31.01.1964
Sameinað þing: 37. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 47 í D-deild Alþingistíðinda. (2387)

94. mál, iðnrekstur í kauptúnum og kaupstöðum

Flm. (Björn Pálsson):

Herra forseti. Ég hef leyft mér að flytja þáltill. ásamt hv. 2. þm. Norðurl. v. og hv. 5. þm. Vesturl. Till. hljóðar svo:

,.Alþingi ályktar að fela 5 manna nefnd að athuga, hvað hægt sé að gera til að auka iðnvæðingu í kauptúnum og kaupstöðum úti á landi, þar sem ónóg er atvinna. Alþingi kýs tvo menn í þessa nefnd og ríkisstj. skipar þrjá, og skulu þeir vera sérfróðir í iðnaðarmálum. Störf n. skulu vera:

1) Athugun á því , hvar mest þörf er fyrir aukinn iðnað vegna ónógrar atvinnu.

2) Athugun á því, hvaða iðngreinar er hagkvæmast að starfrækja á hverjum stað.

3) Að gera till. um, á hvern hátt eigi að útvega fjármagn, svo að hægt sé að starfrækja iðnfyrirtækin.

4) Að gefa upplýsingar um þá faglegu þekkingu, sem nauðsynleg er, til þess að hægt sé að starfrækja þau iðnfyrirtæki, sem n. leggur til að stofnuð verði.“

Ég vil leyfa mér að fara nokkrum orðum um einstaka liði þessarar till. Þá er það fyrsti liðurinn, athugun á því, hvar mest þörf er fyrir aukinn iðnað vegna ónógrar atvinnu. Við vitum það, að hér á landi hefur atvinna við iðnað farið mjög í vöxt, en mikið af þessum iðnaði byggist á því, að hann er tollverndaður. Af fatnaði, eins og kápum, skófatnaði og öðru slíku, munu innflutningsgjöld og tollar vera allt að því 100%, og ef þessir tollmúrar hryndu niður, sem e.t.v. verður í framtíðinni, eru mestar líkur til, að mikið af þessum iðnaði okkar leggist niður og við þurfum að taka annan iðnað í staðinn. Ég hygg, að í framtíðinni verði það þannig, að hagkvæmast verði fyrir okkur að vinna úr okkar eigin hráefni, það yrðu þá landbúnaðarafurðir, ull og skinn sérstaklega, og í öðru lagi sjávarafurðir, og í þriðja lagi kæmi til greina að framleiða hér vöru, sem við þurfum að nota, eins og ýmsar vörur til sjávarútvegs, og má bar t.d. nefna veiðarfæri, tunnur og skipasmíði og annað slíkt. Við erum ekki háþróuð iðnaðarþjóð, því fer fjarri. Við erum algerlega á frumstigi þar.

Það sagði mér t.d. einn kaupmaður hér í bænum, sem verzlar með erlendar kápur. hann sagði, að ef ekki væru þessi innflutningsgjöld og tollar á þennan fatnað, þá stæðumst við engan veginn samkeppnina, því að kápurnar eru ekki eins góðar og miklu dýrari. Það er ekki þar með sagt, að svona þurfi þetta alltaf að vera, að við getum ekki náð þeirri tækni, sem aðrar þjóðir hafa. Það er tiltölulega stutt síðan við hófum okkar iðnað, og þess vegna erum við ekki orðnir iðnþróuð þjóð. Það tekur áratugi og jafnvel aldir að ná hámarki í þeim efnum.

Ég hef athugað tilfærsluna í byggð landsins, þá breytingu sem orðið hefur frá því árið 1951 til ársins 1962, ég fékk nýjustu skýrslur um þetta og þá hef ég tekið eftir því að það fækkar frekar í sveitunum, það fjölgar í einstökum kauptúnum úti á landi og kaupstöðum, en öll aðalfjölgunin er hér í kringum Faxaflóann. Árið 1951 voru íbúar landsins 146 þús., en árið 1962 eru þeir orðnir 183 þús. Fjölgunin hefur því verið 37 þús. eða 25.34% á rúmum einum áratug. Á þessu sjáum við, hve þjóðinni fjölgar ört, og um það er ekki nema gott að segja. Það er ekki útlit fyrir annað en svipuð þróun verði á næstu árum. Ég hef einnig athugað tilfærsluna, og hún er þannig að í kaupstöðunum bjuggu 1951 90 þús., en 724 þús. árið 1952. Í kaupstöðunum hefur því fjölgað um 34 þús. af þessum 37 þús., sem þjóðinni hefur fjölgað í heild. Í kauptúnum hefur aftur fjölgað úr 21 þús. 1951 í 28 þús. 1962. Ofur lítil tilfærsla hefur orðið vegna breytinga, eins og t.d. í Kópavoginum og Glerárþorpinu fyrir norðan. svo að þetta eru ekki alveg raunhæfar tölur. En staðreyndin er þetta, þegar farið er yfir manntalið nákvæmlega. að það hefur frakar fækkað í sveitunum, fjölgað í vissum bæjum úti á landsbyggðinni, en öðrum ekki.

