14.12.1963
Neðri deild: 30. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 179 í B-deild Alþingistíðinda. (151)

95. mál, vegalög

Ragnar Arnalds:

Herra forseti. Eins og fram hefur komið í þessum umr., hefur verið mælzt til þess, að það frv., sem hér liggur fyrir um nýja skipan vegamála, fái sem fljótasta afgreiðslu og verði afgreitt fyrir jól, í þessu skyni hefur verið komið á fót svonefndri samvinnunefnd samgöngumála, og þegar farið var fram á það við þingflokk Alþb., að hann hjálpaði til við að afgreiða þetta mál á sem stytztum tíma, þá þótti mönnum sjálfsagt og eðlilegt að verða við slíkum tilmælum. Það fór svo, að ég átti sæti í þessari nefnd, og það er fljótsagt, að það skapaðist ágætt samstarf í henni, og ég mun nú gera að umtalsefni örfá atriði, sem þó varð ekki samkomulag um að svo stöddu. En áður en ég sný mér að efnisatriðum þessa máls, langar mig til að skjóta því rétt að, um leið og ég þakka hv. þm. ágætt samstarf, að þegar svo stóð á, að hraða þurfti máli í gegnum hv. þing, þá var talið nauðsynlegt að kalla á vettvang fulltrúa frá þingflokki Alþb., þannig að hann ætti aðgöngu að umr. í þessari nefnd. En eins og menn muna, gerðist það hér í haust að frambjóðendur Alþb. voru ekki aðeins felldir, þegar kosið var um allar þær nefndir, sem þingið kýs og starfa utan þings, heldur gerðist það líka, sem kom enn meira á óvart, að Alþb.-þm. var bolað úr öllum starfsnefndum þingsins. Það var bent á það, þegar þetta gerðist, að þetta gæti aðeins leitt það af sér, að þingstörf mundu tefjast, þetta væru ólaunaðar nefndir og slík vinnubrögð þjónuðu engum tilgangi. Ég vil aðeins skjóta því hér að, að ég tel, að með því að boða fulltrúa Alþb. til samvinnu í þessari nefnd hafi fengizt óbein viðurkenning á því, að það er nauðsynlegt og sjálfsagt, að allir flokkar eigi fulltrúa í starfsnefndum þingsins, því að annað leiðir aðeins til þess, að þingstörf tefjast.

Ég vil nú snúa mér að þessu frv., sem hér er til umr. Ég býst við, og mér skilst, að flestir séu sammála um, að þetta frv. horfi til bóta og í því sé fólgin góð skipulagsbreyting frá því, sem áður var. Í samvinnunefndinni komu fram allmargar brtt., sem fullt samkomulag varð um, eins og hér hefur verið rakið, og sé ég ekki ástæðu til að drepa sérstaklega á þau atriði. Ég skal einnig verða við þeim tilmælum, sem hv. 3. þm. Vestf. varpaði fram hér áðan um að hrófla ekki við III. kafla þessa frv. Það eru fyrst og fremst tvö önnur ágreiningsatriði, sem ég vildi aðeins drepa á.

Fyrra atriðið er varðandi skattlagningu þá, sem lögð er til grundvallar að framkvæmdum í vegamálum. Þessu máli verða gerð betri skil af okkar hálfu hér á eftir, þó tel ég rétt aðeins að minna á þetta atriði.

Ég held, að mönnum sé ljóst, að aðalatriðið í sambandi við þessa nýju skattlagningu er það, hvort tryggt er, að allur sá skattur, sem nú á að leggja á, renni til vegamála. En nú stendur bara svo á, að í frv. er engin trygging fyrir því, að framlagið, sem ætlað er á fjárlögum, hætti ekki eftir nokkur ár að renna til vegamála, það verði sem sagt ekki tekið út af fjárlögum. Hæstv. ríkisstj. getur einhvern tíma á næstu árum kippt að sér hendinni og hætt að greiða framlag á fjárlögum til vegamála. Ef svo færi, liggur ljóst fyrir, að þessi nýi skattur, sem nú er verið að leggja á, mundi aðeins vera, þegar allt kæmi til alls, nýjar álögur, en hæstv. ríkisstj. væri með þessu móti að fá aðstöðu til að ráðstafa því fé, sem hún hefur áður lagv fram til vegamála, á annan máta. Hér er mjög stórt og þýðingarmikið mál á ferðinni, og eins og ég sagði, verður því gerð svolítið betri grein hér í þessum umr. á eftir.

