06.02.1963
Sameinað þing: 28. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 276 í D-deild Alþingistíðinda. (3044)

109. mál, aðstoð við Snæfjallahrepp

Flm. (Hannibal Valdimarsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja till. til þál. á þskj. 149 um aðstoð við Snæfjallahrepp í Norður-Ísafjarðarsýslu til varnar eyðingu byggðar.

Snæfjallahreppur í Norður-Ísafjarðarsýslu er lítið og fámennt hreppsfélag. Áður fyrr var þetta allfjölmenn byggð. Á utanverðri Snæfjallaströnd voru þá verstöðvar, a.m.k. tvær allfjölmennar, allt fram yfir aldamót, og þar voru einnig stórar bújarðir, svo sem prestssetrið og kirkjujörðin Snæfjöll og einnig Sandeyri, Skarð o.fl. Þessar jarðir allar eru nú í eyði og öll byggð horfin af utanverðri Snæfjallaströnd. Eftir er nú innanverður hluti Snæfjallahrepps, og er eyðingin komin að stóru jörðinni Æðey, stórbýlinu Unaðsdal og býli, sem Tyrðilmýri heitir, var til skamms tíma nauðaðmerkilegt kot, en ungur maður tók sig til fyrir nokkrum árum, keypti þetta býli og byggði það upp, hefur byggt þar upp nýtízku íbúðarhús og komið upp stórri hlöðu og til bráðabirgða innréttað þar fjós fyrir eina 10–12 gripi og ræktað 11 eða 12 hektara lands á þessum býlisskika, sem áður var með öllu í órækt og niðurníðslu. Ég dreg þetta fram af því, að sakir standa nú svo, að eyðing byggðarinnar er komin að þessum hluta hreppsins, Æðey, Unaðsdal og Mýri. Og þarna býr atorkusamt fólk, sem þegar hefur unnið mikið afrek í því að byggja upp þessar jarðir, auka ræktun þeirra og standa mitt í þessari þjóðfélagsbaráttu. Eftir eiga þeir mikið til þess að hafa komið sér svo fyrir, að vel sé viðunandi á þessum jörðum. Bóndinn í Unaðsdal á t.d. eftir að byggja fjós, sem þarf að vera fyrir 30 gripi og mér er sagt að kosti á sjöunda hundrað þús. kr., og hann á einnig eftir að endurbyggja sín fjárhús. Og þannig er með þessa bændur, að þeir eru þegar sokknir í miklar skuldir vegna sinnar athafnasemi og dugnaðar, en byggja þarna góðar jarðir og eru staðráðnir í því að gefa þessa baráttu ekki upp.

Nú er það ekki ætlun mín að flytja till. á Alþingi um að veita þessum bændum persónulega hjálp til að reka sinn búskap. Það vakir ekki fyrir mér með þessari till. Hitt vakir fyrir mér, að þarna standi þannig á, að þjóðfélagið hafi fyllstu ástæðu til að gera sérstakar, almennar ráðstafanir til þess, að sá hluti Snæfjallahrepps, sem enn þá er í byggð, eyðist ekki og það fari þannig fyrir honum eins og tveimur nágrannabyggðum þessa sveitarfélags, nefnilega Sléttuhreppi, sem áður var byggð með á sjöunda hundrað íbúa og var annar fjölmennasti hreppur Norður-Ísafjarðarsýslu og er nú eyddur með öllu, og Grunnavíkurhreppi, nágrannasveit Snæfjallahrepps, sem smátt og smátt eyddist að byggð og má segja að nálega tæmdist að fólki á s.l. hausti. Þó skal þess getið, að eftir er vitavörðurinn á Hornbjargsvita og 3 manneskjur á stórjörðinni Reykjarfirði nyrðra, sem enn þá eru þar í Grunnavíkurhreppi. Að öðru leyti er Grunnavíkurhreppur nú eydd byggð. Ég minnist þess fyrir nokkrum árum, að ég átti tal við Pálma Einarsson landnámsstjóra, sem þá þóttist sjá fram á það, eins og margir menn, sem þarna þekktu til, að Grunnavíkurhreppur væri að eyðast, og þá var Pálmi Einarsson með tillögu um, að það þyrfti að koma þessari byggð til hjálpar, áður en hún eyddist, því að þarna væru landkostir góðir. Hann taldi, og ég hygg, að það sé alveg óyggjandi, að ræktunarskilyrði í Grunnavík séu með ágætum, og aðstaða til sjósóknar er þar líka góð. En þessi hjálp barst ekki og erfiðleikar fámennisins uxu, og að síðustu varð skriðan á s.l, hausti, að 6 eða 7 búendur fóru samtímis úr byggðinni, úr Grunnavíkinni, og fluttu sig til Ísafjarðar og hér suður á land.