Þegar við athugum, hvar hefur fækkað í sveitinni, kemur í ljós, að fækkunin var mest í Austur-Barðastrandarsýslu og Strandasýslu og dálítið í Vestur-Skaftafellssýslu. Þetta sýnir, að þar sem samgöngur eru lélegar og langt á milli bæja, fækkar fólkinu í sveitinni, og þar sem ekki eru skilyrði til þess að mynda kauptún úti á landsbyggðinni, þar sem erfið skilyrði eru til sjósóknar, því að hingað til hefur það verið þannig, að iðnaður í kauptúnum og kaupstöðum úti á landinu hefur verið mjög takmarkaður.

Það er dálítið athyglisvert að athuga þetta. Ég hygg, að það séu litlar líkur til, að á næstu 1—2 áratugum a.m.k. fjölgi fólki, sem vinnur að landbúnaði á hinum einstöku og dreifðu bændabýlum, að því fjölgi að mun. E.t.v. er ekkert um þetta að segja, tæknin hefur farið vaxandi, og hver einstaklingur afkastar meira og meira. Hitt er annað mál, að við sjáum, að ef öll fólksfjölgunin streymir hingað til Faxaflóa, ef ekkert er gert fyrir kaupstaði og kauptún úti á landi, til þess að atvinna sé þar örugg og fólkið geti horft björtum augum til framtíðarinnar, þá heldur þessi þróun áfram, sem nú hefur verið s.l. áratug. Ef við athugum hina einstöku kaupstaði og kauptún úti á landi, hvar fólki hefur aðallega fjölgað, þá kemur í ljós, að fjölgunin er mest á Akureyri. Ég get nefnt þar sem dæmi, að í Austur-Barðastrandarsýslu hefur fækkað um 200 manns, og er þetta fámennt hérað. í Strandasýslu hefur fækkað um 350. Og í Vestur-Skaftafellssýslu hefur fækkað um 79. Ég hef sérstaklega athugað þetta í Norðurlandskjördæmi vestra, því að það er nú svo, að hver lítur til sinna heimabyggða, og þá hefur þróunin í kauptúnunum hjá okkur orðið þannig, að á Hvammstanga hefur fjölgunin verið 45, á Blönduósi 167, á Skagaströnd 35, Hofsósi 22, Sauðárkróki 250. en á Siglufirði hefur fækkað um 350. Á Ísafirði fækkar dálítið, um 94. Aðalfjölgunin er á Akureyri, 1900, og í Vestmannaeyjum, sem eiginlega tilheyra fiskveiðisvæði suðvestanlands frekast, hefur fjölgunin orðið 1070 og í Neskaupstað 130. Staðreyndin er því, að þar sem fjölgar úti á landsbyggðinni, er það fyrst og fremst á Akureyri. Og það er ekki sjávarútvegurinn, sem veldur þeirri fjölgun, heldur að þarna hefur þróazt iðnaður. Vafalaust er það frumskilyrði fyrir iðnaðinn þar, að höfn er góð. Auk þess er þarna mikil byggð í kring. Þarna hjálpast að mikil byggð, þróaður landbúnaður og góð hafnarskilyrði. Þar hefur því myndazt mikill iðnaður.

