17.12.1963
Neðri deild: 32. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 214 í B-deild Alþingistíðinda. (170)

95. mál, vegalög

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Hv. þm. hefur flutt till., og það er mannlegt, að hann vilji ekki gefast upp við það að reyna að færa rök fyrir því, að það hafi verið nauðsynlegt að flytja þessa till. til þess að tryggja það, að vegamálin fái eftirleiðis a.m.k. ekki minna frá ríkissjóði en nú er ætlað. En ég hygg, að hv. þm., sem hlustuðu á ræðu hv. 5. þm. Austf. áðan, hafi fundið, að hv. ræðumaður stóð ekki föstum fótum, þegar hann var að reyna að draga sín rök fram. Hv. þm. virtist hafa mestar áhyggjur af því, að tekjustofnarnir mundu gefa meira en áætlað væri í byrjun áætlunartímabilsins og það mundi þá e.t.v. verða til þess, að það yrði minna, sem ríkissjóður væri látinn greiða. Ég held, að það vanti talsvert af heilbrigðri hugsun í þetta, því að það er enginn vafi á því, að nú, þegar framlag til vegamála er aukið, eins og nú verður gert, kallar það á miklu örari og meiri framkvæmdir en nokkru sinni áður. Og við getum þess vegna verið alveg sannfærðir um, að það verður ekki of mikið, sem tekjustofnarnir gefa, heldur miklu frekar of lítið, miðað við þær áætlanir, sem gerðar hafa verið, og þótt áætlanirnar séu gerðar til 4 ára, ber að endurskoða þær á tveggja ára. fresti. Og það er enginn vafi á því, að eftir tvö árin kemur í ljós, að það er þörf á meira fé og það þykir nauðsynlegt að taka inn í áætlun eftir tvö ár það, sem ekki þótti fært að taka inn í byrjun tímabilsins. Þetta mun nú áreiðanlega verða þróunin. Og hv. þm. sagði hér áðan eina setningu, sem staðfestir einmitt það, sem ég var að segja áðan. Hann segir, að það sé ómögulegt að gera áætlun til 4 ára nema vita, með hverju eigi að reikna. Og við skulum samþykkja það, að ómögulegt sé að gera áætlun til 4 ára, nema við vitum með hverju má reikna a.m.k. í byrjun áætlunartímabilsins verður áreiðanlega reiknað með framlagi frá ríkissjóði a.m.k. jafnháu og því, sem byrjað er með. Og er það þá ekki staðfesting á því og trygging fyrir því, að vegamálin fái a.m.k. þá upphæð, þegar áætlunin í fyrstu er byggð á því, að ríkisframlagið verði a.m.k. þetta? Hv. þm. kannske vill endurtaka það, sem hann ætlaði að halda fram áðan, að tekjustofnarnir gefi meira en áætlað var og þess vegna þurfi ekki eins mikið ríkisframlag.

