19.11.1963
Neðri deild: 18. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 680 í C-deild Alþingistíðinda. (1970)

64. mál, vegalög

Sigurvin Einarsson:

Herra forseti. Mér fannst, eins og sjálfsagt fleirum, að hæstv. vegamrh. tæki þessu frv. alveg óvenjulega illa. En nú er hv. þm. kunnugt um, að síðan 1955 a.m.k. hafa verið flutt vegalagafrv. á hverju einasta þingi og meira að segja tvö frv. á hverju þingi. Og ég hef aldrei heyrt því tekið illa, þó að menn flyttu till. um nýja þjóðvegi. Ég átta mig ekki vel á þessu. Ég hef á þremur þingum verið fyrsti flm. að frv. um nýja þjóðvegi í Ed., og þeim var aldrei tekið svona. Meðal flm. að þessum frv. voru ýmsir úr stjórnarliðinu. Ég get t.d. minnt á 1960, en þá er þessi hæstv. ríkisstj. við völd, þá eru meðflm. í Ed. Kjartan J. Jóhannsson, og ekki leit hann svo á, að það væri neitt vítavert að flytja till. um nýja þjóðvegi. Í neðri deild það sama ár var líka flutt frv., þar er flm. m.a. Jónas G. Rafnar. Árið eftir eru svo enn flutt frv., sitt í hvorri deild, um nýja þjóðvegi. Og loks á síðasta þingi er það líka gert. Það hefur aldrei þótt neitt athugavert við það, þó að menn vildu fá nýja vegi í þjóðvegatölu. Þetta er samkvæmt eindregnum óskum heiman úr héruðunum, og er eðlilegt, að slíkt sé borið fram á Alþ. Fari maður lengra aftur í tímann, t.d. ári eftir að vegalagabreytingin var gerð 1955, þá er strax á þinginu 1956 flutt vegalagafrv. um nýja þjóðvegi, og það voru hinir merkustu menn, sem fluttu það. Það voru t.d. Jón Sigurðsson, Steingrímur Steinþórsson og Sigurður Bjarnason. Þetta er undireins á þinginu næst eftir vegalagabreytinguna. Næsta ár þar á eftir, 1957, er flutt frv. Þar eru enn flm. Jón Sigurðsson, Steingrímur Steinþórsson og Sigurður Bjarnasón. Hvað ætli hafi verið við þetta að athuga? Ég átta mig þess vegna ekki á þessum undirtektum hjá hæstv. vegamrh.

Þá virðist hann hafa eitthvað sérstaklega við það að athuga, að hv. 1. flm, þessa frv. geri ekki um leið till. um fjárveitingar. Ég held, að það ætti öllum þm. að vera ljóst, að fjárveitingarnar tilheyra fjárlögum, en ekki vegalögum. Þær geta ekki verið í sama frv. og till. um nýja þjóðvegi og hafa aldrei verið. Ég held, að þm. hafi alveg kinnroðalaust flutt öll sín frv. nú í 8 ár án þess að láta till. um fjárveitingar fylgja, þar sem þær tilheyra fjárlögunum, en ekki vegalögum.

Þá skildi ég hæstv. ráðherra svo, að hæstv. ríkisstj. hefði aldrei lofað nýju vegalagafrv. á siðasta þingi. Ég man ekki eftir því, hvort hann hefur lofað því eða ekki, en ég held það fari ekkert á milli mála, að hæstv. ríkisstj. hafi gert ráð fyrir því á þinginu í fyrra að flytja þá nýtt vegalagafrv., ég held ég muni það alveg rétt, það yrði það frv., sem undirbúið var af stjórnskipaðri nefnd. Ég minnist þess, að í sambandi við frv. um lánsfé, sem við fluttum nokkrir þm. í Ed. um heimild fyrir ríkisstj. til að taka lán til vegabóta á Vestfjörðum og á Austurlandi, bar þetta mál á góma, þ.e.a.s. hvort nýtt vegalagafrv. kæmi á því þingi. Þessu frv. okkar var vísað frá þá af stjórnarliðinu. Ég hef hér fyrir framan mig nál. frá meiri hl. samgmn. Ed., þ.e.a.s. stuðningsmönnum ríkisstj., um það mál, og þar segir svo, með leyfi hæstv. forseta: „Ástæðan fyrir þeirri afgreiðslu var sú (þ.e.a.s. að vísa málinu til ríkisstj.), eins og kom fram í nál. þá (þ.e. árið áður), að verið var að endurskoða vegalög af milliþn. samkvæmt þál. frá 1961, og var þá og er enn búizt við, að frv. til nýrra vegataga komi fyrir Alþ. í vetur. Þetta segja stuðningsmenn ríkisstj. í samgmn. Ed. í fyrra. Ég held, að þeir hafi ekki haft neitt rangt fyrir sér, það var gert ráð fyrir þessu.

Þá sagði hæstv. vegamrh., að vegamálanefndin væri ekki búin að ljúka störfum. Ég hélt, að hún væri löngu búin að því. Ég veit ekki betur en þessi vegamálanefnd hafi skilað till. sínum til ríkisstj. 9. okt. í fyrra, daginn fyrir að þing hófst þá. Ég held, að þetta sé nokkurn veginn rétt munað hjá mér. Þess vegna var búizt við frv. í allan fyrravetur. En af hverju frv. kom ekki, vit ég ekkert fullyrða um. Mig grunar, að hæstv. ríkisstj. hafi ekki verið ánægð með frv. og hafi viljað breyta því. Hvort frv. er í höndum n. enn, veit ég ekki. Ég veit ekki heldur, hvernig er hægt að segja n. að gera till. í máli, sem hún er búin að gera till. um, þ.e. að koma með aðrar. Mér er það ekki ljóst. Ég held, að sú nefnd eigi þá ekki að taka við till. aftur, heldur þurfi að skipa aðra n. eða einhverjir aðrir aðilar að koma til. Ég er ekkert að finna að því, þótt hæstv. ríkisstj. hafi ekki fallizt á allar till. n., það er algengt og ekkert við því að segja. Ég veit ekki, hvernig í ósköpunum sú nefnd á að fara að koma með nýjar till., þegar hún er búin að skila öðrum.

Ég held í fáum orðum sagt, að það sé ómögulegt með nokkurri sanngirni að finna að því, að flutt er frv. um breytingar á vegalögum. Mér finnst það sjálfsagt mál, ekki sízt þegar 8 ár eru nú liðin frá síðustu breytingum. Þess vegna áttaði ég mig illa á þessum undirtektum hæstv. ráðh. En ég vil nú spyrja hæstv. ráðh.: Býst hann ekki við, að á þessu þingi muni ríkisstj. leggja fram frv. til nýrra vegalaga? Það væri gott að heyra það, ef hann getur svarað því. Ég er ekki að segja, að hann geti það fyrirvaralaust. Ég er ekki að gera neinar kröfur til þess, ef hann á erfitt með það. En ef hann gæti það, þá væri gott að vita það. Ég hafði t.d. hugsað mér að flytja brtt. við þetta frv., sem hér er til umr., um alimarga nýja þjóðvegi á Vestfjörðum, eins og ég hef gert undanfarin ár. En það getur vei verið rétt að biða, ef nýtt vegalagafrv. er að koma.