02.04.1963
Neðri deild: 64. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 858 í B-deild Alþingistíðinda. (814)

139. mál, ríkisábyrgðasjóður

Halldór E. Sigurðsson:

Herra forseti. Í sambandi við ræðu þá, sem ég flutti hér við þessa umr., þegar hún fór fram hér fyrir nokkrum dögum, gerði hæstv. fjmrh. nokkrar aths. við mál mitt. Ég benti á það, að á fjárl. fyrir árið 1961 hefðu verið veittar 38 millj, kr. til þess að greiða ríkisábyrgðir. Þessar 38 millj. kr. hefðu ekki verið notaðar, en ef þær hefðu verið notaðar, mundi sjóðurinn ekki hafa þurft þessa lánsheimild, sem hér er nú beðið um. Í því sambandi vitnaði hæstv. ráðh. í ríkisábyrgðalögin um það, að ekki hefði borið nauðsyn til að greiða þessa fjárhæð, þar sem sjóðinn hefði ekki skort fé þá. Í því sambandi vil ég benda á það, að fjárveiting þessi var ákveðin, þegar fjárlög 1961 voru afgr. hér í des. 1960. Ég vil í öðru lagi benda á það, að l. um ríkisábyrgðasjóð voru ekki afgr. fyrr en 16. apríl 1962, eða nærri fjórum mánuðum eftir að þessi greiðsla hefði átt að fara fram. Ég vil einnig benda á það, að ef sá skilningur ráðh. er réttur, sem ég tel að sé samkv. ríkisábyrgðarlögunum, að ekki eigi að greiða nema það, sem þörf er á, þá beri ríkissjóði einnig að greiða það, sem á vantar, þegar halli er á sjóðnum. Á annan hátt er ekki hægt að framkvæma þessi lög, eins og þau liggja fyrir. Ég vil einnig benda á það, að ríkisgreiðslurnar á ríkisábyrgðalánunum 1961 voru 72 millj. kr., og það var því óvarlegt að ætla, að 38 millj. kr. mundu nægja til þess að greiða þær 1962. Það er því óvéfengjanlegt, að með öllu hefði verið eðlilegt að láta þessa 38 millj. kr. fjárveitingu, sem veitt var til greiðslu á ríkisábyrgðum 1961, ganga til ríkisábyrgðasjóðsins, enda þótt þær óvæntu tekjur, sem honum áskotnuðust með gengisbreytingunni 1961, yrðu svo miklar það ár, að þær gerðu betur en hrökkva fyrir greiðslunum.

Það stendur því óhaggað, sem ég hélt hér fram fyrr við þessa umr., að ástæðan fyrir því, að þessar greiðslur voru látnar niður falla, var sú, að hæstv. ráðh. þurfti að auglýsa, að greiðsluafgangur hefði orðið hjá ríkissjóði, en það hefði ekki orðið, ef ríkisábyrgðagreiðslurnar hefðu að öllu leyti farið fram úr ríkissjóði það ár.

Þess vegna er það óeðlilegt og hefði átt á árinu 1962 að greiða ríkisábyrgðasjóði það, sem á vantaði af greiðslum hans 1962, fyrst þetta var sett niður 1961, því að ef ríkissjóður á að hafa hag af því, að veitt sé fjárhæð til ríkisábyrgðasjóðs, sem ekki þarf að greiða á sama ári, ber honum einnig skylda til að greiða þann halla, sem er á sjóðnum, eins og var 1962. Hér er þess vegna ekki um annað að ræða en það eitt að láta útibúið taka lánið, en ríkissjóðinn standa betur.