02.04.1963
Neðri deild: 64. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 859 í B-deild Alþingistíðinda. (815)

139. mál, ríkisábyrgðasjóður

Fjmrh. (Gunnar Thoroddsen):

Herra forseti. Það er í rauninni næsta furðulegt að þurfa að standa í deilum hér á Alþ. um jafneinfaldan hlut eins og þann, sem hér liggur fyrir, hvort þessar 38 millj., sem veittar voru í fjárl. eða áætlaðar í fjárlögum 1961 til ríkisábyrgða, hafi átt að greiðast af hendi eða ekki. Ég benti á það fyrr við þessa umr., að þessi liður er einn af fjölmörgum liðum í fjárl., sem eru áætlunarliðir, og um þessa áætlunarliði er það þannig, að vitanlega eru þeir greiddir af hendi, ef á þeim þarf að halda. Það þarf stundum að greiða heldur meira en áætlað er í fjárl., ef það reynist nauðsynlegt. Stundum er ekki nauðsynlegt að greiða það að fullu, og er þá greitt minna eða ekkert. Þetta er svo algild regla, að ég hélt, að það væri ekki ástæða til þess að hefja umr. um það við hv. síðasta ræðumann og þó allra sízt við hv. 1. þm. Austf., sem verið hefur fjmrh. jafnlengi og hann hefur verið.

Hv. 1. þm. Austf. viðhafði nú það orðbragð hér og lætur málgagn sitt endurtaka það, að ég hafi svikizt um að greiða þessar 38 millj. 1961 til ríkisábyrgðasjóðs, sem að vísu, eins og hv. síðasti ræðumaður gat um, var þá ekki til, en hefði átt að greiða það til ríkisábyrgða. Ég vil endurtaka það hér, að á árinu 1961 þurfti ekki á þessum 38 millj. að halda, vegna þess að sá tekjustofn, sem með lögum var ætlaður á árinu 1961 til þess að standa undir ríkisábyrgðum, nægði, en það var hluti af gengishagnaðinum. Hann nægði — það sem til féll á árinu 1961 — til að standa undir ríkisábyrgðum áföllnum á því ári. Þess vegna þurfti ekki og átti ekki að greiða þessar 38 milljónir af hendi. Þetta hefur ekki heldur verið vefengt, þegar ríkisreikningurinn var saminn og var til meðferðar hér á Alþ. og lögfestur og kom ekki ein einasta aths. fram frá þessum hv. þm. þá.

Þetta vita auðvitað báðir þessir hv. þm. En ef þá vantar eitthvert fordæmi, sem þeir geta kannske eitthvað lært af, þá skal ég nefna það, að í fjárl, fyrir 1958 eru áætlaðar 40 millj. til dýrtíðarráðstafana á 19. gr. fjárl., í 1. tölulið. Fjárl. eru afgr. rétt fyrir ársbyrjun 1958. Fjmrh, var þá hv. 1. þm. Austf., Eysteinn Jónsson. Hvað skeður? Á árinu 1958 eru sett lög, svokölluð bjargráðalög, þar sem m.a. er aflað tekna til þess að standa undir dýrtíðarráðstöfunum. Niðurstaðan verður sú, að þessar 40 millj. á fjárl. eru ekki greiddar af hendi, þær eru alls ekki greiddar af hendi. Vegna hvers? Vegna þess að þetta var áætlunarupphæð, sem síðar þurfti ekki á að halda, vegna þess að aðrir tekjustofnar, þ.e.a.s. útflutningssjóðs, stóðu undir dýrtíðarráðstöfunum að fullu. Þegar Eysteinn Jónsson greiðir nú ekki þessar 40 millj., sem ætlaðar voru i fjárlögum 1958, var hann þá að svíkjast um að greiða þetta af hendi? Var hann að punta upp á afkomu ríkisins á pappírnum, eins og þessi hv. þm. orðar það? Svo var alls ekki. Ég álít, að hér hafi verið rétt að farið. Á þessum 40 millj. til dýrtíðarráðstafana þurfti ekki að halda, vegna þess að ákveðið var síðar með l. að afla sérstakra tekjustofna til þess að standa undir þessu. En það er furðulegt, að sá sami hv. þm., sem í ráðherrastól hefur gert þetta, skuli leyfa sér að rísa hér upp og gagnrýna með sterkum orðum og svigurmælum, að í rauninni er hið nákvæmlega sama gert árið 1961. Það er ekki notuð áætlunarupphæð í fjárl., vegna þess að ekki þarf á henni að halda. Í rauninni er öllum ljóst, að þetta skot hv. 1. þm. Austf. hittir engan fyrir nema sjálfan hann.