Ég tel, að þannig standi á nú í Snæfjallahreppi, að það eigi að koma í veg fyrir það með þjóðfélagsaðstoð, að það, sem eftir er af Snæfjallahreppi, leggist í eyði. Og ég tel og geri grein fyrir því í till. í fjórum töluliðum, að það, sem þurfi sérstaklega að gera af þjóðfétagsins hendi til þess að uppörva þetta fólk í baráttunni og koma því til hjálpar, að í fyrsta lagi að veita sérstaka fjárveitingu til virkjunar Mýrarár, þannig að öll lögbýli hreppsins fái raforku. Þarna eru hin ágætustu virkjunarskilyrði. Hreppsnefndin og hreppsbúar hafa látið raforkumálaskrifatofuna mæla þessa á um langan tíma og undirbúa virkjun, og raforkumálaskrifstofan mælir eindregið með virkjun, telur ána vel til virkjunar fallna. En vitanlega kostar þetta hátt í 2 millj. kr., þessi virkjun fyrir Æðey, Mýri, Unaðsdal, Lyngholt og Bæi, en Bæir eru stór jörð, tvíbýli, áður var það fjórbýli. En sveitarfélaginu, eða því sem eftir er af því, ekki fleiri býlum en þetta, er um megn að taka á sig virkjun Mýrarár ofan á aðra fjárfestingu, sem þessir ötulu bændur hafa staðið í, og ég hygg, að enga ráðstöfun sé hægt að gera, sem betur uppörvi þá við að halda baráttunni áfram, heldur en einmitt að þjóðfétagið komi til sérstakrar hjálpar í viðbót við þau lán og styrk, sem hægt er að fá til virkjunar á þessum stað, með sérstakri fjárveitingu. Og mér er sérstök ánægja að því að upplýsa það, að þegar þessi tíu. kom fram í nóvembermánuði í haust, áður en fjárlög voru afgreidd, var fallizt á það, að um 1/2 millj. kr. skyldi á fjárl. þessa árs vera ætluð til aðstoðar búendunum í Snæfjallahreppi til virkjunar Mýrarár, og þykist ég alveg vita., að hæstv. raforkumálaráðh. standi við það, því að hann upplýsti, að í þeirri fjárveitingu, sem um virkjanir fjallar, væri ætluð 1/2 millj. kr. til virkjunar þessarar ár, af þessu tilefni, að till. var komin fram og á þetta vax mjög sótt þá: Áætlanir raforkumálaskrifstofunnar eru sem sagt fullgerðar, og ég geri ráð fyrir, að bændurnir eða sveitarfélagið ráðist í þessa virkjun með vorinu, og það er góð byrjun. Ég fagna þessu.

Það skal upplýst enn fremur, að það er ekki talíð líklegt, að Snæfjallahreppur fái nokkurn tíma raforku frá samveitum ríkisrafveitnanna, svo að sveitarfélaginu yrði aldrei séð fyrir raforku, að ég hygg, nema einmitt með virkjun Mýrarár.

Þá taldi ég aðra sjálfsögðustu aðstoðina, sem þjóðfélagið gæti gert Snæfjallahreppi, að koma á vegasambandi úr Snæfjallahreppi inn yfir til Nauteyrarhrepps og koma þessu afskekkta og fámenna sveitarfétagi þannig í samband við akvegakerfi landsins. En þannig er það nú sett, að það er ekki í akvegasambandi. Það eru akvegir innan sveitar, en enn þá vantar vegagerð í Kaldalóni báðum megin við ána Mórillu og brúarmannvirki á hina miklu jökulá, Mórillu, sem fellur til sjávar í Kaldalóni. Þar er hreppurinn aðskilinn frá sinni nágrannasveit innar á ströndinni, Nauteyrarhreppi á Langadalsströnd. Ég býst þó við, að einna, eðlilegast væri, þegar Snæfjallahreppur er orðinn svona fámennur, að þegar vegasamband væri komið þarna á milli þessara sveitarfélaga, sem bæði eru fámenn, þá væru þessi sveitarfélög sameinuð, svo að burðarmáttur þeirra væri meiri til sameiginlegra aðgerða. Það fékkst nú ekki fram, að fjárveiting væri tekin til þessarar brúar og þessarar vegagerðar, nema að mjög litlu leyti á þessa árs fjárl., og voru það sveitarfélaginu eða íbúum þess mikil vonbrigði. En væntanlega gerist það nú á næsta ári og má þá vænta þess, að undir það hylli.

