16.11.1962
Efri deild: 17. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 78 í B-deild Alþingistíðinda. (92)

98. mál, kjarasamningar opinberra starfsmanna

Alfreð Gíslason læknir:

Herra forseti. Mér þykir rétt að fara örfáum orðum um þetta frv. þegar við þessa umr., en mörg orð skal ég ekki hafa um það nú.

Ég saknaði þess í ræðu hæstv. ráðh., að hann skyldi ekki rekja gang málsins eða þess ágreinings, sem liggur að baki þessa frv. Hann tók það sjálfur fram, að hann ætlaði ekki að gera það, en ég tel, að það hefði verið alveg sérstök ástæða til að rekja gang þessa máls nú við 1. umr. um þetta frv. Ég held, að allir hv. alþm. séu þessum málum of ókunnugir og að það sé skylda að gera þeim grein fyrir aðdraganda málsins. Þetta hefur hæstv. ráðh. láðst að gera, og ég get að sumu leyti skilið það. Ég get skilið það út frá því, að samvizka hæstv. ríkisstj. í þessu máli sé ekki sérlega góð og að þrátt fyrir þann sigur, sem þetta frv. ber vott um, þá sé hæstv. ríkisstj. ekki sérlega hreykin af sigrinum.

Forsagan er í stuttu máli sú, að 25 einstaklingar í þjónustu ríkisins segja upp stöðum sínum með löglegum fyrirvara. Ástæðan til þess, að þessir menn segja upp stöðum sínum, er sú og sú ein, að þeir eru óánægðir með kjör sín. Hæstv. ríkisstj. notaði sér lagaheimild til þess að lengja uppsagnarfrestinn um helming, þannig að hún fengi 6 mánuði í staðinn fyrir 3 til að athuga sinn gang og til að gera ráðstafanir í samræmi við fram komnar 25 uppsagnir. Þennan tíma vanrækti hún gersamlega að notfæra sér. Og þegar að því kemur 1. nóv., að læknarnir mæta ekki til starfs, þá er hæstv. ríkisstj. með öllu óviðbúin.

Það var frá upphafi og allt til þessa dags mjög augljóst, að hæstv. ríkisstj. ætlaði sér og treysti á það, að hún gæti þvingað þessa 25 einstaklinga til hlýðni. Það var vitnað í a.m.k. þrenn lög, að læknarnir með uppsögnum sínum fremdu lögbrot. Og það var óspart látið í það skína, hvaða viðurlög væru við slíku að réttu lagi.

Þetta eru 25 einstaklingar, sem segja upp stöðum sínum. Þetta er ekki verkfall. Það er ekki félagsbundinn hópur, sem hér er að verki, heldur einstaklingar. Til þess að torvelda þessum einstaklingum að losna úr þeim stöðum, sem þeir voru óánægðir með að vera í, var reynt að koma því svo fyrir með lagakrókum, að hér væri raunverulega um verkfall að ræða. Þannig hafa öll ráð verið notuð til að þvinga þessa einstaklinga, þessa þegna þjóðfélagsins, til starfa gegn vilja þeirra. Ég get vel skilið, að hæstv. ríkisstj. sé ekki hreykin af þessu og að hún kæri sig ekkert um að rekja gang málsins eða þennan ágreining hér, eins og hæstv. fjmrh. tók fram að hann óskaði ekki að gera. En ég held samt, að það sé hollt, að þetta komi fram. Ég get ekki deilt á neinn einstakan ráðh. fyrir þessa framkomu. Eg deili ekki sérstaklega á hæstv. heilbrmrh., þó að þetta máli standi honum næst, heldur deili ég, eins og ég hef gert í þessari ræðu, á hæstv. ríkisstj., því að ég veit, að hún í heild og sem einn maður stendur á bak við þessar aðgerðir.

Ég skal minna á, að það er ekki nema eitt ár síðan annar hópur lækna var beittur gerræði. Þá stóð annar hæstv. ráðh. þar að baki, hæstv. félmrh. Þá var hópur sjúkrasamlagslækna í Reykjavík þvingaður til að vinna gegn vilja sínum í þrjá mánuði hjá ákveðinni opinberri stofnun. Þetta er því ekki einsdæmi, sem skeð hefur nú gagnvart læknunum. Þetta er í annað skipti í tíð þessarar hæstv. ríkisstj. Ég skal viðurkenna, að hæstv. ríkisstj. virðist hafa borið sigur úr býtum í viðskiptum við þessa einstaklinga. Sjálfsagt er hún ánægð með það, en ég trúi því ekki, að hún sé hreykin af því. Hún beygði þá, og það frv., sem hér liggur fyrir, er niðurstaðan, útkoman úr þeirri glímu. Læknarnir hafa enn ekki fengið leiðréttingu mála sinna. Það bíður síns tíma og það verður ákveðið á þann hátt, sem hæstv. ríkisstj. telur bezt viðeigandi. Þetta er það, sem felst í þessu frv. Ég hef ekki tekið afstöðu til frv. í þeim orðum, sem ég hér segi, en mér er það ljóst, að þetta frv. er niðurstaða fullnaðarsigurs hæstv. ríkisstj. gagnvart þessum 25 íslenzku ríkisborgurum.