Varðandi greiðslur ríkissjóðs vegna ríkisábyrgðalána í vanskilum hefur það verið þannig um allmörg undanfarin ár, — fram til 1961, þegar sérstakur tekjustofn var til þess ætlaður, — að greiðslurnar hafa farið fram úr áætlun fjárl. Á næstu 5 árum á undan því ári, þ.e.a.s. 1956—1960, voru ætlaðar í fjárl. samtals 105 millj. til að standa undir áföllnum ríkisábyrgðum, en greiðslurnar urðu 142,2 millj., fóru m.ö.o. á þessum árum milli 37 og 38 millj. fram úr áætlun. Þannig er það um þá áætlunarupphæð, sem fjárlög ákveða í þessu skyni, að ýmist þarf að borga meira en áætlunin segir til um eða eins og 1961 þarf ekki á henni að halda. Hv. þm. með sína reynslu í fjármálum ríkisins, hv. 1. þm. Austf. með sína reynslu sem fjmrh. og hv. 3. þm. Vesturl. með langa setu í fjvn., vita þetta allt saman ósköp vel. Það er auðvitað augljóst mál, að það var ekki rétt að greiða þessar 38 millj, af höndum út úr ríkissjóði árið 1956. Þvert á móti hefði verið rangt að greiða þær af hendi, þar sem engin þörf var fyrir þær.

Hv. 3. þm. Vesturl. segir svo hér áðan, að það hefði verið óvarlegt fyrir árið 1962 að reikna aðeins með 38 millj., sem eru áætlaðar í fjárl. fyrir það ár vegna áfallinna ríkisábyrgða. Þetta er ekki heldur rétt, því að auk þessara 38 millj., sem ætlaðar eru í fjárl. 1962, voru tekjur vegna gengishagnaðarins milli 23 og 24 millj., sem komu hér til viðbótar.

Það voru höfð þau orð hér af hv. 1. þm. Austf. við fyrri hluta þessarar umr., að með þessu frv. væri verið að velta yfir á framtíðina áföllnum vangreiddum framlögum ríkissjóðs. Hvað er það, sem hér er að gerast? Það er það, að verið er að reyna að koma á röð og reglu í stað óreiðu í sambandi við vanskil á ríkisábyrgðaskuldum. Það er verið að semja við vanskilaaðila og reynt að fylgja því eftir, að þeir greiði það, sem um er samið. Og það er í þriðja lagi verið að reyna að koma sem mest í veg fyrir áföll framvegis. Ég er sannfærður um, að árangur er væntanlegur og hann mun ekki láta á sér standa vegna þeirrar nýju skipunar, sem upp hefur verið tekin um ríkisábyrgðir og ríkisábyrgðasjóð. Og ég er sannfærður um, að það liður ekki langt, þangað til annars vegar ríkisábyrgðasjóður þarf að inna af hendi minni greiðslur en verið hefur, og á hinn bóginn, að meira fer að koma inn en áður af eldri vanskilaskuldum. M.ö.o.: áður en langt um liður verður fjárþörf vegna ríkisábyrgða miklu minni en hún hefur verið að undanförnu og er nú.

En framsóknarmenn lifa í hinum gamla og úrelta heimi. Þeir álita, eins og var alltaf áður, að ef einhver vanskil vegna ríkisábyrgðalána féllu á ríkissjóð, þá yrði ríkissjóður auðvitað að borga það og þar með væri málið búið og allt saman afskrifað. Það var ekki verið að ganga eftir því, sem féll á ríkissjóð, það var allt logandi í vanskilum og almenningur var látinn borga.

