07.03.1963
Neðri deild: 50. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 693 í B-deild Alþingistíðinda. (569)

102. mál, stofnlánadeild landbúnaðarins

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. kvartar undan því, að ég skyldi hafa tekið hérna til máls áðan, af því að eitthvað af því, sem ég þá sagði, hafi verið sagt áður. Það er nú kannske ekkert óeðlilegt, þegar rætt er um landbúnaðarmál, að það hafi eitthvað af því verið sagt áður. Skyldi ekki hv. 2. þm. Sunnl. hafa talað eitthvað svipað áður og hann gerði hér í dag? En ég skil eitt, og það er það, að þessi hv. þm. vill ekki láta minna á fortíðina, en það var það, sem ég leyfði mér að gera áðan, því að það er dálítið óþægilegt, þegar fortíðin stangast alveg á við það, sem menn vilja í dag lifa eftir og kenna. Og það er þetta, sem hv. þm. verður að sætta sig við, að þegar hann kemur eins og riddari með útrétta hönd og segir: Hér eru peningarnir, bara ef þið viljið standa með mér, — þá er eðlilegt að fólk spyrji: Hvernig var þetta, meðan þú og þínir flokksbræður höfðu lyklana að ríkissjóði?

Hv. þm. sagði, að lán úr stofnlánadeildinni hefðu verið til 15 ára á s.l. hausti. Það var í októbermánuði á s.l. hausti, sem bankaráð Búnaðarbankans samþykkti, að lánin skyldu verða til 20 ára, þ.e.a.s. út á vel gerðar framkvæmdir. Það má vel vera, að eitthvað af lánum hafi verið til 15 ára, en þá hefur það ekkí fengið það vottorð frá byggingarfulltrúanum, sem þurfti til þess að fá 20 ára lán, og það er þess vegna, sem er óeðlilegt, að hv. þm. segir hér í nál: „Enn fremur að lengja aftur lánstímann“ — þann lánstíma, sem hefur verið lengdur. Það er afsakanlegt, þótt hv. þm. hafi kannske ekki verið búinn að kynna sér þetta 13. des., þegar nál. er skrifað. Það mætti kannske afsaka það — og er þó tæplega, því að eðlilegt hefði verið að hringja í Búnaðarbankann og spyrja um það, hvernig þessu væri varið, áður en þessi staðhæfing var fest á blað. En það er ekki afsakanlegt, að hv. þm. veit ekki betur núna og fullyrðir enn, að þessu hafi ekki verið breytt.

Það má segja, að það sé kannske ekki ástæða til að vera að rifja allt of mikið upp af liðnum tíma. En þó er það nú svo, að þegar hv. þm. gefur það í skyn hér áðan, segir það beinlínis, að gengislækkunin mikla hafi grafið undan búnaðarsjóðunum, segir það í þeim tón og með þeim skilningi, að það séu núv. stjórnarflokkar, sem hafi raunverulega valdið þessum skemmdum, þá náttúrlega væri eðlilegt að eyða nokkrum orðum til þess að minna hv. þm. á það, hvers vegna nauðsyn bar til að breyta skráningu íslenzku krónunnar. Og þá rifjast upp ýmislegt af því, sem sagt var og gert ekki aðeins vorið 1958, þegar yfirfærslugjaldið var sett, 55%, heldur einnig það, sem gerðist allt til 4. des. það ár, og ég hygg nú, að hv. þm. sé svo minnisgóður, að það sé nú nægjanlegt aðeins að drepa á þessi atriði, til þess að hann geri sér ljóst, hvað það var, sem olli gengisskráningunni 1960.

Hv. þm. talar um, að stofnanir bændanna mótmæli 1% gjaldinu á búvörurnar, mótmæli því að byggja þannig upp varanlegan lánasjóð fyrir landbúnaðinn. Búnaðarþing hefur nú ekki gert þetta einráma.

Hv. þm. segir, að hv. flokksmaður minn hafi mælt gegn þessu í gær á búnaðarþingi. Ég veit það ekki. Ég gizka á, hvaða mann hann talar um, en það mætti nú svo vera, að hann væri hvorki flokksmaður minn né ílokksmaður hv. þm., sem v ar að tala, því að mér er ekki kunnugt um það, í hvaða flokki þessi hv. búnaðarþingsmaður er. Hitt veit ég, að hann hefur skrifað í Frjálsa þjáð og hann hefur lagt aðgerðir Framsfl. í innheimtu af búvörum bænda að líku. Hann kennir Búnaðarfélaginu og framsóknarmönnum um búvörugjaldið í bændahöllina, hann kennir mér og Sjálfstfl. um búvörugjaldið vegna stofnlánadeildarinnar, og satt að segja get ég og við sjálfstæðismenn unað vel við okkar hlut, þegar sá samanburður er gerður, að ég held. En jafnvel þó að það komi fyrir, að Stéttarsamband bænda að meiri hl. til og búnaðarþing að meiri hl. til vaði vill vegar, þá er það náttúrlega ekki til þess að fagna yfir. Það er eitt, sem er alveg víst, og það er það, að reynslan og framtíðin mun sanna það, að hér var rétt að farið, og það er þess vegna, sem gerir ekkert til, þótt hnútum sé kastað út af þessu í bili. Þessi stofnun mun byggjast upp, hún mun verða landbúnaðinum til mikils gagns bæði í nútíð og framtíð.