Ég hygg, að ef við ætlum að halda fólkinu í kauptúnum og kaupstöðum úti á landi, verðum við að gera meira að því að gera atvinnulífið fjölbreyttara og atvinnuöryggið meira en verið hefur. Það eru þannig ástæður í okkar kjördæmi, Norðurlandskjördæmi vestra, að sjávaraflinn hefur brugðizt, það má segja í 3 missiri, og síldin virðist hafa fært sig austur, verið meira fyrir Austfjörðunum. Þetta hefur valdið því, að atvinna hefur verið takmörkuð í þessum kauptúnum. Eins og ég nefndi áðan, hefur fólkinu fjölgað víðast hvar þar nema á Siglufirði. Við þurfum ekki að fara í neinar grafgötur um, að það, sem veldur því, að fólkinu fækkar á Siglufirði, eru ekki slæm hafnarskilyrði, heldur hitt, að samgöngur til landsins hafa ekki verið eins góðar og skyldi og það hefur ekki verið jafnmikið hlutfallslega um síldarvinnslu þar og áður fyrr.

Það hefur oft verið skrifað um það í blöð, að það væri einhver rígur milli íbúa kaupstaða og sveita. En þetta er mesti misskilningur, að svo eigi að vera eða þurfi að vera. Sannleikurinn er sá, að í þessum efnum eiga þessir aðilar að hjálpa hvor öðrum. Með stækkandi kaupstöðum og kauptúnum eykst markaðurinn fyrir landbúnaðarvörurnar, og sveitafólkið kaupir af íbúum kauptúna og kaupstaða iðnaðarvarning og annað slíkt. Ef við athugum þorpin úti á landi, byggjast þau að mestu leyti á ýmiss konar þjónustu og ýmiss konar vinnu í kringum landbúnaðarafurðirnar. Í öllum kauptúnum, sem eru byggð upp í sveitahéruðum, er meiri og minni iðnaður, sem tilheyrir í raun og veru og er háður bændunum. Svo er t.d. um mjólkuriðnaðinn, vinnslu á kjöti, og svo eru bílflutningarnir, vinna við slátrun og frystingu á kjötinu og annað slíkt, vinna við verzlunina og ótalmargt í kringum þetta allt saman. Þegar verið er að tala um, hve margir lifa á landbúnaði, og bændurnir eru aðeins taldir, þá er það mikill misskilningur. Við getum athugað t.d. kauptúnin hér fyrir austan fjallið. Hér um bil allt þetta fólk lifir svo að segja eingöngu á bændunum, það er þjónusta í kringum framleiðslu bændanna. Ég hygg, að þó að það séu ekki nema 30 þús. manns nú, sem vinna að því að framleiða kjöt og mjólk og aðrar landbúnaðarafurðir, þá séu það engar ýkjur, að það séu 20-30 þús. manns, sem lifa á alls konar þjónustu í kringum þessa framleiðslu.

