30.10.1962
Neðri deild: 9. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 307 í B-deild Alþingistíðinda. (230)

7. mál, Norðurlandasamningur um innheimtu meðlaga

Frsm. (Gísli Jónsson):

Herra forseti. Frv. það, sem hér er til umr. á þskj. 7, kveður svo á, að ríkisstj. sé heimilt að auglýsa í Stjórnartíðindum um samning þann, sem undirritaður var í Osló 23. marz 1962 á milli allra Norðurlandanna um innheimtu meðlaga, að hann skuli öðlast gildi. Sjálfur samningurinn er birtur með frv.

Dómsmrn. Norðurlandanna hafa á undanförnum árum endurskoðað fyrri samninga um þetta efni, komið sér saman um samninginn, eins og hann er birtur hér með. Þykir ekki ástæða til þess að rekja hér innihald sjálfs samningsins.

Heilbr.- og félmn. hefur rætt frv, á einum fundi, kynnt sér innihald samningsins ásamt aths., sem fylgja því til skýringar. Leggur n. til einróma, að frv. verði samþykkt óbreytt.