14.03.1963
Neðri deild: 53. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 897 í B-deild Alþingistíðinda. (847)

177. mál, aðstoð við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Við 1. umr. þessa máls gerði ég grein fyrir afstöðu minni til þess, tjáði mig fylgjandi frv. að meginefni, en vakti athygli á, að ég teldi, að mjög þyrfti að taka til athugunar tvö atriði. Í fyrsta lagi að taka inn í þetta frv, það atriði, sem fellt hafði verið niður úr áður gildandi löggjöf, þ.e.a.s. lögum nr. 64 frá 1941, um kaup á landssvæðum í kauptúnum og sjávarþorpum eða í grennd við þau, eins og lögin heita, að þau mættu ekki selja slíkt land, sem þannig hefði verið keypt með aðstoð ríkisins, nema ráðh. samþykkti það. Og í annan stað, að ákvæði vantaði í þetta frv. um það að auðvelda sveitarfélögunum að geta fengið á sanngjörnu verði nauðsynlegt land, og benti ég á, að það yrði varla tryggt með öðrum hætti en með einhvers konar verðhækkunarskatti.

Hv. frsm. n. hefur nú gert grein fyrir afgreiðslu málsins í n., og skal ég engu við það bæta og dveljast þá heldur við þessi atriði, sem ég áðan vék að.

Það varð samkomulag um það í n. að taka upp í frv. ákvæði um, að sveitarfélag mætti ekki selja land, sem keypt hefði verið af almannanauðsyn samkv. þessum 1., nema ráðherrasamþykki kæmi til. Og þannig hefur það annað atriði, sem ég gerði aths. við við 1. umr., fengið afgreiðslu í samræmi við mínar skoðanir á því.

Hins vegar var mjög tekið til athugunar hitt atriðið, hvernig ætti að tryggja, að sveitarfélögin fengju lönd sér nauðsynleg á sanngjörnu verði, og var það tekið til sérstakrar athugunar í flokkunum að beiðni n. Kom öllum saman um, að það væri vandi að finna þarna millileið, sem veitti nauðsynlega vernd, en rækist þó ekki á ákvæði stjórnarskrár um friðhelgi eignarréttarins. Og í sumum flokkunum varð það niðurstaðan, að æskilegt væri og jafnvel nauðsynlegt að setja slík lagaákvæði, en sumir þeirra töldu, að slík ákvæði, ef sett yrðu, ættu fremur heima í l. nr. 61 frá 14. nóv. 1917, um eignarnám, heldur en í þessum lögum, því að með þessum l. væri þá sett ákvæði, sem legði nokkrar hömlur á hinn frjálsa eignarrétt aðeins í þessu tilfelli, en ekki almennt, og væri það ekki viðeigandi sem skyldi. Menn ræddu líka aðra leið til þess að fyrirbyggja óhóflegt verð á þessum löndum, sem hér um ræðir, nefnilega það, að við 6. gr. kæmu ákvæði um það, að þeir dómkvöddu menn, sem meta skyldu verðmæti slíkra landa, skyldu taka tillít til þeirrar verðhækkunar, sem orðið hefði á landi vegna opinberrar mannvirkjagerðar á því eða almennrar þróunar. Hætt er þó við, að jafnvel sú aðferð rækist fremur á ákvæði stjórnarskrárinnar en skattlagningarleið. Niðurstaðan varð sú, að n. barst ekki vitneskja um það, að flokkarnir treystu sér til að flytja brtt. í þá átt, sem ég hafði farið fram á, nema hvað minn flokkur, Alþb., hefur ákveðið að freista þess að koma fram breyt. á frv. viðvíkjandi þessu efnisatriði og þá í formi verðhækkunarskatts, fremur en setja ákvæði um, að hinir dómkvöddu matsmenn skuli taka tillit við matsgerðina til almennra verðhækkana.

Ég leyfi mér því að bera fram brtt. við 5. gr. frv. Í 5. gr. segir: „Það er skilyrði fyrir aðstoð ríkisins samkv. 1. þessum, að ríkisstj. telji sveitarfélagi nauðsynlegt að eignast umrætt landssvæði vegna almennra þarfa. Rétt er að synja um aðstoð, ef ríkisstj. telur kaupverðið óhæfilega hátt.“ Þarna legg ég til, að við þessa grein bætist: „Þegar svo stendur á sem í 1. mgr. segir og ríkisstj. telur kaupverð óhæfilega hátt og synjar þar af leiðandi um aðstoð samkv. 1., er ríkisstj. heimilt að leggja árlegan verðhækkunarskatt á umrædd landssvæði, og má skatturinn nema allt að 20% af verðhækkun landsins vegna samfélagsþróunar eða opinberrar mannvirkjagerðar samkv. mati dómkvaddra manna. Helmingur verðhækkunarskatts rennur i viðkomandi sveitarsjóð, en hinn helmingurinn í landakaupasjóð samkv. 1. gr. þessara laga.“

