20.02.1963
Sameinað þing: 31. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 49 í D-deild Alþingistíðinda. (2755)

112. mál, fiskvegur um Brúafossa í Laxá

Flm. (Bjartmar Guðmundsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja hér þáltill. á þskj. 157 um það, að Alþingi álykti að fela ríkisstj. að láta gera athugun á aðstöðu að gera fiskveg um Brúafossa í Laxá og taka þátt í kostnaði, ef ráðlegt þykir að leggja í þessa framkvæmd að áliti sérfræðinga.

Það hefur verið draumur allmargra bænda við Laxá um 20–30 ára bil að gera laxgengt upp yfir Brúafossa, sem eru í Laxá, þar sem nú er Laxárvirkjun, en innan við Brúafossa og Laxárvirkjun er Laxárdalur, og Laxá í Laxárdal hefur alla daga verið laxlaus, vegna þess að lax hefur ekki gengið upp yfir fossana. Þetta mál var að komast á nokkra hreyfingu, þegar lagt var í framkvæmdir við Laxárvirkjun fyrir meira en 20 árum, en um leið og þar voru gerð mannvirki, breyttist aðstaða til þessara hluta og þótti öllu örðugri viðfangs eftir en áður. Síðan hefur enn verið bætt við mannvirki þarna í Laxá, og að líkindum verður það gert enn aftur nú á næstunni.

Ég held, að það þurfi ekki að skýra það, að Laxá í Aðaldal er talin ein allra bezta laxá á landinu og þar er laxstofn talinn ákaflega góður, því að laxinn þar er vænn. Áin fyrir innan þessa fossa mun sízt verri til uppeldis fyrir lax en áin þar fyrir norðan. Ég tei, að þetta sé út af fyrir sig ekki stórt mál, hvort lax kemst inn fyrir þessa fossa, nema fyrir alistóran hóp af bændum, sem búa í Laxárdal, og einnig þá, sem búa neðan við fossana. í Laxárdal eru um 10 bændur. En þetta er angi af mjög stóru máli, sem er aukin fiskrækt í ám og vötnum hér á landi. Og eins og sakir standa, er ekki hægt fyrir einstaklinga að hefjast þarna handa, eins og var, áður en Laxárvirkjun var gerð. Þarf hið opinbera að koma eitthvað til skjalanna og einnig samtök við Laxárvirkjun.

En það er ekki fram á mikið farið í þessari till., aðeins það, að á þessu verði gerð athugun sérfræðinga, og einnig, að heimilt sé ríkissjóði að taka einhvern þátt í kostnaði í samlögum við bændur, ef af framkvæmdum verður og ráðlegt þykir að athugun lokinni. Ég hef rætt þetta við nokkra sérfróða menn í þessum greinum, og þeir telja, að þarna muni að öllum líkindum og raunar tvímælalaust vera möguleikar á að koma fiski upp fyrir fossana. En á þessu stigi vil ég ekki segja, hvaða leiðir muni vera heppilegastar til þess, og þess vegna þarf að athuga málið.

Ég sé ekki ástæðu til að fjölyrða meira um þetta mál, en ég óska þess, að sú nefnd, sem fær málið til meðferðar, vildi hraða afgreiðslu þess eins og hún getur, því að mér er það nokkurt áhugamál, að till. geti fengið afgreiðslu á þessu þingi. Ég tel einboðið, að leitað verði álits sérfræðinga í þessu efni, sem þá yrði helzt veiðimálastjóri, Þór Guðjónsson.

Að svo mæltu legg ég til, herra forseti, að að þessari umr. lokinni verði málinu vísað til fjvn.