08.04.1963
Neðri deild: 67. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 877 í B-deild Alþingistíðinda. (821)

139. mál, ríkisábyrgðasjóður

Frsm. meiri hl. (Birgir Kjaran):

Herra forseti. Fjhn. hefur haft þetta mál til meðferðar og ekki orðið á eitt sátt um afgreiðslu málsins. Efni þess er að heimila ríkisstj. fyrir hönd ríkisábyrgðasjóðs að taka 50 millj. kr. innlent lán handa sjóðnum, sökum þess að allar líkur benda til þess, að ríkisábyrgðasjóður þurfi á talsverðu fé að halda á næstunni, enda þótt sú fjárþörf verði væntanlega tímabundin. Af þeim sökum er eðlilegt, að sjóðurinn fái heimild til þess að taka lán til starfsemi sinnar, meðan komizt er yfir fyrstu örðugleikana. Er því með frv. þessu lagt til, að ríkisstjórnin megi fyrir hönd sjóðsins taka allt að 50 millj. kr. innlent lán til þess að greiða kröfur, sem fallið hafa eða falla munu á sjóðinn. Meiri hl. n. mælir með, að frv. verði samþ.