22.11.1962
Neðri deild: 19. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 55 í B-deild Alþingistíðinda. (52)

99. mál, framkvæmdalán

Frsm. minni hl. (Skúli Guðmundsson):

Út af þessari aths. hæstv. fjmrh. vil ég benda á, að það, sem ég sagði hér um greiðslubyrðina 1962, tók ég úr ræðu, sem formaður og frsm. fjhn. í Ed., hv. 11. þm. Reykv., Ólafur Björnsson, hélt um þetta mál, sem hér liggur fyrir, þegar það var til umr. í Ed. í fyrradag. Ég hlýddi á þessa ræðu, og þetta, sem ég vitna hér í, er einnig birt í Morgunblaðinu í gær í frásögn af ræðu hv. 11. þm. Reykv. Það er þannig orðrétt samkv. frásögn Morgunblaðsins, og ég tel, að hún muni vera rétt. Ég hlustaði, eins og áður sagði, á þessa ræðu í Ed. Hv. þm. sagði: „1962 er greiðslubyrðin 553 millj. kr. eða milli 15 og 20% af heildargjaldeyristekjum, svo að um allháar tölur er að ræða á næstu árum.“ Það var þessi heimild, sem ég hafði, þegar ég ræddi um greiðslubyrðina í ár.