02.04.1963
Efri deild: 66. fundur, 83. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (973)

196. mál, almannatryggingar

Páll Þorsteinsson:

Herra forseti. Við 2. umr. þessa máls, sem fram fór á fundi d. í gær, vakti ég athygli á nokkrum atriðum í þessu frv. og hafði vænzt þess, að hv. heilbr.- og félmn. tæki málið til athugunar á milli umr.

Nú virðist mér, þar sem 3. umr. fer fram nú þegar, þá muni n. hafa unnizt lítill tími til þess að athuga málið að nýju og e.t.v. látið það undir höfuð leggjast. Ég mun nú ekki leggja fram brtt. við mörg atriði frv., en ég vil í framhaldi af því, sem ég benti á við 2. umr., bera fram og freista þess að fá samþ. brtt. við eitt atriði frv. Hún er við 37. gr., að stafl. a orðist þannig, með leyfi hæstv. forseta:

„Ekkja eða ekkill, sem var samvistum við hinn látna eða á framfæri hans, hljóta bætur, 2000 kr. á mánuði í 8 ár. Bætur samkv. þessum stafl. falla ekki niður, þótt ekkja eða ekkili stofni til hjúskapar á ný.“

Efnisbreyt. er sú ein, að fella úr gr. það skerðingarmark, sem að þessu lýtur, en eins og greinin er í frv., þá er gert ráð fyrir því, að þessi mánaðargreiðsla, sem ákveðin er í 8 ár, verði lækkuð, ef tekjur þess látna hafa ekki verið svo háar á þeim tíma, þegar hann féll frá, að þessi fjárhæð nemi 3/4 af vinnutekjum hans.

Hér getur aldrei verið um vafamál að ræða, því að dauðaslys er þess eðlis, að það leynir sér ekki, og því ekkert torvelt til úrskurðar. Og þegar þess er gætt, að þessa skerðingu á að reikna og láta hafa áhrif á mánaðargreiðslu í 8 ár, þá sýnist mér það vera fráleitt að miða eingöngu við þær ástæður, sem voru fyrir hendi, þegar slysið bar að höndum. Það má segja, að í sambandi við ýmsar aðrar bótagreiðslur trygginganna hefur sá, sem er á lífi og í starfi, alltaf möguleika til þess að vinna sér aukinn rétt, auka tekjur sínar, en í þessu falli verður þetta ekki aftur tekið. Hér er mat á ástæðum, þegar dauðaslys bar að, og að láta slíkt mat hafa áhrif á mánaðargreiðslur í 8 ár, það sýnist mér fráleitt, einkum þegar þetta kemur niður á þeim, sem tekjulágir eru.

Ég vísa að öðru leyti til þeirrar ræðu, sem ég hélt við 2. umr. málsins, og skal ekki fjölyrða um þetta. En vegna þess, hve þetta ber brátt að, verð ég að leggja þessa till. fram skriflega og vænti þess, að hæstv. forseti leiti afbrigða fyrir henni.