Í þriðja lagi legg ég til, að ríkið taki að sér að dýpka innsiglinguna á Æðeyjarhöfn. Æðeyjarhöfn er einhver allra bezta höfn frá náttúrunnar hendi, þegar inn á hana er komið. En framan við höfnina er grynning, í hálfgerðri grynningu er klapparnef, sem Úfur nefnist, og af því leiðir, að bæði sundin, beggja vegna við Úfinn, verða of þröng til innsiglingar og Djúpbáturinn kemst ekki inn á Æðeyjarhöfn, nema þegar ekki lóar við stein og aðeins um háftæði. En að vetrum er þetta mjög erfitt fyrir Æðeyjarbónda, að þá er Æðeyjarhöfn ísilögð og þá verður hann að flytja sínar afurðir — hann hefur allstórt bú — út á eyjarendann með mikilli fyrirhöfn og grafa þar upp bát úr snjónum og komast þannig í samband við Djúpbátinn. En ef Æðeyjarhöfn væri fær Djúpbátnum, kæmist hann að bryggju rétt fyrir framan íbúðarhúsið í Æðey. Ég held, að þetta sé of mikið átak að ætla bóndanum, hver sem hann er, að sprengja innsiglinguna og dýpka hana að Æðey, og að þessi aðgerð mundi um alla framtíð vera bezta aðgerðin til þess að bæta aðstöðu Æðeyjarbónda. Og ég lít svo á, að þetta væri sannarlega engin styrkveiting við hann, þetta væri bara þjóðfélagsaðgerð til þess að reyna að tryggja, að náttúruforðabúr eins og Æðey er sé hagnýtt af þjóðinni.

Í fjórða lagi legg ég svo til, að ríkið láti byggja ferjubryggju á Mýri. Þar er hafnaraðstaða góð, betri en nokkurs staðar annars á ströndinni, með því að þessi staður er í landvari af Æðey, sem er þar fyrir landi, en snardjúpt að klöppum þarna skammt fyrir utan Mýrarbseinn. Ég hygg því, að það væri tilvalin endastöð fyrir Djúpbátinn einmitt við bryggju á Mýri og ómetanlegt fyrir bændurna á þessari jaðarbyggð að hafa þarna góðan afgreiðslustað fyrir flóabátinn.

Þetta er efni till., og ég vil vænta þess, að hv. alþm, fallist á, að það sé sérstök ástæða til þess, að þjóðfélagið komi þarna hjálpandi til og fyrirbyggi frekari eyðingu byggðar en orðin er. Eyðing Grunnavíkurhrepps og Sléttuhrepps er harmsaga, og það er fyllilega ástæða til þess, að alþm. gefi því gaum, að þeir geta komið í veg fyrir, að sú harmsag: verði framhaldssaga. Og það er alveg ástæðulaust að láta hana verða það. Ég tel hér ekki vera um persónulegar styrkveitingar að ræða til þeirra manna, sem búa í Snæfjallahreppi nú, og væru þó þeir menn fyrir atorku sakir allra góðra hluta maklegir. Ég tel þetta vera þjóðfélagsráðstöfun, sem þjóðfélaginu beri að gera, til þess að blómlegar byggðir með góðum jarðnytjum leggist ekki í eyði. Auk ræktunarskilyrðanna, sem allar þessar jarðir í Snæfjallahreppi, sem nú eru í byggð, eiga, má þess enn geta, að jarðhiti er í Unaðsdalslandi og ekki ólíklegt, — hann liggur það nærri bæjum, — að hann mætti nytja fyrir þessa byggð, e.t.v. alla. Ég tel því, að hér sé alls ekki ómerkilegt mál á döfinni, og ég vænti góðra undirtekta við það og hef þegar skýrt frá því, að að nokkru leyti hefur málið þegar fengið góðar undirtektir, þó að till. væri þá bara aðeins fyrir skömmu fram komin, þegar fjárlög voru afgreidd. En framhald þarf á því að verða, ef að gagni á að koma.

Ég legg til, herra forseti, að till. verði vísað til fjvn. og umr. um hana nú frestað, því að um hana hefur verið ákveðin ein umræða.