25.10.1962
Efri deild: 7. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 700 í C-deild Alþingistíðinda. (2521)

37. mál, kornrækt

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Þetta frv. er nú orðinn allgóður kunningi hér á hv. Alþingi og ekki sízt hér í hv. deild, en eigi að síður vil ég gera nokkra grein fyrir þessu máli nú að þessu sinni.

Það er kunnara en frá þurfi að segja, að kornrækt hefur verið stunduð annað slagið hér á landi allt frá landnámstíð. Álit manna á kornrækt hefur alla tíð verið umdeilt, bæði í dag og eins fyrr á tímum. En það hlýtur að vera okkur Íslendingum hvort tveggja í senn metnaðar- og menningarmál að vera sjálfum okkur nógir á þeim sviðum, sem þess er kostur, og þar hlýtur sama að gilda um kornrækt og annað. Við Íslendingar höfum mikil og góð ræktunarlönd, sem við tileinkum okkur með hverju árinu sem líður í rákara mæli, enda er margt, sem því veldur, og ekki sízt hin aukna og fullkomna tækni, sem við höfum nú á að skipa við þurrkun lands, jarðvinnslu, sáningu, áburðardreifingu, uppskeru og heyverkun. Þessi tækni léttir störfin mjög mikið frá því, sem áður þekktist. Sams konar tækni ryður sér rúms á sviði kornyrkju. Það er auðveldara nú en áður var að þurrka kornið með súgþurrkun, sem ekki þekktist áður. Það eru líka komnar til sögunnar betri þreskivélar en áður þekktust.

En höfuðspursmálið og höfuðvandamálið í kornræktinni er: Á kornræktin rétt á sér eða á hún ekki rétt á sér? Engin ræktun í landi okkar er örugg. Meira að segja grasræktun getur brugðizt í stórum stíl. Eins og hönd styður fót, styður ein ræktunin aðra. Þannig skýlir skógræktin öðrum gróðri í landinu. Í skjóli fjallanna og þéttvaxinna trjáa nýtur sólarhitinn sin betur en þar, sem næðingar geisa. Það er því skoðun mín, að hér á landi sé aðstaða öll til staðar, svo að kornrækt geti blessazt, en hins vegar líka til landshlutar, þar sem útilokað er í öllu venjulegu árferði að rækta korn. Það, sem gera þarf, eins og allar tilraunir hér hafa sýnt, er að velja land þar, sem sólarhitinn nýtur sin og norðanvindar ná ekki að geisa af miklum krafti. Fullþroska korn fæst þar, sem samanlagður hiti yfir sprettutímann er ekki undir 1150 stigum, og þar, sem sprettutíminn fer ekki mikið yfir 100–120 daga, með úrkomumagni, sem er ekki undir 200 mm. Sé hægt að sá korni snemma í maí eða apríl, er í allflestum árum þessum skilyrðum af hálfu náttúrunnar fullnægt.

Tilraunastjórinn á Sámsstöðum telur nokkuð örugga kornyrkju hér á landi í hverjum níu sumrum af tíu. Þetta er líka mjög hliðstætt því, sem er hjá nágrönnum okkar í norðanverðum Noregi. Klemenz segir enn fremur, að prófaðar hafi verið um 400 korntegundir á tilraunastöðinni á Sámsstöðum, þó að aðeins örfáar þeirra hafi gefið tilefni til þess að halda áfram með hær í tilraunum. S.l. 40 ár, sem liðin eru frá því að tilraunir með kornrækt hófust skipulega hér á landi, hafa 16 sumur verið mjög hagstæð kornyrkju, en 7 eða 8 sumur óhagstæð, og í þessum óhagstæðu kornræktarsumrum hafi stærð kornsins ekki náð nema af þeirri venjulegu kornstærð, sem fengizt hefur allajafna. En þó hefur þetta korn verið mjög vel nothæft.

