19.04.1963
Sameinað þing: 51. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 524 í D-deild Alþingistíðinda. (3401)

254. mál, Siglufjarðarvegur

Fyrirspyrjandi (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Ég vil þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans við fsp. minni. Hæstv. ráðh. vísaði vitanlega til framkvæmdaáætlunarinnar, en í henni er sagt, að það sé ætlunin að vinna á þessu og næsta ári að byggingu Strákavegar, á milli Siglufjarðar og Fljóta, og ljúka byggingunni að fullu á árinu 1965. Svo nákvæmlega er þetta tiltekið í áætluninni, að sagt er, að göngunum gegnum fjallið skuli lokið í ágúst 1965, — það er reyndar ekki tiltekinn dagur, en það er tiltekinn mánuður, — og þar með að sjálfsögðu vegurinn tekinn til umferðar. Ég hef, eins og að líkum lætur, ekki ástæður til að rannsaka allar hliðar þessa máls, m.a. um það, hvort slík stórframkvæmd eins og hér um ræðir sé framkvæmanleg á svona stuttum tíma. Mér er t.d. vel kunnugt um það, að samkv. áliti verkfræðinga tekur það í allra stytzta lagi 12 mánuði að sprengja jarðgöngin, með því að það sé unnið á vöktum, og reyndar er þetta nokkuð gömul áætlun. En ég held, að ekkert hafi þar breytzt, sem hróflar því, sem þá var gert, annað en verðlag.

Vitað er, enda opinberlega viðurkennt, að bygging jarðganganna krefst sérstaks og rækilegs tæknilegs undirbúnings. Eftir því sem ég veit bezt, — það má vel vera, að það sé einhver misskilningur hjá mér og það byggist þá á því, að ég hef ekki fengið réttar upplýsingar á vegamálaskrifstofunni, — er tekníski undirbúningurinn mjög skammt á veg kominn. Ég verð líka að draga það í efa, á jafnstuttum tíma og frá því að ég átti tal við vegamálaskrifstofuna, að það sé endanlega búið að ganga frá kostnaðaráætlun um byggingu vegarins, eins og hæstv. ráðh. vildi vera láta. Ég er ekki að rengja það, að hann hafi fengið þessar upplýsingar hjá vegamálastjóra, þar sem þetta er nákvæmlega sundurliðað, 4 millj. 1963, 10.9 millj. 1964 og 6.5 millj. 1965. Ekki upplýsti hæstv. ráðh., hvar eða hvernig ætti að fá fé til framkvæmdanna, og lofar það ekki góðu um efndir. Það færi betur, að þetta stæðist. Enginn mundi vera ánægðari yfir því en ég. En þegar maður hefur í huga það, sem áður hefur gerzt í þessum málum, finnst manni því miður, að allur stuðningur stjórnarliðsins gagnvart þessu máli hafi verið mjög takmarkaður, og ég minnist þess, að fyrir síðustu kosningar var þetta mikla stórmál Siglfirðinga mikið rætt og mikil loforð gefin um það, að undinn yrði bráður bugur að því að leysa þessi vegavandræði. Um þetta er nú ekkert að segja, ef þetta stendur, eins og lofað hefur verið nú. Ég vil bara benda á það, að ég held, að flestum, sem til þekkja, hafi verið það fyllilega ljóst, að Sjálfstfl. m.a. mundi hafa verið illa stætt á því, ef engu hefði verið lofað og engar framkvæmdir fyrirhugaðar í stærri stíl en áður við byggingu þessa vegar, svo að ekki sé meira sagt. Að öðrum kosti er það mitt álit og margra annarra, að Sjálfstfl. mundi ekki vinna neinn sérstakan kosningasigur í þeim kosningum, sem standa fyrir dyrum, ef ekkert hefði verið að gert í málinu. En hitt er svo bara annað mál, eins og oft áður, hvort það verður staðið við þessi kosningaloforð. Það er aðalatriðið.

Ég vil ekki draga það neitt í efa, að hæstv. ráðh. sé allur af vilja gerður að koma þessu máli í framkvæmd, dreg það ekki í efa. En margt getur komið þarna inn í, sem við vitum ekki um nú í dag. Ég vil líka taka það fram, að hv. 4. þm. Norðurl. v. er allur af vilja gerður til að koma málinu fram. Ég veit, að hann hefur lagt sig allan fram til þess að fá ákveðin loforð stjórnarflokkanna um auknar framkvæmdir í áðurnefndum vegi. Mér er persónulega kunnugt um það, vegna þess að hann hefur alltaf haft samband við mig fram að þessu þingi, og í þessu máli hefur yfirleitt ekkert verið gert án þess, að haft hafi verið samráð við bæði mig og þm. Framsfl. um málið. En svo skeður það merkilega, að þegar við flytjum frv. hér í vetur um það, að tekið sé stórlán til framkvæmdanna, þá vill þessi hv. þm. ekki vera meðflm. að þessu frv., þó að hann hafi verið það árið áður, ekki heldur hinn þm. Sjálfstfl., sem þá sat á þingi. Sú yfirlýsing, sem hv. þm. gaf þá, er alveg sérstaklega táknræn. Hann sagði: Ég ber það gott traust til hæstv. ríkisstj., að ég sé ekki ástæðu til þess að fara að flytja neitt sérstakt frv. — Ég óska þess eindregið og sérstaklega, að þessi ummæli um ríkisstj. fái nú staðizt í þessu tilfelli. En samt er það staðreynd, að það eru liðin 10 ár, frá því að þessi hv. þm. tók sæti á Alþingi, og eftir því sem ég man bezt, þá hefur hann verið í stjórnaraðstöðu í 7 ár. En það verður ekki annað sagt en málinu hefur sorglega lítið miðað áfram öll þessi ár. Hafa ráðamenn landsins ávallt svikizt um að leysa vegavandræði Siglfirðinga, þrátt fyrir það að gefin hafi verið glæsileg loforð fyrir allar kosningar um framgöngu málsins. Ég er ekki hér að drótta þessu neitt að neinum einstökum ráðherrum. Ég held, að ég verði að segja það hér alveg hiklaust, að flokkar þingsins hafi ekki skilið þá aðstöðu, sem Siglfirðingar hafa haft við að búa með því að vera einangraðir 7–8 mánuði á hverju ári. En það er gott, úr því að nú liggur það fyrir, að þetta á að drífa í gegn á 2–3 árum.

Hins vegar er það sannarlega ekki að ófyrirsynju, þó að fólk taki hinum nýju kosningaloforðum af fullri varasemi. Mín von er samt sú, að af fyrirhugaðri framkvæmd verði og hinn nýi vegur, sem við eru bundnar miklar vonir um bætt vegasamband við Siglufjörð og um leið er stórhagsmunamál fyrir sveitirnar, sem liggja næstar Siglufirði, verði byggður á tilteknum tíma. Þetta er ekki eingöngu hagsmunamál Siglfirðinga, heldur þjóðarinnar allrar.