18.03.1963
Neðri deild: 55. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 598 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

141. mál, Iðnlánasjóður

Frsm. 2. minni hl. (Þórarinn Þórarinsson):

Herra forseti. Ég hef ekki að öllu leyti orðið sammála meðnm. mínum í iðnn, um afgreiðslu þessa frv. og legg til á þskj. 386, að á því séu gerðar þrjár efnisbreytingar.

Fyrsta breytingin snertir þá tekjuöflun eða það fjármagn, sem sjóðurinn á að hafa til ráðstöfunar. Samkv. frv. mundu árlegar tekjur sjóðsins verða um 9 millj. kr., og er sjálfsagt að viðurkenna, að það er veruleg aukning frá því, sem nú er. Ég tel hins vegar, að hér sé of skammt gengið, þegar litið er á þau mörgu og miklu verkefni, sem biða fram undan hjá iðnaðinum. Í fyrsta lagi er nauðsynlegt að koma upp ýmsum nýjum iðnaðarfyrirtækjum. Í öðru lagi er nauðsynlegt að stækka ýmis iðnaðarfyrirtæki. Og í þriðja lagi þarf að gera verulega breytingu á ýmsum iðnaðarfyrirtækjum til þess að koma á aukinni vinnuhagræðingu. Það er mál, sem mjög er um rætt hjá launastéttunum og þær hafa vaxandi áhuga fyrir, að komið sé á aukinni vinnuhagræðingu hjá iðnaðarfyrirtækjum. En í langflestum eða a.m.k. mjög mörgum tilfellum er því þannig háttað, að þetta verður ekki gert, vinnuhagræðingu verður ekki komið fram, nema með meiri eða minni breytingu á fyrirtækjunum sjálfum. Það þarf að auka húsnæði, það þarf að bæta vélakost og þar fram eftir götunum. Þess vegna er auðséð, að fram undan eru hjá iðnaðinum mjög fjárfrekar framkvæmdir, ef hann á að komast í það horf, sem vera skal. Þess vegna tel ég, að það sé of lítið að ætla iðnlánasjóði ekki nema 9 millj. kr. tekjur árlega, og legg því til, að þær tekjur; sem sjóðurinn fái árlega, verði tryggðar honum um 15 millj. kr. Þó að þar sé um nokkra hækkun að ræða, finnst mér rétt að láta það eigi að síður koma fram, að ég tel það hvergi nærri nógu langt gengið, þó að það sé að sjálfsögðu veruleg úrbót frá því, sem gert er ráð fyrir í frv.

Þá legg ég einnig til, að tekna til sjóðsins sé fyrst og fremst aflað með beinu framlagi úr ríkissjóði, en ekki sé lagður á nýr söluskattur til þess að afla sjóðnum tekna, eins og gert er ráð fyrir í frv. Ég álít, að það eigi að stefna að því, að það skattakerfi, sem við búum við, sé sem allra einfaldast eg það sé ekki verið að bæta við nýjum og nýjum sköttum til að gera þetta kerfi miklu flóknara og erfiðara í framkvæmd, eins og stefnt er að með þessu ákvæði í frv., þar sem raunverulega er gert ráð fyrir að bæta við nýjum söluskatti, því að eins og hv. síðasti ræðumaður benti á, ef greinin verður látin standa eins og nú er, þar sem gert er ráð fyrir þessum nýja skatti, þá verður hér ekki um annað en nýjan söluskatt að ræða. Við búum nú þegar orðið við fleiri söluskatta en þörf er á, bæði söluskatt á innflutningi og söluskatt á smásölu, og ég sé enga þörf á því, að það sé verið að bæta hér við einum söluskattinum enn. Við eigum að stefna að því að hafa skattakerfið sem einfaldast og auðveldast í framkvæmd, og þess vegna er það röng stefna að fjölga sköttum, eins og stefnt er að með þessu frv.