Það er óskóp mannlegt og eðlilegt, að við, sem úti á landinu búum, óskum þess, að mannfjölgunin í landinu fari ekki öll frá okkur, að nokkuð af henni og helzt öll mannfjölgunin, helzt allt unga fólkið eigi möguleika á því að setjast að í heimabyggðum. Ég skal ekki halda því fram, að það sé ráðlegt að halda hverjum útkjálka í byggð. Það má vel vera að norðurhluti Strandasýslu leggist í eyði að meira eða minna leyti sem landbúnaðarhérað. Það má líka vel vera, að í bili fari meira eða minna í auðn af Barðastrandarsýslu. Fólkið virðist sækja þangað sem þéttbýlið er. En þetta er ekki aðalatriðið. Aðalatriðið er, að í þeim byggðum, sem eru blómlegar og hentug landbúnaðarhéruð, þar verði landið nýtt sem bezt og í þessum héruðum myndist kauptún og kaupstaðir, þar sem fólkið hefur örugga atvinnu. Ég skal játa það, að ég og hv. 2. þm. Norðurl. v., — við höfum átt mikið tal um þetta mál, — við höfðum vitanlega hliðsjón af okkar heimabyggð. Við fórum heim í jólafríinu, og þá báðu bæjarstjórn Sauðárkróks og nefnd. sem þar er skipuð, okkur að koma til viðtals við sig. Við héldum þar fund. Svo fór ég út á Skagaströnd og átti fund með hreppsnefndinni og iðnaðarmönnum þar. Það er mikill áhugi hjá iðnaðarmönnum í þessum kauptúnum, og þeir vilja gera allt, sem þeir geta, til að auka atvinnuna og koma af stað sem fjölbreyttustum iðnaði. En það sem hindrar, er tvennt. Það er takmörkuð tæknileg þekking og fjármagnsskortur. Það má heita, að það sé útilokað fyrir menn utan af landi að fá hér lán í bönkum. Helzt er að flýja í Framkvæmdabankann og í Iðnaðarbankann. En fjármagnið kemur seint, og það er takmarkað. Auk þess er ekki eðlilegt, að menn úti á landi hafi þá tæknimenntun, sem til þarf, nema að mjög takmörkuðu leyti. Við ræddum ýtarlega á þessum stöðum um, hvað helzt væri ráðlegt að gera til þess að auka iðnaðinn og atvinnuöryggið, og það voru eðlilega skiptar skoðanir um það, eins og gerist. Þeim hafði ýmislegt dottið í hug, t.d. á Sauðárkrók. Þeim hafði dottið í hug að reisa blikksmiðju, þeim hafði dottið í hug að fara að búa til rafmagnstöflur o.fl. viðvíkjandi rafmagnsiðnaðinum. En það, sem virtist vera einhugur um að leggja höfuðáherzlu á, var gærusútun. Það eru mikil landbúnaðarhéruð, Húnavatns- og Skagafjarðarsýslur. Þar eru framleiddar líklega um 200 þús. gærur og verða áreiðanlega 200 þús., áður en langt um líður. Það er mikil vinna við gærusútun. En til þess að þetta sé hægt, þarf mikið fjármagn. Nú er það svo, að það er ofur lítið unnið að gærusútun hér. Sveinn Valfells mun hafa flutt út t.d. eitthvað af sútuðum gærum, og eftir því sem ég hef fengið upplýsingar um, var á þeim tíma söltuð gæra 109 kr. virði, en þegar búið var að súta hana, var hún seld á 241 kr., mismunurinn var 132 kr. Nú skal ég ekki fullyrða, — ég er ekki tæknimenntaður maður, eins og þið vitið, — þess vegna vil ég ekki fullyrða neitt um, hver raunverulegur kostnaður hefur verið. Þetta er mál, sem þarf ýtarlega að rannsaka, og það þarf mikla tæknikunnáttu til þess að gera þetta vel. Mér er sagt, að Svíar, Þjóðverjar og Finnar standi einna fremst í sútun á gærum. Ég hef rætt þetta nokkuð við iðnaðarmenn hér á landi og hefur skilizt, að skynsamlegast væri að reyna að fá menn með faglegri þekkingu, erlenda menn, til að stjórna framkvæmdunum.

Nú er það svo með Sambandið, sem mikið hefur unnið að iðnaði, t.d. ullariðnaði á Akureyri, skógerð og ýmsu fleiru, sem tilheyrir landbúnaðarframleiðslunni, og hefur byggt upp sínar höfuðiðnaðarstöðvar á Akureyri og að nokkru leyti hér, SÍS hefur ekki fjármagn til að ráðast í stórfyrirtæki, nema að því sé stuðlað af ríkisvaldinu á einhvern hátt. Nú er það vitanlega ekkert aðalatriði, hver rekur verksmiðju, ef reist yrði, heldur er hitt höfuðatriðið, að það sé byggt upp á heilbrigðum grundvelli, skynsamlega rekið og þeir, sem vinna við þetta, bæði að hráefnaframleiðslunni og eins að iðnaðnum, beri það úr bítum, sem þeim ber, að þeir séu ekki féflettir. Ég álít því, að þarna sé um stórmál að ræða, sem þyrfti að kynna sér frá grunni.

Við leggjum höfuðáherzluna á, að þetta sé vel undirbyggt. Það er betra að hefja ekki framkvæmdir heldur en að þær mistakist, því að öll mistök mynda vonleysi hjá því fálki, sem verður fyrir óhöppunum. Þess vegna þarf að byggja þetta skynsamlega upp. Það þarf bæði tækniþekkingu, og það þarf líka að tryggja þetta fjárhagslega. Nú er það svo, að ríkisvaldið ræður yfir bönkunum, og það má heita útilokað að fá nokkurt verulegt fjármagn, nema ríkisstj. beint eða óbeint stuðli að því.

Í þessum kauptúnum — ég tek sem dæmi okkar svæði — er þegar talsverður iðnaður. Ungir menn eru að reyna að fara af stað með iðnað.

