22.03.1963
Efri deild: 60. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 837 í B-deild Alþingistíðinda. (800)

139. mál, ríkisábyrgðasjóður

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Með lögum frá síðasta Alþ. var ákveðið að stofna ríkisábyrgðasjóð. Skyldi hann taka við öllum kröfum, sem ríkissjóður hafði eignazt vegna vanskila á ríkisábyrgðalánum, og hafa framvegis með höndum umsjón með ríkísábyrgðalánum. Það var ætlunin, að með þessu kæmist betri skipan og meiri regla á þessi mál heldur en verið hefur áður, og jafnframt, að banka yrði falin umsjón sjóðsins. Sá banki skyldi sumpart vera fjmrn. til aðstoðar og ráðuneytis varðandi umsóknir um nýjar ríkisábyrgðir, hvort þær skyldu veittar og hverra trygginga skyldi krafizt, í öðru lagi hafa eftirlít með því, að staðið væri í skilum, og ganga eftir því, að skuldunautar greiddu tilskilda vexti og afborganir á réttum tímum.

Eftir að 1. höfðu verið samþ., hófust viðræður við Seðlabanka Íslands um það, að hann tæki að sér ríkisábyrgðasjóðinn, vörzlu hans og umsjón, og á s.l. hausti var svo gerður samningur milli ríkissjóðs og Seðlabankans um þetta efni. Síðan hefur verið unnið að því, sumpart að afhenda ríkisábyrgðasjóði í vörzlu Seðlabankans umræddar kröfur, og jafnframt hefur Seðlabankinn lagt í það mjög mikla vinnu að athuga hverja einstaka vanskilaskuld og kröfu, kanna það, hvort skuldunautar gætu gert skil og með hverjum hætti, og vinna að samningum við þá um skil. Þetta hefur að sjálfsögðu verið og er gífurlega mikið starf og er ekki lokið enn.

Hv. 1. þm. Norðurl. e. spyr, hvers vegna reikningur ríkisábyrgðasjóðs fylgi ekki þessu frv. Því er til að svara, að slíkur reikningur er að sjálfsögðu ekki til, þar sem ekki er enn búið að fara yfir allar þessar kröfur og ganga frá samningum við nærri alla aðila. Strax þegar búið er að ganga frá samningum, verður auðvitað saminn reikningur sjóðsins og birtur. Hins vegar er það hér eins og oftar, að þegar núv. ríkisstj. er að vinna að því að hreinsa til og reyna að lagfæra eitthvað af þeirri óreiðu, sem myndazt hefur og skapazt á undanförnum árum og áratugum, ekki sízt af völdum Framsfl., þá eru málsvarar þess flokks mjög undrandi yfir því, að stjórnin skuli ekki þegar búin að kippa í lag allri óreiðunni, sem Framsfl. hefur borið mesta ábyrgð á. En ég vil fullvissa þennan hv. þm. um það annars vegar, að óreiðan og vanskilin voru það mikil, að það tekur töluverðan tíma að kippa því i lag, en jafnframt, að það verður unnið að því með þeim hraða og atorku, sem unnt er. Hins vegar þarf hv. þm. ekki að kvarta yfir því, að hann hafi ekki þær upplýsingar, sem á þarf að halda. M.a. má benda á það, að í ríkisreikningi fyrir 1961, sem samþ. hefur verið og lögfestur hér á Alþ., er skýrsla um allar ábyrgðir ríkissjóðs í árslok 1961, sem telur hvorki meira né minna en um 40 blaðsíður, frá bls. 180-219, og er það sundurliðun á hverri einustu ábyrgð. Auk þess var að sjálfsögðu orðið við beiðni hv. þm. um það að láta fjhn. í té skýrslu yfir allar áfallnar ábyrgðir á árinu 1962. En þessu til viðbótar óskar svo hv. þm. eftir — og virðist fremur undrandi á því, að ekki skuli lögð fram áætlun, töluleg áætlun um afkomu ríkisábyrgðasjóðs þetta ár og hin næstu ár.