Þriðja breytingin, sem ég legg til að gerð verði á frv., snertir stjórn sjóðsins. Í frv. er gert ráð fyrir, að hún verði eingöngu í höndum iðnaðarmanna eða samtaka iðnaðarmanna, en ég legg til, að hún verði blönduð, þannig að Alþingi kjósi 3 stjórnarmenn, en samtök iðnaðarmanna leggi til 2. Þetta er millíleið á milli þess, sem gildir um sambærilega sjóði sjávarútvegs og landbúnaðar, og þess, sem gert er ráð fyrir í þessu frv., og ég hygg, að það ætti að geta orðið samkomulag um þá leið. — Þar sem jafnmikið af tekjum sjóðsins kemur raunverulega annaðhvort beint frá ríkinu eða almenningi gegnum þann söluskatt, sem verður á lagður, þá er eðlilegt, að það séu opinberir aðilar, sem skipi meiri hl. sjóðsstjórnar eða m.ö.o. Alþingi.

Þetta eru þær brtt., sem ég legg til að gerðar séu á frv. En ég vil láta það koma fram jafnframt, að ég tel, að þó að hér sé stefnt í rétta átt að því leyti að styrkja iðnaðinn, þá sé það hvergi nærri fullnægjandi, jafnvel þó að þær brtt. yrðu samþ., sem ég flyt. Ég álit, að það sé margt fleira, sem þurfi að gera iðnaðinum til styrktar, heldur en tryggja honum aukið stofnfé, þó að það sé sjálfsagt og nauðsynlegt. Það er ekki síður t.d. mikilvægt að bæta þau vaxtakjör, sem iðnaðurinn hefur við að búa, því að ég held, að íslenzkur iðnaður hafi nú við lakari og verri vaxtakjör að búa en iðnaður nokkurs annars lands, og það gefur auga leið, hvað það þýðir í samkeppni fyrir íslenzkan iðnað við erlenda keppinauta. Þess vegna er það tvímælalaust eitt af allra mestu hagsmunamálum iðnaðarins, að vextir séu verulega lækkaðir frá því, sem nú er. Og það er ekki heldur einhlítt að auka stofnlán og lækka vexti, ef ekki er séð fyrir því, að iðnaðurinn hafi nægileg rekstrarlán, því að fyrirtækin geta að sjálfsögðu ekki starfað, nema þau fái meiri og minni rekstrarlán. Fyrir þessu máli hefur enn hvergi nærri verið séð svo sem skyldi.

Fyrir 5 árum var afgreidd hér á Alþingi till., sem einn af þáv, þm. Sjálfstfl. flutti um það að tryggja iðnaðinum sambærileg rekstrarlánakjör og t.d. sjávarútvegurinn hefur og landbúnaðurinn í sambandi við lán út á afurðir. Þessi till. var samþ. þá, í tíð vinstri stjórnarinnar, og var að sjálfsögðu ætlun hennar að vinna að framkvæmd þessa máls. En síðan þeir flokkar komu til valda, sem nú fara með þau, fyrir 5 árum, hefur ekkert verið gert í þessu máli til þess að tryggja iðnaðinum að þessu leyti sambærilega aðstöðu við aðra atvinnuvegi, og þetta veldur að sjálfsögðu stórkostlegum þrengingum hjá honum og erfiðleikum og gerir honum erfiða samkeppnina við erlenda keppinauta. Má t.d. minna á það í þessu sambandi, að íslenzkar skipasmiðastöðvar hafa misst af mörgum verkefnum vegna þess, að þær hafa ekki getað boðið kaupendunum sambærileg lánskjör við það, sem erlendar skipasmíðar hafa boðið, og þar af leiðandi hafa allmörg slík verkefni, sem hefði verið hægt að leysa hér í landinu, verið leyst af hendi í öðrum löndum. Slíkt er að sjálfsögðu öfugþróun. Gegn þessu verður að sporna, og það verður ekki gert, nema iðnaðinum verði tryggð stórbætt rekstrarkjör frá því, sem nú á sér stað.