En fjármagnsskorturinn háir þeim. Það eru t.d. ungir menn að byrja á húsgagnaiðnaði á Sauðárkrók, og þeir gætu rekið þetta í miklu stærri stíl, ef þeir fengju fjármagn. Þar er einnig verið að byrja á plastverksmiðju í smáum stíl. Það væri hægt að reka hana í miklu stærri stíl, ef þeir hefðu fjármagn. Á Skagaströnd er þegar byrjað á vélaverkstæði, þar sem hægt er að yfirbyggja bíla, og ég álít, að í kauptúnum úti á landi gæti það verið mjög hentugur iðnaður. Þar er hægt að framkvæma þetta ódýrar en hér. En þessa menn vantar líka fjármagn til þess að geta haft nægilegan lager, nægilega stórt húsrúm og haft menn í vinnu. Það er líka rekið tréverkstæði á Skagaströnd, sem býr til eldhúsinnréttingar og annað slíkt. Þetta er hægt að gera á þessum stöðum fyrir minna fé, en mennina vantar fjármagn til að geta gert þetta.

Ég álít, að við eigum fyrst og fremst að stuðla að því að efla þær iðngreinar, sem fyrir eru og þar sem er nokkur tækniþekking fyrir höndum. Þar næst eigum við að taka bær iðngreinar, sem við álítum hagkvæmast að reka á hverjum stað, og leggja höfuðáherzlu á að byggja þær skynsamlega upp, þannig að þetta gæti orðið hagkvæmt, bæði fyrir þá. sem búa í þessum héruðum, og eins fyrir þjóðfélagið í heild. Skoðun okkar er því , að það sé eðlilegt, að þingið eða ríkisstj. kjósi eða skipi nefnd til þess að athuga þetta gaumgæfilega, í fyrsta lagi, eins og segir í okkar þáltill., að athuga, hvar mest sé þörf vegna atvinnunnar, og í öðru lagi að athuga, hvaða iðngreinar sé hagkvæmast að starfrækja á hverjum stað. Eins og ég nefndi áðan, getur margt komið til greina.

Ullin er nú t.d. eitt af okkar beztu hráefnum. Ég hef átt tal um þetta við Stefán Aðalsteinsson. Við hv. 2. þm. Norðurl. v. áttum tal um þetta við hann. Hann hefur fengið styrk til þess að reyna að aðgreina tog og þel, eins og þm. vita. Hann gerir sér miklar vonir um, að þetta takist. Skoðun hans er, að þelið hjá okkur sé að sumu leyti í vissan fatnað hentugra en Merino-ullin, sem er talin bezta og dýrasta ull í heimi. Hann telur, að okkar þel sé fjaðurmagnaðra og sé hentugra í kvenkápur, barnakápur og annað slíkt. Hann telur togið vera sérstætt að því leyti til, að það sé hentugt að því leyti að það hrindi frá sér óhreinindum, það sé sterkt og þess vegna mjög hentugt í teppi. Hann telur einnig, að finna togið væri mjög hentugt í áklæði á húsgögn. Þetta er allt órannsakað mál, en þarna er mikið verkefni fyrir hendi, og vitanlega er eðlilegt, að við leggjum höfuðáherzlu á að gera okkar hráefni sem verðmætast. Enn fremur hefur Stefán haldið því fram við mig, að það væri mjög álitlegt að setja upp spunavélar til þess að vinna lopa, Íslendingar gætu svo búið til lopapeysur, því að íslenzka ullin væri sérstaklega hentug í það, og í köldum löndum er mikil þörf fyrir hlýjan fatnað að vetrinum. Við verðum að athuga það, að þó að við séum norðarlega á hnettinum, er lítill kuldi hér miðað við í meginlöndunum, eins og í Síberíu og Ameríku og jafnvel í Mið-Evrópu, þar stígur frostið miklu hærra að vetrinum en hér hjá okkur. Skinnin álítur Stefán Aðalsteinsson að megi nota til hanzkagerðar, í skinnstakka og töskur. Allt er þetta iðnaður, sem gæti byggzt á okkar eigin hráefni, og það skulum við athuga, að ef tollum verður aflétt að meira eða minna leyti og við myndum eitthvert samband við EBE og tollmúrinn hrynur, sem við umlykjum okkur með, þá er ekki nema eðlilegt og skynsamlegt að fara þegar að undirbúa þá breytingu, sem hlýtur að verða á okkar iðnaði við þá þróun.

