12.03.1963
Neðri deild: 52. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 570 í B-deild Alþingistíðinda. (432)

108. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm, minni hl. (Gunnar Jóhannsson):

Herra forseti. Allshn. Nd. hefur haft ríkisborgararéttarmálið til umr. á nokkrum fundum. Meiri hl. n. leggur til, að það verði samþ. eins og það var áður afgreitt frá Ed., með þeirri breytingu þó, að bætt verði við 8 nýjum umsækjendum, sem fá skuli ríkisborgararétt til viðbótar þeim, sem Ed. hafði samþykkt. Alls eru það, eftir því sem mér telst til, 68 manns, sem meiri hl. mælir með að öðlast skuli ríkisborgararétt á þessu þingi. Á undanförnum þingum hafa allshn. beggja deilda unnið saman að rannsókn umsóknanna ásamt skrifstofustjóra Alþingis. Þá hafa og n. haft ákveðnar reglur til að fara eftir. Minnist ég þess ekki þau ár, sem ég hef átt sæti í allshn., að út frá þessum reglum hafi veríð brugðið nema í eitt skipti, en þá stóð þannig á, að nefndir beggja deilda töldu það rétt út frá hreinu mannúðarsjónarmiði að stytta tiltekinn dvalartíma hérlendis, svo að viðkomandi gæti þá öðlazt ríkisborgararétt. En nú bregður svo undarlega við, að eftir till, dómsmrn. er lagt til, að 18 ungverskum flóttamönnum skuli veittur ríkisborgararéttur, þó að vitað sé, að þetta fólk hefur ekki dvalizt hérlendis nema 6 ár. Samkv. þeim reglum, sem farið hefur verið eftir og allshn. Ed. hefur birt á sérstöku þskj., nr. 273, og eru mjög litið breyttar frá þeim reglum, sem samþykktar voru 17. maí 1955, segir svo í tölulið 2, með leyfi hæstv. forseta:

„Útlendingar, aðrir en Norðurlandabúar, skulu hafa átt hér lögheimili 10 ár, Norðurlandabúar 5 ár.“

Í síðustu mgr. í sama nál. segir: „Umsækjendur, sem greindir eru í tölul. 4–5, 8–9, 12 og 16 í brtt. n., eru ungverskir flóttamenn, sem leyfð var landvist hér í árslok 1956, og er það í samræmi við till. dómsmrn. að veita þeim ríkisborgararétt, er sýnt þykir, að þeir muni ílendast hér á landi.”

Hér er sem sagt lagt til, að þessir 18 ungversku flóttamenn skuli nú gerðir að íslenzkum ríkisborgurum, þó að fyrir liggi, að þetta ágæta fólk hefur ekki verið búsett hér á landi nema 6 s.l. ár. Meiri hl. allshn. er samþykkur þessari ákvörðun Ed. Ég aftur á móti er á annarri skoðun. Ég tel slíka afgreiðslu á jafnþýðingarmiklu máli og veiting ríkisborgararéttar er mjög hæpna ráðstöfun, svo að ekki sé meira sagt. Að veita erlendum manni ríkisborgararétt, er í raun og veru stórmál, sem verður að rannsaka ofan í kjölinn, eftir því sem hægt er, og afla allra þeirra upplýsinga um umsækjanda, sem hægt er. Þegar erlendum manni er veittur af Alþingi ríkisborgararéttur, öðlast viðkomandi aðili dýrmæt réttindi. Jafnframt tekur hann vitanlega á sig allar þær skyldur, sem þjóðfélag okkar leggur á herðar samborgurum sínum. Með því að veita erlendum manni ríkisborgararétt er verið að gera hann að íslenzkum þegn. Lágmarkskrafa til þess fólks, sem æskir þess að öðlast þennan rétt, ætti að vera sú, að það væri sæmilega talandi og lesandi á íslenzkt mál. A slíku er mikil vöntun, enda hefur slíkt ekki verið gert að skilyrði, þótt merkilegt megi teljast. Mér er ekki kunnugt um það, hvernig þessum málum er háttað hjá öðrum þjóðum. Þó er mér nær að halda, að víða erlendis muni vera strangari reglur um veitingu ríkisborgararéttar en hér. Íslenzka þjóðin er ein fámennasta þjóð í heimi. Í þúsund ár hefur þjóð vorri tekizt að varðveita mörg séreinkenni sín og hefur tekizt að varðveita dýrmætasta arf sinn, tungu sína, lítið breytta allan þennan tíma.

