12.02.1963
Efri deild: 40. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 582 í B-deild Alþingistíðinda. (444)

141. mál, Iðnlánasjóður

Eggert G. Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég hygg, að það fari ekki milli mála, eins og komið hefur fram í ræðu hæstv. ráðh. og hæstv. síðasta ræðumanns hér um það mál, sem er á dagskrá, að hér er fjallað um mikið nauðsynjamál, mál, sem hefur sífellt þyngt á um úrlausn á undanfarin ár. Stofnlánaskortur í iðnaðinum hefur verið mjög tilfinnanlegur, þeim mun tilfinnanlegri sem aukin tækni hefur krafizt nýrra véla og aukins húsakosts til þessarar mjög svo þýðingarmiklu starfsgreinar.

Ég hygg enn fremur, að allir geti orðið sammála um að fagna framkomu þessa frv. og að menn greini ekki á um það út af fyrir sig, eins og kom fram í ræðu hv. 3. þm. Norðurl. e., þótt uppi séu nokkrar efasemdir um það, hvort hér sé fundin endanleg lausn þessa vandamáls í heild. Hún verður sjálfsagt seint fundin, svo sem um aðrar lánaþarfir í landinu. En engan vildi ég þó að greindi á um það, að með samþykkt þess frv., sem hér er á dagskrá, en lagt til um merkan áfanga til lausnar þessa vanda, og þó að það leysi hann ekki allan, ættu menn að geta orðið sammála um, að þessum áfanga yrði náð.

Það voru aðeins tvö atriði í ræðu hv. síðasta ræðumanns, sem ég vildi sérstaklega undirstrika og reyna að koma hér á framfæri nánari skýringum á, sem e.t.v. liggja ekki nægjanlega ljóst fyrir í þeirri grg., sem fylgir frv.

Það er í fyrsta lagi sú skattaálagning, sem hér er gert ráð fyrir, 0.4%. Um það varð samkomulag í þeirri mþn., sem undirbjó frv., að þýðingarlaust væri að setja þar aðra tölu en þá, sem aðilar samþ., þ.e.a.s. þeir aðilar, sem áttu að standa skil á þessum greiðslum til sjóðsins. Og svo er. Þessi tala er hér sett með fullu samþykki þeirra og að þeirra eigin sameiginlegu tillögu. Þetta vildi ég að kæmi skýrt fram, ef það er ekki nógu skýrt í grg.

Hv. 3. þm. Norðurl. e. lagði á það áherzlu með meginhluta síns ræðutíma. að efast um, að hér væri lagt inn á rétta braut, þ.e. sérstaka skattlagningu til aukningar lánsfjár í þessari starfsgrein, og efaðist þá jafnframt um, að það væri rétt, sem þegar hefði verið gert í þessum efnum, bæði í landbúnaði og sjávarútvegi. Hann benti jafnframt á eða lét að því liggja, — ég vona, að það sé ekki misskilningur, — að það væri jafnvel eðlilegra að hafa þessa skattheimtu í einu lagi, og benti í því sambandi á söluskattinn, en því fé yrði síðan deilt í sundur til þeirra aðila, sem helzt væru taldir þurfandi fyrir það. Ég verð nú að hafa þau sömu orð og hann hafði um þetta frv., að ekki mundi ég reiðubúinn til þess í dag að auka söluskattinn um það, sem þessum skattheimtum þegar nemur, og þá, ef þetta frv. nær fram að ganga, því, sem bættist inn í þann skatt einnig, því að mér hefur heyrzt það hér í umr. um þann skatt að undanförnu, að það væri ekki sérstök hrifning yfir því, að hann yrði hækkaður.

Það er sjálfsagt tími til þess á næstu árum að ræða þann vanáa út af fyrir sig, hvort rétt sé að afla tekna til lánastarfsemi í þýðingarmestu atvinnugreinum okkar, sjávarútvegi, iðnaði og landbúnaði. En mér virðist, að löggjafinn hafi þegar viðurkennt með tekjuöflun til landbúnaðar og sjávarútvegs, að þessi leið skuli a.m.k. fyrst um sinn reynd, og réttir aðilar hafa á það fallizt, að þetta yrði einnig gert í iðnaði. Annars hefði að sjálfsögðu þessi skattheimta ekki verið lögð til hér, a.m.k. var undirbúningsnefndin þannig sinnuð, að hún hefði ekki lagt inn á þær brautir, sem hér er um að ræða, nema það hefði verið gert í fullu samkomulagi við hlutaðeigandi aðila.

Stjórnarfyrirkomulagið var einnig mjög rætt í n., og nefndarmenn voru á einu máli um það, í fyrsta lagi, að um aðra skipan en hefði verið á stjórn iðnlánasjóðs væri vart að ræða, og þess vegna skyldi henni haldið áfram. Auk þess væri sjálf skattlagningin, sem þetta frv. gerir ráð fyrir að þessir aðilar eigi að standa skil á, þannig, að það væri óeðlilegt að breyta frá þeirri skipan, sem verið hefur um þessi mál, þegar féð hefur nær eingöngu komið annars staðar frá.

Þessi atriði vildi ég að kæmu fram sem mín skoðun þegar í upphafi þessa máls og eins það, að meðan nefndin sjálf yfirfer málið, sem fær það til umr., vissu hv. þdm. allir, að sú prósenttala, sem hér er lögð til til tekjuaukningar og tekjuöflunar fyrir sjóðinn, er gerð í fullu samráði og með fullu samkomulagi við hlutaðeigandi aðila og eftir þeirra eigin tillögum.