Það er enginn vafi á því, að þegar áætlunin verður gerð, verður hún vitanlega byggð á ákveðnu framlagi, þeim tekjustofnum, sem gjöldin gefa, annars vegar og hins vegar á því, sem ríkisframlagið veitir. Og einmitt vegna þess er engin hætta á því og alveg útilokað, að ríkisframlagið verði lækkað. Það er alveg útilokað. Og þörfin fyrir aukið vegafé frá ríkissjóði verður fyrir hendi, þótt vegamálunum hafi verið tryggt fé með benzíngjaldi, gúmgjaldi og þungaskatti. Einmitt vegna þess, að meiri skriður kemur á framkvæmdir í hinum ýmsu byggðarlögum og það nálgast meira en áður að fá sæmilegar samgöngur, þá verður enn meira rekið á eftir en áður að fullgera það, sem vantar kannske tiltölulega lítið til þess að ljúka. Og það er vitanlega heilbrigð og eðlileg þróun. Mér þykir það einkennilegur spádómur hjá hv. þm. að láta sér detta í hug, að sú nægjusemi færist nú yfir þjóðina, að hv. þm. hætti að halda uppi kröfum til aukins fjármagns í samgöngumálin. Það er dálítið undarlegt. Og þegar ég fullyrði það, að jafnvel þótt till. hv. þm. væri samþykkt, þá tryggi hún ekki framlag frá ríkinu, ef meiri hl. þings vildi ekki láta það af hendi, þá er það náttúrlega ekkert sambærilegt við þá líkingu, sem hv. þm. nefndi hér í sambandi við þau gjöld, sem nú er verið að lögfesta, því að hann sagði, að það mætti þá alveg eins afnema þessi gjöld á næsta ári, ef meiri hl. þings vildi breyta vegalögunum og fella úr þann lið, sem gerir ráð fyrir greiðslu úr ríkissjóði til vegamálanna. Þetta er ólíkt, vegna þess að í öðru tilfellinu er um gjöld að ræða úr ríkissjóði, en hins vegar er um gjöld að ræða, sem ekki koma ríkissjóðnum við, og gjöld, sem allir hv. þm. virðast vera sammála um að sé nauðsynlegt að leggja á til þess að fá aukið fé til samgöngubóta. Þess vegna er það nokkuð, sem ekki gæti komið fyrir, að þessi gjöld, sem nú er verið að lögfesta, yrðu afnumin, hvorki á næsta ári né næstu árum. Ég er viss um, að það verður ekki gert, vegna þess að það verður — það er of mikið að segja eilífðarmál, en það verður mál málanna næstu áratugina að gera vegakerfið á Íslandi betra en það er og fullkomna það. Við erum svo skammt á veg komnir í þessum málum, að það má segja, að þótt við förum á ökutækjum um landið allt, þá eigum við eftir að leggja vegina um landið. Fjárþörfin verður þess vegna vaxandi, og þessi gjöld, sem við nú erum að lögfesta, eru undirstaðan undir því, sem við ætlum að gera. En ég er sannfærður um, að við höldum uppi kröfum um það, að ríkissjóður auki framlög sín úr þessum 47 millj. til mikilla muna, vegna þess að við verðum sammála um þessar miklu þarfir, sem bíða hvarvetna.

Ég hef svo ekki ætlað mér að fara að karpa við hv. þm. um þessa till. Hann hefur flutt hana og hann vill ekki draga hana til baka, og það má kannske segja, að það sé mannlegt. Ég er viss um, að í fyrstu, þegar hann skrifaði till., þá trúði hann því, að hann væri að gera gott með henni. En ég hafði búizt við, að þessi hv. þm. að athuguðu máli sannfærðist um, að það er ekki gagn að till., hún tryggir ekki fé til vegamálanna, hún miklu fremur markar spor, sem gæti verið erfitt að afmá, með því að till. gefur það í skyn, að þetta sé talsvert framlag, og ég vil ekki gera það að minni skoðun, að þetta sé nokkurt höfðinglegt framlag. Ég álykta sem svo, að hv. 5. þm. Austf. telji þetta ríflegt, úr því að hann hefur ekki gert till. um, að framlag ríkissjóðs verði hækkað. Ef hv. þm. hefði talið, að þetta væri ekki ríflegt til viðbótar þeim gjöldum, sem nú er verið að lögfesta, hefði hann gert till. um aukið framlag frá ríkissjóði. En ég skil það nú eftir þá ræðu, sem hv. þm. flutti hér áðan, af hverju hann taldi ekki þörf á því og taldi, að þetta væri gott í bili, og það geri ég líka. Þó að ég telji það ekkert sérstaklega ríflegt, þá tel ég það gott í bili, miðað við það, sem áður hefur verið. En hv. 5. þm. Austf. vildi halda því fram, að vegna þess að tekjustofnarnir, sem er verið að lögfesta, mundu gefa miklu meira en áætlað væri, þá mundi hv. Alþingi eða meiri hl. þess leiðast í freistni með að lækka þetta framlag ríkissjóðs eða jafnvel afnema það. En það er ég alveg sannfærður um, að verður ekki gert, vegna þess að þrátt fyrir það, þótt við aukum fjárframlög til vegamálanna nú á einu ári um 100 millj. kr., þá stöndum við frammi fyrir því eftir 1–2 ár, að við höfum of lítið til þessara mála og verðum að fá meira til þeirra með einhverjum hætti.