Á s.l. vori telja kunnugir menn að sáð hafi verið korni í 745 hektara lands, eða 245 hekturum meira en var á s.l. ári. Þessi kornrækt er stunduð í 7 sýslum á landinu. Eru um það bil 15 kornræktarsvæði, sem margir einstaklingar standa að. En stærsti kornakurinn var 170 hektarar, og hann var í Gunnarsholti. Ekki er enn þá vitað með vissu um meðaluppskeru á þessu ári, en talið er, að mikill klaki í jörðu s.l. vor og fremur kalt og sólarlítið sumar hafi valdið minni uppskeru í ár en á s.l. ári, en þá var uppskeran skv. þeirri skýrslu, sem er í Garðyrkjuritinu á bls. 44, en þar segir, að meðaluppskeran s.l. ár hafi verið rúmar 15 tunnur af ha. en uppskeran á öllu landinu hafi verið um 6500 tunnur af korni, sem aðallega er bygg. Og þá var sáð í 500 hektara, en árið áður aðeins í 50 hektara, þannig að landsstærðin tífaldaðist á því eina ári.

Á vegum atvinnudeildar háskólans er m.a. unnið að tilraunum með kornrækt. Um 50 afbrigði eru í athugun í Gunnarsholti. En það tekur sinn tíma að fá úr því skorið, hvernig þessi afbrigði kunna að reynast. Og alltaf eru að skapast ný viðhorf á þessu sviði, eins og á öðrum sviðum varðandi tilraunir, svo að segja má með sanni, að engri tilraun verði nokkurn tíma til fullnustu lokið, þótt hún kunni að gefa nokkrar niðurstöðutölur, áður en langir tímar liða. Reynt er nú að fá fram korntegundir, sem þurfa stuttan vaxtartíma og þola storma betur en þau afbrigði, sem nú eru ræktuð í landinu. Þetta er allt nauðsynlegt og gott, og má segja, að það sé eftir atvikum vel fyrir þessum málum séð, þegar miðað er við ýmsar aðrar hliðstæðar tilraunir í landinu.

Þetta frv., sem hér er, er samhljóða frv. því, sem við hv. 5. þm. Austf. fluttum í fyrra. Er þetta í fjórða sinn, sem við flytjum mál þetta í þessari hv. deild. Afgreiðsla frv. í fyrra var sú, að því var vísað til hæstv. ríkisstj. Eigi hef ég neitt heyrt um það, hvað hæstv. ríkisstj. hefur gert í málinu, en vera má, að það sé margt og mikið, og kemur það þá væntanlega í ljós við meðferð málsins hér á hv. Alþingi.

Þetta frv. felur í sér í fyrsta lagi, að kornræktaraðilar myndi með sér félög um ræktunina og þeir hafi lágmarkslandstærð til umráða. Þetta er gert til þess að nýta vélakostinn betur en líkur eru til að ella væri. Í öðru lagi er lagt til í frv. þessu, að ríkið veiti framlag til vélakaupa allt að 50% af kostnaðarverði vélanna, en þó ekki yfir 200 þús. kr. til hvers samningsaðila. Í þriðja lagi er lagt til, að greitt verði sama framlag úr ríkissjóði út á frumvinnslu lands, eins og við aðra jarðrækt. Þetta er að vísu gert nú, en sakar eigi, að það sé fram tekið í þessu frv., ef að lögum verður. Í fjórða lagi er lagt til, að greitt verði hálft jarðræktarframlag úr ríkissjóði út á endurvinnslu lands. Hér má segja með sanni, að kröfum öllum er stillt mjög í hóf gagnvart ríkisvaldinu, jafnframt því sem reynt er að sjá svo um, að nýting vélaaflsins verði betri en ella mundi verða. Þetta frv. gerir ráð fyrir, að Búnaðarfélag Íslands fari með stjórn þessara mála, eins og stjórn annarra ræktunarmála í landinu, og verðum við að segja með sanni og eigi hefur annað í ljós komið, að vel hafi verið á þeim málum haldið af stjórn og ráðunautum og starfsliði Búnaðarfélags Íslands. Árlega flytjum við Íslendingar inn korn og korntegundir fyrir tugi millj. kr., þar sem okkur skortir kolvetni til fæðu og fóðurs. Eina leiðin til að minnka þennan innflutning er að efla kornræktina í landinu, verja nokkru fé til þess úr ríkissjóði og á þann hátt að spara gjaldeyri, sem við höfum alltaf mjög takmarkaðan. Kornræktin á sina framtíð í landinu alveg eins og grasræktin á og hefur sýnt sig að vera bjargvættur bændanna í fóðuröflun hin síðari ár. Ég treysti því, að mál þetta mæti meiri skilningi hv. þm. en raun ber vitni um frá undanförnum þingum. Legg ég til, að máli þessu verði síðan vísað til 2. umr. og til landbn.