Næsti liður, sem gæti komið til greina, bæði á Norðvesturlandi og víðar, er að vinna meira úr sjávarafurðum. Ég átti tal um daginn við mann, sem er mjög kunnugur útflutningi á síld. Hann segir, að Svíar geri mikið að því að flaka síld, sem þeir kaupa af okkur, — þeir kaupa mjög mikið magn af okkur, — þeir flaki hana í Svíþjóð, þá vanti vinnukraft til að gera þetta, og hann hefur staðið í sambandi við menn í Svíþjóð um það að fara að gera þetta á Íslandi. En það hefur staðið á því, að þeir hafa ekki viljað borga nóg fyrir það. Nú sagði hann mér, að það væru miklar líkur til þess, að það væri hægt að semja við Svía um, að nægileg greiðsla fengist fyrir að gera þetta hér, þá væri hægt að vinna hér meira af síldinni en gert hefur verið og það væri rétt að taka saltsíldina að vetrinum og flaka hana, setja hana aftur í tunnur, þá þarf færri tunnur undir hana, og senda hana þannig unna. Síldin er unnin á margan hátt, og þótt ég nefni þetta dæmi, eru ótal leiðir til að gera síldina verðmætari en hún er, þegar við flytjum hana út, og minni kostnað við að flytja hana líka. Um hrognin má sama segja. Þau eru aðeins söltuð í tunnur, og svo eru þau send út, en úr þessu er unninn kavíar og ýmislegt fleira. Ef iðnaður okkar þróaðist í þá átt að vinna þetta fullkomlegar, þá gæti þannig skapazt mikil vinna í kauptúnum og kaupstöðum úti á landi. Ég nefni þetta aðeins sem dæmi. Með tunnusmíðið er Það þannig, að íslenzku tunnurnar hafa alltaf verið seldar í kringum 40 kr. dýrar en norsku tunnurnar, en ég hef tekið eftir því í landsreikningunum, raunar eru það ekki svo nákvæmir reikningar, sem við fáum yfir þessi fyrirtæki, að við getum fullyrt neitt um, hvernig þau hafa borið sig, en mér hefur virzt, að t.d. tunnuverksmiðjan á Siglufirði hafi getað svarað afskriftum og jafnvel skilað hagnaði. Aftur hefur það borið sig verr, að því er virðist, á Akureyri. En nú er það svo með þetta blessað ríki, að það hefur ánægju af því og vilja til að snuða viðskiptamennina ekki síður en einstaklingarnir. T.d. virðast ríkisverksmiðjurnar vera ánægðastar með að borga sem minnst fyrir síldina, sem notuð er í bræðslu, og tunnuverksmiðjan virðist hafa mikinn áhuga á að selja tunnurnar það dýrt, að þar sé frekar um afgang að ræða.

Nú er brunnin verksmiðjan á Siglufirði, og mér hefur dottið í hug, að hagkvæmt mundi vera að byggja t.d. helmingi stærri tunnuverksmiðju á Siglufirði en var, þannig að hún geti veitt allt að því 100 mönnum vinnu. Ég held endilega, að ef verksmiðjan stækkar, væri hægt að reka hana ódýrar en hafa verksmiðjurnar í fleiri stöðum og minni. Og þó að vinna væri fyrir 100 menn í tunnuverksmiðjunni á Siglufirði, þá er ekki víst, að yrðu framleiddar þar fleiri tunnur en þyrfti þar að nota, svo að um flutningskostnað yrði ekki að ræða.

Á Skagaströnd er mikill áhugi fyrir að reisa tunnuverksmiðju. Það eru vissir menn þar, sem hafa haldið því mjög fram, að það væri hyggilegast. Ég hef sagt þeim, að ég hefði takmarkaða trú á slíku, því að ég álít, að það sé ekki hægt að fá nægilega marga menn til þess að vinna í tunnuverksmiðju þar, til þess að hún geti borið sig. Hins vegar gæti verið þar um ýmsar minni iðngreinar að ræða, eins og t.d. yfirbyggingu bíla og að flaka síld og ýmislegt fleira. Sannleikurinn er sá, að það væri vegur, ef vilji er fyrir hendi, að flytja síld í tunnum fyrir tiltölulega lítið verð, því að bátar í þessum kauptúnum, þar sem á að vinna síldina, gætu undir vissum kringumstæðum, ef einhver samtök yrðu um það, flutt þessa síld fyrir tiltölulega lítið verð og reynt að spara framskipun og uppskipun, eftir því sem unnt væri. Það er ótalmargt, sem gæti komið til greina.