Þarna er ráð fyrir því gert, að þegar sveitarstjórn hefur komizt að þeirri niðurstöðu, að almannaþörf heimti, að sveitarfélagið fái keypt land í lögsagnarumdæmi sínu, hefur lagt þetta mál fyrir ríkisstj. og fengið viðurkenningu hennar fyrir því, að sveitarfélaginu sé nauðsyn á að eignast umrætt landssvæði, en ríkisstj. segir: aðstoð verður ekki veitt samkv. 1., vegna þess að verðið er of hátt, — þá komi þessi ákvæði til, að sveitarstjórnir geti þá gripið til þess að leggja á verðhækkunarskatt, sem að hálfu renni i sveitarsjóð og að hálfu til ríkisins í landakaupasjóðinn, og er þetta hugsað til þess, að þá dragi úr áhuga eigandans til þess að eiga landið áfram og synja um sölu á því í almannaþágu í vændum þess, að hann njóti áframhaldandi verðhækkana af landinu vegna almannaþróunar. Það má segja, að þarna sé heimild til að leggja allþungan skatt á, en hann er þó eingöngu lagður á þau verðmæti, sem landeigandi hefur ekki lagt fram á nokkurn hátt, heldur verða til við almannaþróun eða opinbera mannvirkjagerð. Og í þeim tilgangi er hann á lagður að fullnægja almannaþörf, og hún á samkv. anda stjórnarskrár að sitja í fyrirrúmi fyrir einkahagsmunum. En hans frumverðmæti í landinu á að metast af dómkvöddum matsmönnum, og á það á enginn skattpeningur að koma, aðeins hluti af verðhækkuninni, sem orðið hefur vegna almannaþróunar.

Það má vel vera, að það verði sagt, að svona skattlagning rekist á ákvæði stjórnarskrárinnar, og enn fremur má kannske segja, að því verði við borið, að þetta ætti heldur að koma inn í lögin um eignarnám. En ég held, að það fari ekkert illa á því, að þetta ákvæði komi hér vegna þessa sérstaka máls, sem er sveitarfélögum landsins mjög mikið vandamál og þarf að leysa um leið og löggjöf er sett um þessi efni.

Lögin frá 1941 um landakaup voru að mörgu leyti hagstæð sveitarfélögunum, því að ríkið átti þá að kaupa slíkt land og leigja sveitarfélaginu það með 4% leigu af kaupverðinu. En það vantaði það, sem við átti að éta, það vantaði fjárveitingar hjá ríkinu til þess að annast þessi kaup, og þess vegna urðu l. í flestum tilfellum pappírsgagn eitt. Nú er hér sú bót á ráðin, að sveitarfélögin eiga í samráði við ríkið að kaupa löndin, og ríkissjóður leggur fram árlega 2 millj. kr. til þess að lána sveitarfélögunum vegna kaupanna. Þetta tel ég til bóta. En hin hliðin, hið óhóflega verðlag á lóðum og lendum í námunda við kaupstaði og kauptún og í lögsagnarumdæmum bæja og kauptúna, er mál, sem leysa þarf með einhverjum hætti, og það viðurkenndi hv. frsm. líka rækilega í sinni framsöguræðu, þó að hann hefði fallizt á það með sínum flokki, að betur færi á að reyna að reisa þar skorður við með breyt. á eignarnámslöggjöfinni frá 1917, sem ég tel, að alveg eins geti átt heima í þessum lögum a.m.k. á það öllu betur heima i þessum lögum en þegar hv. d. var sammála um það hér fyrir skemmstu, að vinnulöggjafarákvæði væru sett inn í lyfsölulöggjöf. En það þótti hlýða þá. Hér er beint verið að setja lagaákvæði til lausnar þessu máli, sem frv. fjallar um, og ná ekki til annarra efnisatriða en landakaupa í almannaþágu fyrir kauptún og kaupstaði. Þessi löggjöf er að því leyti rýmri en lögin frá 1941, að aðstoð má einnig veita kaupstöðum, en hin lögin hafa eingöngu verið til aðstoðar við kauptún.

Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta. Þetta er nýmæli, sem felst í þessari brtt. minni, og má vel vera, að menn verði ekki á eitt sáttir um það. En nauðsynin er fyrir hendi til þess að ráða þarna bót á, og ég tel bezt fara á því að gera tilraun til þess að leysa þennan vanda í sambandi við setningu þessara laga. Brtt. er skrifleg, og verð ég því að biðja hæstv. forseta að leita afbrigða fyrir henni, ef hún verður tekin til umr, nú, en hins vegar gæti ég vel fallizt á það, að a.m.k. atkvgr. um hana yrði frestað til 3. umr.