14.03.1963
Neðri deild: 53. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 901 í B-deild Alþingistíðinda. (852)

177. mál, aðstoð við kaupstaði og kauptún vegna landakaupa

Hannibal Valdimarsson:

Herra forseti. Frsm. n. hefur beint þeim tilmælum til mín, hvort ég vilji ekki á það fallast að taka till. mína aftur til 3. umr., svo að n. gefist kostur á að athuga orðalag hennar, heldur en láta hana fara undir atkv. nú. Ég fellst á þetta, tel þetta að öllu leyti þinglegt og eðlilegt og vil gjarnan verða við þessum tilmælum.

Viðvíkjandi því, sem hv. 3. þm. Norðurl. e. sagði áðan i tilefni af því, sem komið hefði fram hér í umr., skal ég ekki verða fjölorður. Það er rétt, ég sagði, að að ýmsu leyti hefðu l. frá 1941 verið pappírsgagn, og mér er vel kunnugt um það. Hvert kauptúnið á fætur öðru, sem í landþröng hefur komizt, hefur á undanförnum árum farið fram á það við ríkið, að heimild l. frá 1941 væri notuð og slík lönd keypt, og hið góða og gilda svar, sem gefið hefur verið, hefur verið það, að fjárveiting væri ekki fyrir hendi, fé ekki til landkaupanna, og gæti því ekki af þeim orðið. Og að því er snertir þá hlið málsins að leysa úr byggingarlóðaþörf í kauptúnum, fyrir þeirri þörf hefur ekki verið séð með l. frá 1941. Hitt játa ég, að í vissum. tilfellum hefur sjálfsagt verið leyst úr þörf kauptúna fyrir ræktarlönd, og það er ekki einskisvert. Ég veit það ósköp vel. En þá hefur þurft að afla sérstakra fjárveitinga til þeirra landkaupa, en þar er í fæstum tilfellum orðið um aðra eins gífurlega verðhækkun að ræða á landi og í kauptúnunum, þegar um er að ræða land undir byggingar, kannske land í námunda við hafnarsvæði, sem almenn verðhækkun er orðin gífurleg á. Þetta var það, sem gaf mér tilefni til þess að segja, að að ýmsu leyti hefðu l. frá 1941 í reyndinni orðið pappírsgagn, og út frá þessari hlið, sem mér var vel kunnugt um, sagði ég þetta og taldi því til bóta, að nú væri hér gert ráð fyrir, að ríkið legði fram 2 millj. kr. til þess að fullnægja ákvæðum þessara l. að einhverju leyti, og skal ég þó játa, að ég er hræddur um, að eins mörg verkefni og hér liggja fyrir, þá verði þessi upphæð allt of lág.