Svo er skipasmíði. Ég álít, að Sauðárkrókur henti mjög vel til skipasmíða. Sannleikurinn er sá um okkar skipasmíðastöðvar nú, að Þær eru ekki samkeppnishæfar, og það er í rauninni eðlilegt. Þær skortir fjármagn. Það rekstrarfé, sem þær hafa verið með, er með háum vöxtum. Sennilega skortir líka nægilega tækniþjálfaða menn og ýmislegt fleira. En hitt er annað mál, að ég er sannfærður um, að með minni báta ættum við að geta verið samkeppnishæfir og e.t.v. með stærri skip, þegar tímar líða. Við skulum athuga það, að úti á landsbyggðinni er búið að byggja íbúðarhús. Víða eru þar góð skilyrði. Grunnarnir eru ódýrir, og ég get nefnt sem dæmi á Sauðárkrók, þar eru alveg óvenjulega hentug hússtæði. Þar er sjávarmöl, og grunnar eru miklu ódýrari þar en í flestum öðrum stöðum. Þeir hafa líka heitt vatn, sem væri mjög hentugt við ullariðnað og sútun o.fl. Þarna er tiltölulega ódýrt að búa hvað snertir húsnæði og upphitun húsa. Það er atriði út af fyrir sig, að við getum rekið ýmsar iðngreinar ódýrar þar en hér í fjölmenninu.

Þriðja atriðið er að leggja áherzlu á iðngreinar, þar sem við framleiðum ekki hráefnið, en þurfum að nota iðnaðarvörurnar. Má þar t.d. nefna það, sem er verðmætast, en það eru veiðarfæri. Þeir eru byrjaðir í Hafnarfirði að framleiða dálítið af önglum. Það er ekki reynsla komin á, hvernig það gengur. Vafalaust getur bað gengið mjög sæmilega, hvort sem þeir verða ódýrari en aðrir. Næst eru net og nætur. Mundi þá sennilega vera byrjað á netunum, því að þau eru einfaldari, minni vandi að búa þau til. Nú er það svo, að Norðmenn framleiða ekki hráefnið í þetta, og þeir fóru að framteiða sín net sjálfir og sínar nætur og borguðu niður hráefnið til þess að hjálpa þessari iðngrein af stað, og þeir hindruðu innflutning á þessu, eftir því sem þeir sáu ástæðu til. Ég held því ekki fram, og ég tel ekkert vit í því, af því að sjávarútvegurinn er það þýðingarmikill hér á landi og hefur svo mikla þörf fyrir að fá sín veiðarfæri og annað með sem lægstu verði, að ég held því ekki fram, að við getum bannað innflutning á svona hlutum með það fyrir augum, að hægt sé að selja það fyrir hærra verð hér. En hitt gefur auga leið, að úr því að Norðmenn eru komnir inn á það að framleiða sín net og sínar nætur að mestu leyti sjálfir, þá ættum við í framtíðinni að geta framleitt a.m.k. þorskanetin, hvað sem nótunum liður, áður en langt um líður. Ég nefni þetta sem dæmi um, að það eru ótal leiðir, sem hægt er að fara í þessum iðnaðarmálum. Ég drep í grg. á allmörg atriði, en iðngreinarnar eru svo margar, að það er ástæðulaust í raun og veru fyrir mig að vera að telja þær upp hér í ræðu. En það, sem við leggjum höfuðáherzlu á, er, að eitthvað sé gert í þessum málum.