Afkoma ríkisábyrgðasjóðs er auðvitað ákaflega óviss samkv. eðli málsins, og það gegnir nokkurri furðu, að hv. þm. skuli ætlast til þess, að gerð sé áætlun mörg ár fram í tímann, hver kunni að verða vanskil á næstu árum á lánum þeim, sem ríkið er í ábyrgð fyrir. Vitanlega veltur þetta á afkomu atvinnulífsins í heild, það veltur á aflabrögðum, það veltur á markaðsverði, markaðsástandi o.s.frv.

Við skulum taka dæmi um togaraútgerðina, sem mjög hefur barizt í bökkum nú um nokkurra ára skeið. Töluvert af þeim ríkisábyrgðum, sem á hafa fallið hin síðustu ár, stafar af erfiðleikum togaraútgerðarinnar. Mér er spurn: Hvernig á að fara að spá því nú og setja upp tölulega áætlun, sem lögð yrði fyrir Alþ., um það, hver verði afkoma togaranna á næstu árum og hvort þeir muni geta staðið að fullu í skilum með lán sín eða ekki? Það veltur auðvitað að verulegu leyti á atvikum, sem við ráðum ekki yfir og getum ekki séð fyrir, svo sem aflabrögðum. Auðvitað er hægt að setja upp einhverja ágizkunaráætlun, en hún hlyti að sjálfsögðu af þeim ástæðum, sem ég hef getið, að vera svo ónákvæm og í rauninni út í loftið, að á henni yrði ákaflega lítið byggjandi.

Það er auðvitað sjálfsagt og gott og gagnlegt að gera áætlanir fram í tímann, eftir því sem föng eru á, og ætla ég, að núv. ríkisstj. hafi lagt og látið leggja í það meiri vinnu en aðrar ríkisstj. að gera slíkar áætlanir um framkvæmdir og afkomu þjóðarbúsins. En það sér hver maður, sem vill athuga það með nokkurri gaumgæfni, að ríkisábyrgðir eru með þeim hætti og hugsanleg eða væntanleg vanskil, að það er næsta ógerlegt að gera áætlanir um það mörg ár fram í tímann, hvort þessi og þessi aðilinn muni standa í skilum eða ekki.

Hv. þm. bar fram tvær fsp. um það, hvaða tiltekin lán það væru, annars vegar Marshalllán, hins vegar úr raforkusjóði, sem fallið hefðu á ríkissjóð eða ríkisábyrgðasjóð á s.1. ári. Mér þykir leitt, að hv. þm. skyldi ekki láta mig vita af þessari fsp. áður, þannig að ég gæti haft þau gögn við höndina, hvaða tilteknu lán þetta væru. En að sjálfsögðu er það skylt, ef hann óskar þess, að gefa þær upplýsingar þá við 3. umr. En sem sagt, þau gögn hef ég ekki við höndina hér.

Hv. þm. segir, að fjárveiting, 38 millj. í fjárl. fyrir 1961 til ríkisábyrgðasjóðs eða vegna áfallinna ríkisábyrgða, hafi ekki verið notuð, það sé vangoldið, og þessar 38 millj. standi því inni í ríkissjóði og að greiðsluafgangur sé því þessum 38 millj. minni árið 1961. Þetta er að sjálfsögðu alger misskilningur, og hv. þm. ætti að vita það sjálfur. Arið 1961 þurfti ríkisábyrgðasjóður ekki á þessari fjárveitingu að halda. Eins og kunnugt er, var það ákveðið með 1., að hluti af gengishagnaði við gengisbreyt. í ágúst 1961 skyldi renna til ríkisábyrgðasjóðs til þess að standa að nokkru undir áföllnum ríkisábyrgðum, sem eru yfirleitt vegna atvinnuveganna. Og við uppgjör fyrir árið 1961 kom í ljós, að tekjur ríkisábyrgðasjóðs nægðu til þess að standa undir áföllnum ábyrgðum, án þess að 38 millj., sem ætlaðar voru samkv. fjári., yrðu notaðar. Þess vegna voru þær ekki greiddar og verða að sjálfsögðu ekki greiddar. Og það er alger misskilningur, að hér sé um eitthvert vangoldið fé að ræða eða það standi í ríkissjóði. Auk þess er búið að leggja fyrir Alþ. og afgreiða sem lög ríkisreikninginn fyrir árið 1961, þar sem þetta er staðfest, að þessar 38 millj. skyldu ekki greiddar af hendi, vegna þess að þess var ekki þörf. Þessi hv. þm., 1. þm. Norðurl. e., fjallaði sjálfur í hv. fjhn. um ríkisreikninginn og hafði enga aths. við þetta að gera, og er því næsta furðulegt, að hann skuli nú koma, eftir að hann hefur sjálfur staðið að þessari afgreiðslu, og telja, að ríkisreikningurinn 1961 sé rangur að þessu leyti. Það er auðvitað fjarstæða ein.