Af því, sem hér hefur verið sagt, verðum við að gæta fyllstu varasemi og glöggskyggni í hvert skipti, sem við veitum erlendum manni eða mönnum ríkisborgararétt. Um þetta hafa menn verið almennt alveg sammála, og einmitt þess vegna var 10 ára búseta gerð að skilyrði fyrir því, að erlendir menn, aðrir en Norðurlandabúar, gætu fengið ríkisborgararétt fyrr en eftir 10 ára dvalartíma hér. Ég fæ engan veginn séð, hvað það er, sem hinir ágætu ungversku umsækjendur kunna að hafa fram yfir aðra útlendinga, sem eins stendur á fyrir, vantar máske ekki nema 1–2 ár til þess að uppfylla skilyrðin. En við erum bara öll sammála um að veita ekki slíkum mönnum ríkisborgararétt, fyrr en þeir hafa dvalizt í landinu tiltekinn tíma. A nákvæmlega sama hátt vil ég láta fara að gagnvart hinum ungversku umsækjendum. Þau 4 ár, sem þá vantar upp á, til þess að þeir uppfylli 10 ára búsetuskilyrðið, er þeim að sjálfaögðu velkomið að dveljast áfram í okkar landi. Þeir hafa allir atvinnuleyfi hér, og því leyfi eiga þeir að fá að halda áfram. Þetta ungverska fólk er að sjálfsögðu hvorki betra né verra en gengur og gerist um fólk almennt. Af eðlilegum ástæðum liggja engar upplýsingar fyrir frá föðurlandi þess um hegðun þess og framkomu, áður en það kom hingað til lands sem flóttafólk. Hegningarvottorð þess eru vitanlega jafnt gefin út af íslenzkum yfirvöldum, eins og vera ber, flestra á árinu 1962. Við þessi vottorð er mjög lítið að athuga. Einn þeirra, Lajos Klimits bifreiðastjóri, hefur hlotið áminningu fyrir brot á umferðarreglum, síðan sektaður um 2000 kr., sviptur ökuréttindum í 6 mánuði og til vara dæmdur í 7 daga varðhald vegna brota á umferðar- og áfengislögum. Skrifstofustjóri Alþingis hefur tjáð mér, að slík brot hafi ekki að undanförnu verið látin hafa nein áhrif á það, hvort viðkomandi yrði veittur ríkisborgararéttur eða ekki.

Því verður ekki á móti mælt, að sumt af þessu ungverska fólki, sem hér var veitt landvistarleyfi árið 1956, virðist hafa átt allerfitt með að samlaga sig íslenzkum staðháttum. Slíkt er alls ekki að undra, þar sem það kemur frá landi með gerólíka staðhætti og hér eru, enda virðist margt benda til þess, að nokkuð stór hiuti af þeim, sem hér sóttu um búsetu sem pólitískir flóttamenn, sé þegar farinn burt héðan af landi. Ég mun ekki á neinn hátt kasta steini að því ungverska flóttafólki, sem hér dvelst og nú hefur sótt um íslenzkan ríkisborgararétt. Til þess hef ég enga ástæðu. Persónulega þekki ég ekkert af þessu fólki, veit þar af leiðandi lítið um störf þess og framkomu að undanförnu. Hinu held ég óhikað fram, að það sé engin frambærileg ástæða fyrir því að veita þessum umsækjendum fram yfir alla aðra, sem líkt stendur á um, sérstaka undanþágu frá þeim reglum, sem hafa gilt og gilda enn um rétt útlendra manna til þess að öðlast hér ríkisborgararétt.

Ég vil svo að lokum vegna sérstaks tilefnis taka það fram, að afstaða mín til þessa máls byggist á engan hátt á neinni sérstakri óvild í garð þessa fólks, síður en svo. Ég hef á vissan hátt samúð með því, m.a. af því, að það af ástæðum, sem flestum mun kunnugt, taldi sig ekki geta dvalizt áfram í sínu heimalandi. Slíkt hlýtur alltaf að valda margs konar erfiðleikum fyrir þá, sem slíkt skref telja sig þurfa að stíga. Hefði þetta ungverska fólk, sem nú sækir um íslenzkan ríkisborgararétt, verið búið að dveljast hér á landi í tiltekinn tíma, þ.e. 10 ár, hefði ég að sjálfsögðu verið því samþykkur, að það fengi þennan rétt. En þar sem svo er ekki, tel ég mér ekki fært að mæla með, að því verði veittur ríkisborgararéttur, eins og þessum málum enn er komið.

Hv. frsm. meiri hl. lét þess getið, að þegar þetta fólk hefði flutt hingað inn, hefði því verið gefið eitthvert fyrirheit um, að það skyldi fá ríkisborgararétt fyrr en ella. Mér er spurn: Hver hafði leyfi til þess að gefa slíkt loforð? Ég veit það ekki. Það væri mjög upplýsandi að fá að vita um slíkt, ef hv. frsm. veit um það, hver það hefur verið, sem hefur gefið slíkt loforð.

Þá gat hv. frsm. enn fremur um það, að framkoma og skilríki þessa fólks væru í lagi og það hefði komið sér mjög vel. Ég dreg það ekkert í efa, að þetta muni vera rétt, svo langt sem það nær. En þó er ég ekki alveg viss um það, að allir séu á sama máli um það, a.m.k. ekki um sumt af því fólki, sem þegar hefur yfirgefið okkar land.

Í sambandi við það, sem ég hef sagt hér að framan, hef ég lagt til í nál. á þskj. 359, að frv. um veitingu ríkisborgararéttar verði samþ. með þeirri breytingu, að hinir 1& Ungverjar, sem sótt hafa um ríkisborgararétt og upp eru taldir í nál., verði felldir úr frv., þar sem þeir uppfylla ekki 2. lið nál, um frv. til I. um veitingu ríkisborgararéttar á þskj. 273 frá allshn. Nd. Ég mun svo ekki, nema sérstakt tækifæri gefist til þess, hefja frekari umr. um þetta mál.