Það, sem nú gerist, er þetta: Það er verið að koma röð og reglu í stað óreiðu á þessa hluti, og ég er sannfærður um það, að þau nýju vinnubrögð og þær nýju reglur, sem hér hafa verið upp teknar, munu verða þess valdandi, að fjárþörfin af hendi ríkissjóðs og ríkisábyrgðasjóðs verður innan skamms miklu minni en áður. Og það er þess vegna, sem þetta frv. er fram borið. Á árinu 1962 vantar milli 44 og 45 millj. kr. til þess, að tekjur ríkisábyrgðasjóðs hrökkvi fyrir gjöldum. Auðvitað mætti segja með hv. 3. þm. Vesturl.: Ríkissjóður á að borga á árinu 1962 þessa upphæð umfram fjárl. Það er alveg í samræmi við það, sem tíðkaðist hér áður, og svo er allt búið og jafnvel ekki hirt um að innheimta þessar vanskilaskuldir.

Ég er á allt annarri skoðun. Ég er sannfærður um, að innan skamms muni þetta breytast til batnaðar, þannig að ríkisábyrgðasjóður þarf aðeins um stundarsakir á þessu láni að halda. Og það, sem hér er farið fram á, er heimild til þess að taka lán, og gert ráð fyrir, að það verði til stutts tíma og endurgreitt af ríkisábyrgðasjóði, áður en langt um liður. Ef hins vegar ríkissjóður færi að greiða þetta af sínum tekjum árið 1962, þá er það óafturkræft framlag, eins og verið hefur áður, sem engin ástæða er til að inna af hendi.

Nei, það hefur orðið veruleg breyting á viðhorfum í þessum málum, og í rauninni skýra viss ummæli hv. 1. þm. Austf. hér við umr. þetta alveg greinilega. Hann lýsti því yfir, að í hans tíð hefðu oft verið veittar ríkisábyrgðir, þótt augljóst væri, að aðili gæti ekki staðið í skilum. Þetta var mórallinn, þetta var fjármálamórallinn á þeim tíma. Núv. ríkisstj. og stjórnarflokkar eru auðvitað, eins og margsinnis hefur komið fram, þeirrar skoðunar, að oft og tíðum sé sjálfsagt og nauðsynlegt að styðja framkvæmdir víðs vegar um landið, bæði framkvæmdir sveitarfélaga, einstakra félaga o.s.frv. eða einstaklinga með ríkisábyrgðum. Oft og tíðum getur það verið nauðsynlegt og sjálfsagt, og síðan núv. ríkisstj. tók við störfum, hafa vissulega margvíslegar ríkisábyrgðir verið veittar, ekki sízt fyrir hinar strjálu byggðir til að greiða fyrir ýmiss konar framfaramálum þar.

En munurinn er þessi: Við teljum, að áður en ríkisábyrgð er veitt, eigi að kanna til hlítar: Eru möguleikar á því, að þetta fyrirtæki geti staðið í skilum og endurgreitt það lán, sem ríkið er að ganga í ábyrgð fyrir? Ef það er útilokað eða litlar líkur til þess, að svo geti orðið, þá á að koma slíku fyrirtæki á grundvöll með því að veita því beina styrki, og oft og tíðum þarf að gera það bæði með beinum styrk í upphafi og ríkisábyrgð. En að vera að blekkja sjálfan sig og aðra með því að veita ríkisábyrgðir til framkvæmda og fyrirtækja, þó að augljóst sé, eins og hv. 1. þm. Austf. orðar það, að aðilar geti ekki staðið í skilum, það er siðspilling í fjármálum, sem verður að uppræta. En það er ósköp eðlilegt, að það kenni nokkurrar viðkvæmni hjá höfundum vanskilastefnunnar, þegar reynt er að breyta til. En í rauninni verður það að segja, að í stað þess að ónotast út af þessum umbótum og hreingerningum ætti hv. 1. þm. Austf. heldur að þakka fyrir það, að einhver fæst til þess að taka til og gera hreint eftir allt of langa umgengni hans um fjárhirzlu ríkisins.