hana tekin upp í þetta frv. Jafnframt er sú höfuðbreyting gerð, að afnuminn er einkaréttur Ferðaskrifstofunnar til þess að taka á móti erlendum ferðamönnum.

Þriðja meginatriði frv. er um ferðamálasjóð, en um hann eru ákvæði í IV. kafla frv., en þar segir, að stofna skuli sjóð, sem nefnist ferðamálasjóður. Hlutverk hans er að stuðla að byggingu gisti- og veitingahúsa í landinu og bæta þannig skilyrði til að veita innlendu og erlendu ferðafólki sem beztar móttökur og aðbúð. Árlegt framlag til ferðamálasjóðs úr ríkissjóði skal eigi vera lægra en 1 millj. kr. Þá er ferðamálasjóði heimilað með samþykki ráðh. að taka 20 millj. kr. lán og fjmrh. heimilað að ábyrgjast slíkt lán fyrir hönd ríkissjóðs. Samgmrh. skal hafa yfirumsjón með vörzlu ferðamálasjóðs og fela bönkum umsjón sjóðsins, vörzlu hans, bókhald, innheimtur og útborganir. Lán úr ferðamálasjóði veitast eigendum gisti- og veitingahúsa eða opinberum aðilum til þess að bæta aðstöðu til móttöku ferðafólks, svo sem til bygginga, endurbóta á húsnæði eða kaupa á húsgögnum og öðru slíku. Hins vegar er óheimilt að veita rekstrarlán úr ferðamálasjóði. Umsóknir um lán úr ferðamálasjóði skulu sendar ferðamálaráði, sem gerir rökstudda till. til samgmrh. um lánveitingar.

Við athugun á þessu frv. var samgmn. sammála um að gera á því tvær breytingar og þær brtt. liggja. fyrir á þskj. 607.

Fyrri brtt. er við 11. gr. og er eingöngu leiðrétting á prentvillu. Þar stendur, að samgmrh. skipi 7 menn í ferðamálaráð til 3 ára í senn. Síðan eru taldir upp 8 aðilar, sem eiga að skipa hver um sig einn mann í ráðið, auk þess sem á að skipa formann, þann 9., þannig að talan 7 er auðsjáanlega prentvilla eða einhver mistök, sem þarf að leiðrétta, og um það fjallar fyrri brtt., að í staðinn fyrir 7 komi 9.

Önnur brtt., sem n. flytur, er varðandi 17. gr. frv., en í 1. mgr. 17. gr. segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ferðaskrifstofa ríkisins fylgist með hvers konar starfsemi í landinu varðandi móttöku ferðamanna, bæði hvað snertir verðlag, gæði, þjónustu og viðurgerning, og lítur eftir umgengni og aðbúnaði á gistihúsum og veitingahúsum, farfuglaheimilum, gistiheimilum og greiðasölustöðum.“ Nefndin leit svo á, að með frv. því, sem verið hefur til afgreiðslu hér í þessari hv. d. varðandi veitingahúsarekstur og gistihúsahald, þá samrýmist þessi 17. gr. ekki því frv., vegna þess að í frv. um veitingahúsarekstur og gistihúsahald var eftirlitsskylda Ferðaskrifstofu ríkisins með veitinga- og gistihúsum eiginlega felld niður og falin sérstökum eftirlitsmanni, sem átti að starfa undir stjórn landlæknis. Að vísu má segja, að það eftirlit sé í höfuðatriðum heilbrigðiseftirlit, þó að það sé ekki skýrt tekið fram í frv. um veitingahúsa- og gistihúsarekstur, en ef þessari 17. gr. yrði ekki breytt, gat þarna orðið misræmi milli þessara tveggja frv. og reyndar ætti að líta þannig á, að sumar tegundir þessa eftirlits væru í höndum tveggja aðila, sem út af fyrir sig var óheppilegt og gat skapað óvissu og togstreitu. Þá taldi n. rétt að stytta þennan 1. málsl. 17. gr. og breyta lítils háttar orðalaginu, þannig að 1. málsl. hljóðaði eins og í brtt. segir: „Ferðaskrifstofa ríkisins fylgist með hvers konar starfsemi í landinu varðandi móttöku ferðamanna, bæði að því er snertir verðlag og annað.“ Hins vegar eru felld niður orðin „gæði, þjónustu og viðurgerning og lítur eftir umgengni og aðbúnaði á gistihúsum og veitingahúsum“ o.s.frv. þannig að það truflar ekkert veitingahúsaeftirlitið, sem er fyrst og fremst heilbrigðiseftirlit, þó að Ferðaskrifstofan líti eftir verðlagi og fylgist almennt með hvers konar starfsemi í landinu varðandi móttöku ferðamanna. Enda segir líka síðar í þessari 17. gr., að Ferðaskrifstofan skuli vera ráðgefandi um það, hvað betur megi fara í aðbúnaði og rekstri gisti- og greiðasölustaða, og enn fremur finni Ferðaskrifstofan ástæðu til umvöndunar, skuli hún gera viðkomandi aðilum og ferðamálaráði viðvart um það, ef ástæða þykir til, og ef ástæða þykir til gisti- og veitingahúsaeftirlitinu eða öðrum þeim aðilum, sem slíkt eftirlit er falið í veitingalögum.

Brtt. þessi er fyrst og fremst gerð í því skyni að samræma þetta eftirlit, svo að vissar tegundir þessa eftirlits séu ekki á hendi tveggja aðila. Telur n., að eftirlit, sem sett er á laggirnar með frv. um veitingahúsa- og gistihúsahald, sé nægjanlegt.

N. hefur orðið sammála um að mæla með því, að frv. verði samþ. óbreytt að öðru leyti en þessum tveimur brtt., sem hér er lýst og eru á þskj. 607.