Hið síðara atriði er varðandi ákvæði um þjóðvegi í kaupstöðum og kauptúnum. Það er varðandi V. kafla frv. Það er einmitt það mál, sem hv. 1. þm. Reykn. (AJ) drap hér á áðan og gerði ágæta grein fyrir, enda þótt það skorti á, sem mikilsverðast hefði verið, að einhverjar till. hefðu fylgt í kjölfarið í frv., sem hér liggur fyrir, er gert ráð fyrir, að 11% af heildartekjum, sem ríkið aflar með nýjum hætti, renni til þjóðvega í kaupstöðum og kauptúnum. En þar á móti ber sveitarfélögunum skylda til að ljúka lagningu og viðhaldi þessara þjóðvega, áður en þeim leyfist að láta nokkuð af þessu fé renna til annarrar vegagerðar í kaupstöðum og kauptúnum. Einnig er ákveðið í þessu frv., að framlag ríkisins til sveitarfélaga sé miðað við höfðatölu. Það er sem sagt miðað við íbúatölu, en ekki stærð þeirra framkvæmda,, sem koma þarf í verk. Sums staðar er þetta þannig, að þjóðvegur í kaupstað eða kauptúni er tiltölulega lítil og auðveld vegagerð. Það er lítil umferð um veginn og hann er oft og tíðum aðeins endinn á löngum þjóðvegi, t.d. eins og er í Neskaupstað. Annars staðar stendur hins vegar þannig á, að þessi þjóðvegur er aðalumferðaræðin í viðkomandi landshluta, e.t.v. mjög fjölfarinn vegur, og öll umferð hvílir á þessum vegi, sem liggur þvert í gegnum sveitarfélagið. Sem dæmi um slíka staði mætti nefna Selfoss og Blönduós, Ytri-Njarðvík, en þó alveg sérstaklega tvo staði; þ.e.a.s. Kópavog og Garðahrepp eða öðru nafni Silfurtún. Samkv. upplýsingum, sem vegamálastjóri hefur látið frá sér fara, er lauslega áætlað að fullnaðarlagning þjóðvegarins um Kópavog mundi kosta kringum 25–30 millj. kr. Það er gert ráð fyrir, að þessi vegur verði grafinn niður og aðrir vegir, sem skæru þennan þjóðveg, yrðu brúaðir yfir þennan aðalfarveg.

Ef fer sem horfir með samþykkt þessa frv., má vænta þess, að Kópavogur fengi tiltölulega litla upphæð hlutfallslega miðað við þessa stórframkvæmd. Ég hef nú ekki tölur í höndunum varðandi það atriði, hversu há sú upphæð væri, en ég held, að ég megi segja, að hún sé einhvers staðar í kringum eina millj. eða þar um bil, enda skiptir það ekki öllu máli. Það, sem skiptir máli, er, að þessi upphæð er svo lítil, að þó að kaupstaðurinn legði þessa upphæð um langt árabil í þessa einu framkvæmd, tæki tugi ára að leysa vandamálið. Nú er það að vísu svo, að í 34. gr. frv. eru ákvæði um það, að 10% af heildarframlaginu til þjóðvega í kaupstöðum skuli vera á hendi vegamálastjóra og hann geti ráðstafað því fé í þær framkvæmdir, sem mest nauðsyn sé á að koma í verk. En því miður fylgir sá böggull skammrifi, eins og 1. þm. Reykn. minnti á hér áðan, að ef sveitarfélagi er veitt aukaframlag eftir þessari grein, þá fær það ekkert framlag næstu 5 árin, þannig að ljóst er, að lausn á þessu vandamáli margra byggðarlaga fæst ekki með tilvísun til þess ákvæðis.

Við 1. umr. þessa máls benti hv. 10. landsk. þm., Geir Gunnarsson, fyrstur manna á, að það væri nauðsynlegt, að í frv. fælist einhver lausn á þessu vandamáli og í því væri viðurkenning á því, að þessi byggðarlög hefðu sérstöðu, þ.e.a.s. þau byggðarlög, þar sem aðalumferðaræð væri í gegnum. Í samvinnunefnd samgöngumála vakti ég svo máls á þessu vandamáli, og það var allmikið rætt. Niðurstaðan varð þó sú, að ekki var gerð nein breyting á þessu atriði að svo stöddu, enda þótt nm. viðurkenndu, að ég held, allir, að hér væri um stórkostlegt vandamál að ræða. Vegamálastjóri sat flesta fundi n. og átti ágætt samstarf við hana, og í umr. um þetta mál benti hann á það atriði, sem þó liggur nú ekki ljóst fyrir, þegar frv. er lesið, og ég held, að mönnum detti ekki í hug við fyrsta lestur þess, að ráðh. er falið í frv. að ákveða, hvaða götur í kaupstöðum og kauptúnum skuli teljast þjóðvegir. Þannig getur hann ákveðið, að slíkur þjóðvegur, sem liggur gegnum kauptúnið, skuli aðeins að hluta tilheyra kaupstaðnum og vera á hans vegum. Sem sagt, ef 2000 m vegur liggur í gegnum kaupstað og tengist þjóðvegi í báða enda, þá getur ráðh. t.d. ákveðið, að 500 m spotti af þessum vegi tilheyri kaupstaðnum, en aftur 1500 m tilheyri ríkinu, þó að allur vegurinn sé raunverulega innan kaupstaðarins. Vegamálastjóri var þeirrar skoðunar, að hentugast væri að leysa þetta vandamál með því, að þegar svona stæði á, að fjölfarin leið lægi gegnum kaupstað, þá gæti ráðh. ákveðið, að kaupstaðnum væri aðeins tilheyrandi mjög lítill partur eða næstum ekkert af þjóðveginum. Eins og hér hefur komið fram, barst núna í gær bréf til samvn. samgm. frá bæjarráði Kópavogskaupstaðar, þar sem einmitt er imprað á þessu mikla vandamáli. Ég ætla mér ekki að lesa hér allt bréfið, en vil aðeins geta þess, hvaða leiðir bæjarráðið telur helztar til úrlausnar. Í niðurlagi bréfsins segir, með leyfi hæstv. forseta:

„Fyrir því er það ósk bæjarráðs Kópavogskaupstaðar, að 2. málsgr. 34. gr. frv, verði felld niður eða sett ákvæði í frv., er tryggi, að sérstaða Kópavogskaupstaðar verði tekin til greina.”

Þegar þetta var svo rætt á fundunum, kom fram sú skoðun hjá vegamálastjóra, að erfitt væri að verða við þeim tilmælum Kópavogskaupstaðar að fella niður 2. mgr. 34. gr., sem ég hef hér nefnt áður, því að hætta væri á því, að það mundi vekja óánægju annars staðar, ef úr þessum litla 10% sjóði færu stórar fjárfúlgur á einn stað og aðrir yrðu út undan. En hann benti sem sagt á þá lausn, sem ég hef áður getið, að ráðh. hefði þetta að sumu leyti í sínu valdi. Ég lít svo á, að það kæmi sterklega til greina að flytja sérstaka till. um að fella niður þessa 2. mgr. 34 gr., en þó held ég, að sú lausn væri að ýmsu leyti ekki fullnægjandi, því að með því væri í rauninni engin trygging fengin fyrir því, að sérstaða slíkra staða væri virt að fullu. En með hliðsjón af þeim upplýsingum, sem vegamálastjóri gaf, þá virðist mér ljóst, að nokkuð skorti á, að 30. gr. frv. sé fyllilega ljós og ákveðin, og mér lízt því gæfulegast á það, að við hana verði gerð ofur lítil breyting. Ég vil lesa þessa 30. gr. til nánari skýringar, með leyfi hæstv. forseta. Hún hljóðar þannig:

„Ráðherra ákveður með reglugerð, að fengnum till. vegamálastjóra, hvaða vegir í kaupstöðum og kauptúnum, sem hafa 300 íbúa eða fleiri, skuli teljast þjóðvegir. Við samningu till. sinna skal vegamálastjóri leita álits hlutaðeigandi sveitarstjórnar og skipulagsnefndar ríkisins. Við ákvörðun á því, hvaða vegir skuli teljast þjóðvegir samkv. þessum kafla, skal miðað við eftirfarandi:

1. Eðlilegt samhengi vegakerfisins sé ekki rofið.

2. Um sé að ræða helztu umferðarleið um viðkomandi byggðarlag, sé um margar leiðir að velja.

3. Greið leið fáist að þeim stöðum byggðarlagsins, sem mikilvægastir eru fyrir athafnalíf staðarins, en vegurinn endar þar.“

Ég held, að það komi alls ekki nógu skýrt fram í þessari grein né öðrum, að í kaupstöðum og kauptúnum geti verið um tvær tegundir af þjóðvegum að ræða, þ.e.a.s. annars vegar þjóðveg, sem sveitarfélaginu beri að sjá um, og hins vegar þjóðveg, sem tilheyri vegagerð ríkisins að öllu leyti. Ég hef sjálfur skilið það þannig og óttast, að aðrir skilji það svo, að það sé aðeins um að ræða eina tegund af þjóðvegum í kaupstöðum og kauptúnum, þ.e.a.s. þá tegund, sem tilheyri kaupstaðnum, en aðrar götur heiti ekki þjóðvegir. En samkv. upplýsingum vegamálastjóra er þetta á hinn veginn. Auk þess tel ég, að það sé nauðsynlegt, að í þessari grein komi fyllilega fram og sé viðurkennd sérstaða sveitarfélaganna, sem þannig stendur á um, eins og ég hef áður rakið, að aðalumferðaræðin liggur í gegnum sveitarfélagið. Af þeim sökum vil ég flytja hér skrifl. brtt. við frv. til vegalaga, sem er borin fram af mér og hv. 10, landsk. þm., Geir Gunnarssyni. Hún hljóðar svo:

„Við 30. gr. bætist: 4. liður: Aðeins lítill hluti þjóðvegar skal tilheyra sveitarfélagi, þegar svo stendur á, að fjölfarinn þjóðvegur í kaupstað eða kauptúni er aðalumferðaræð í viðkomandi landshluta og liggur milli annarra byggðarlaga.“