26.03.1963
Efri deild: 62. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 669 í B-deild Alþingistíðinda. (510)

60. mál, hámarksþóknun fyrir verkfræðistörf

Jón Þorsteinsson:

Herra forseti. Ég get vel tekið undir það með hv. síðasta ræðumanni, að það væri vissulega full ástæða til þess af hálfu þeirrar n., sem hefur fjallað um þetta mál, að fram komi glögg yfirlýsing um það, á hvern hátt þetta ákvæði, sem hér hefur borið á góma, beri að skilja. En ég vil aðeins árétta það, sem ég sagði áðan, ef það hefur á einhvern hátt valdið misskilningi, að ég tel, að ef kjaradómur kemur til með að úrskurða það, að um kjör verkfræðinga skuli samið í þeim heildarkjarasamningi, sem verið er að gera við Bandalag starfsmanna ríkis og bæja, en í kröfum ríkisstj. eru flokkaðir verkfræðingar og gerðar till. um þeirra laun, þá skilst mér, að hinn 1. júlí verði kominn á samningur um kaup og kjör verkfræðinga hjá ríkisstofnunum, ef kjaradómur fellst á það, að verkfræðingar skuli vera undir þessum heildarsamningi. Ef aftur á móti kjaradómur hafnar því, þá skilst mér, að málið sé opið áfram, og það verður þá ekki fyrr en samið verður við Stéttarfélag verkfræðinga einhvern tíma eftir 1. júlí, sem þessi lög falla úr gildi.