20.03.1963
Sameinað þing: 41. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 18 í D-deild Alþingistíðinda. (2675)

106. mál, samningar Evrópuríkja um félagslegt öryggi

Frsm. (Benedikt Gröndal):

Herra forseti. Þáltill., sem er 106 mál, er um fullgildingu á tveimur bráðabirgðasamningum Evrópuríkja um félagslegt öryggi og samþykkt Evrópuríkja um framfærsluhjálp og læknishjálp.

Markmiðið með þessum samningum er að tryggja, að sérhver meðlimur Evrópuráðsins veiti þegnum annarra meðlima þess jafnrétti við sína eigin þegna, að því er tekur til réttinda á þeim sviðum, sem samningarnir taka til, um tryggingar og félagsmál, og þegnar Evrópuríkjanna njóti góðs af tilteknum réttindum samkv. gildandi samningum milli ríkjanna. Eru nánari ákvæði um það, á hvern hátt þetta skuli framkvæmt. Ekki er ætlunin að menn geti gengið inn í fullar tryggingar með því að fara yfir landamæri, heldur eru reglur um búsetu og mismunandi reglur eftír því, hvort tryggingarnar eru þess eðlis, að menn verði að greiða iðgjöld til að geta notið þeirra eða ekki. Þá er og sleginn varnagli fyrir því, að menn geti flutt sig á milli landa til þess eingöngu að njóta hagstæðustu trygginga, þar sem þær eru.

Að því er Ísland varðar, taka þessir samningar til eftirtalinna tryggingagreina: til ellilífeyris, örorkulífeyris, barnalífeyris, ekkjulífeyrirs, læknishjálpar, sjúkradagpeninga, fæðingastyrks og ekkjubóta, slysatrygginga, fjölskyldubóta og mæðralauna.

Hér eru ýmis ákvæði, sem munu hafa mikla þýðingu fyrir það fólk, sem flytur sig milli landa til vinnu og oft þarf að starfa í öðru landi um langt árabit, áður en það fær þar full borgararéttindi. Ég vil t.d. benda á 6. gr. sem dæmi, en þar er sagt, að aðildarríki, þar sem þegn annars aðildarríkis er löglega búsettur, skuli ekki senda hann til heimalands síns fyrir þá eina sök, að hann þarfnast aðstoðar. Við munum enn eftir því, hvílíkt skref það var, þegar hreppaflutningar voru afnumdir hér á landi.. Þegar þessi samþykkt verður að veruleika, eins og hún er nú þegar orðin hjá sumum ríkjum, afnemum við sams konar flutninga á milli landa. Þannig er starfssviðið smám saman að stækka.

Allshn. hefur haft sömu vinnubrögð á afgreiðslu þessarar till. og þeirra samninga, sem í henni felast, og þeim, sem ég lýsti í sambandi við siðasta mál. Fyrir liggur brtt. á þskj. 397 um það, að fskj. I—III orðist eins og þar segir. Þessi fskj. eru samþykktirnar sjáifar, sem staðfesta á og eru hér prentaðar með þeim breytingum, sem hafa orðið við yfirferð á þýðingu úr frumtextanum.