07.11.1962
Sameinað þing: 9. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 15 í D-deild Alþingistíðinda. (2662)

39. mál, endurskoðun skiptalaganna

Flm. (Ásgeir Bjarnason):

Herra forseti. Till. samhljóða þessari var lögð fyrir síðasta Alþingi, en hlaut þá ekki afgreiðslu og er því flutt að nýju nú, þar sem við flm. teljum, að hér sé um allþýðingarmikið mál að ræða.

Eins og kunnugt er, eru lög um skipti á dánarbúum o.fl. frá árinu 1878. Á þeim rúmum 8 áratugum, sem liðnir eru síðan lög þessi öðluðust gildi, hafa orðið miklar breytingar á sviði viðskipta og efnahagsmála í landinu, auk þess sem búið er að breyta allmörgum lögum og semja ný, sem hafa sín áhrif beint eða óbeint á skiptalögin. Má þar á benda, að á s.l. Alþingi voru samþ. ný erfðalög, en skiptalögin kveða m.a. á um skipti á þeim arfi, sem til feitur hverju sinni, og fjalla því um framkvæmdina á sjálfum erfðalögunum.

Þar sem réttur fólks til arftöku er ákveðinn í erfðalögunum, er nauðsynlegt, að framkvæmd þeirrar löggjafar sé betur tryggð með skiptalögunum en nú er og meira samræmis gætt við mat á erfðahlutum en stundum hefur átt sér stað áður fyrr. Skiptalögin þurfa að verða skýrari en nú er og fastar mótuð, bæði fyrir þá, sem í hlut eiga og þurfa að sækja rétt sinn eftir þeim lögum, svo og ekki síður fyrir hina, sem eiga að framkvæma löggjöfina.

Ég legg til, að umr. þessari verði frestað og málínu vísað til allshn.