Þá spyr hv. þm., hver sé þörf á því að fá þessa 50 millj. kr. lántökuheimild fyrir ríkisábyrgðasjóð. Í rauninni svaraði hann sér sjálfur. Hann skýrði frá því, að i upplýsingum frá ríkisbókhaldinu hefði það komið fram, að á árinu 1962 vantaði rúmar 40 millj. á það, að ríkisábyrgðasjóður hefði nægilegt fé til þess að standa undir ríkisábyrgðum áföllnum það ár, þrátt fyrir það að fjárlagaupphæðin, 38 millj., fyrir 1962 væri innt af höndum og hlutinn af gengishagnaði notaður að fullu. Og vitanlega er þessi lántökuheimild m.a. miðuð við það, að tekið verði lán til nokkurra ára, ekki langs tíma, til þess að jafna þennan halla á sjóðnum á s.l. ári. Hér er um að ræða bráðabirgðaskuld sjóðsins, og ætti hann að fá með þessu frv. formlega heimild til þess að fá lán til nokkurra ára til að jafna þennan mismun.

Hv. þm. segir, að ríkisstj. sé með þessu að skjóta á frest skilum hjá ríkissjóði. Ég skil nú satt að segja ekki þessi ummæli, því að öll miðar þessi starfsemi og hin nýja löggjöf um ríkisábyrgðir og um ríkisábyrgðasjóð einmitt að því að reyna að koma á skilum eða koma þessum málum í full skil og hverfa sem mest frá vanskilastefnunni, sem verið hefur leynt og ljóst stefna Framsfl. í þessum málum.

Og þetta er ákaflega auðvelt að rökstyðja, því að sumir málsvarar Framsfl., m.a. núv. formaður hans, hafa lýst því yfir beinlínis á Alþ., að oft og tíðum hafi verið veittar ríkisábyrgðir vegna lána vitandi vits um það, að ekki mundi verða staðið í skilum, þetta væri form, sem Framsfl. hefði viljað nota til þess að styðja eða koma á fót ýmsum nauðsynlegum fyrirtækjum og framkvæmdum.

Við höfum oft lýst því yfir af hendi núv. ríkisstj. og stjórnarflokka, að frá þessari stefnu viljum við hverfa. Ríkisábyrgðir er sjálfsagt og nauðsynlegt að veita í mörgum greinum til þess að koma á fót og aðstoða þjóðnytjafyrirtæki, og ekki sízt ýmislegt, sem gera þarf fyrir hinar strjálu byggðir landsins. En stuðningur við slík nauðsynleg mannvirki eða fyrirtæki á auðvitað að vera byggðar á traustum grundvelli, sumpart á beinum styrkjum, ef til þess þarf, og sumpart á ríkisábyrgðum á lánum, sem líkur eru til að viðkomandi aðili geti staðið undir. Hitt er auðvitað vansæmandi og í rauninni siðspillandi í fjármála- og efnahagslífi þjóðar, að veita ríkisábyrgðir á lánum, þar sem bæði skuldari og ábyrgðaraðili vita það eða gera ráð fyrir því, að allt lendi í bullandi vanskilum. Löggjöfin um ríkisábyrgðir og ríkisábyrgðasjóð og allt það mikla starf, sem lagt hefur verið fram varðandi þetta mál, miðar að því að hverfa frá vanskilastefnu Framsfl. og inn á heilbrigðar brautir í fjárhags- og efnahagsmálum.