Þess vegna leggjum við til, að ríkisstj. skipi þrjá menn í nefnd, sem séu fagmenn, og þingið kjósi tvo. Hugmynd okkar er sú, að þeir, sem verða kosnir af þinginu, yrðu fyrst og fremst sem fulltrúar fólksins, en hinir leggi til hina fræðilegu þekkingu. Það heldur því ef til vill einhver fram, að rétt væri, að þingið kysi alla þessa menn. En mér hefur virzt ráða úrslitum, þegar þingið er að kjósa í nefndir, að þá sé oft farið eftir því, að menn hafi þörf fyrir að fá aura fyrir starf sitt eða komi sér vel við flokksstjórnir, en ekki það, að þeir hafi betra vit á hlutunum en aðrir. En í þessari nefnd, sem ætti að starfa í iðnaðarmálum og að nokkru leyti í skipulagsmálum fyrir landsbyggðina í heild, yrði að minnsta kosti m.a. að hafa faglega þekkingu. Það er ekkert aukaatriði, hvort við byggjum okkar iðnað upp á skynsamlegum grundvelli, bæði hvað snertir dreifingu hans út um landið og tæknihliðina, eða menn séu að flana í þetta án tæknikunnáttu og án þess að hafa tryggt fjármagn til þess að geta rekið fyrirtækin á heilbrigðan hátt og án tillits til þess, hvort hagkvæmt er að staðsetja þau í þessum eða hinum staðnum.

Ég veit, að það er víðar þörf fyrir aukinn iðnað úti á landsbyggðinni en í Norðurlandskjördæmi vestra. Ég benti t.d. hv. 5. Þm. Vesturl. á það, að Stykkishólmur hefði þörf fyrir iðnað. Hann liggur innarlega, og við verðum að gera okkur það ljóst, að bæir eins og Sauðárkrókur og Blönduós og Stykkishólmur liggja innarlega í fjörðunum, og það verður aldrei jafngóð aðstaða til sjávarútvegs í bæjum, sem 1iggja innarlega í fjörðum, eins og þeim, sem liggja úti á annesjum, liggja vel við úthafinu. Annað er það, að fiskur í innfjörðum er yfirleitt lakari, hann er smærri og ormameiri en úthafsfiskurinn. Þess vegna verður aðstaða þeirra kauptúna alltaf lakari hvað sjávarútveg snertir. Ég ætla ekki að fara að telja upp bæi í kringum allt land, sem hafa þörf fyrir aukinn iðnað, það er vafataust misjafnlega mikil þörf nú, en það getur verið breytilegt, því að við vitum, að síldargöngur geta verið breytilegar og þó að t.d. Austfirðirnir hafi haft mikla atvinnu undanfarin ár, er ekki víst, að svo verði alltaf. Till, okkar er því ekki bundin við neitt einstakt kjördæmi, heldur landið í heild. Ég taldi hyggilegra og í raun og veru sjálfsagt að láta þá athugun fara fram á landinu í heild og n. yrði þá að virða það, hvar mest væri þörfin og hagkvæmast að byrja, ef hún yrði skipuð.

Ég vildi ekki taka þetta mál flokkslega, því að við þekkjum allir andann hér í þessari virðulegu samkomu, að það er eins og allir flokkar séu á nálum um það, að hinn flokkurinn geti unnið atkv., ef eitthvert mikilvægt mál kemst fram. Ég fékk því hv. 2. þm. Norðurl. v. til að flytja þessa till. með mér og hv. 5 þm. Vesturl. Það er þá einn maður úr hverjum flokki, þannig að enginn flokkur ætti sérstaklega að geta hagnazt atkvæðalega, þó að eitthvað yrði gert að gagni í þessum málum. Ég álit það þýðingarmikið mál fyrir byggðirnar úti á landinu, að þegar sé hafizt handa að efla atvinnuna og tryggja atvinnuöryggið, svo að fólkið, sem vex þar upp, geti að meira eða minna leyti haldið áfram að búa þar, og ég vildi ekki gera þetta mál pólitískt. Ég er ekki í vafa um, að þetta er stórmál, og ég vona, að þingið taki skynsamlega á því og ríkisstj. hrindi því í framkvæmd sem allra fyrst, því að það má ekki bíða. Ástandið er þannig víða á landsbyggðinni og m.a. í okkar kjördæmi, að ef ekkert verður gert til að auka og tryggja atvinnulífið í kauptúnunum og kaupstöðunum, flytur meira og minna af fólkinu í burtu. Það sýnir sig t.d. á Siglufirði, þar hefur fækkað um 350 manns nú síðasta áratuginn. Á Sauðárkrók hefur fólkinu fjölgað þrátt fyrir takmarkaða atvinnu, og Það sýnir sig þess vegna, að í Skagafirðinum vill fólkið vera, ef það aðeins getur verið þar, enda elska Skagfirðingar sína heimabyggð og una þar vel, ef þeim er gert kleift að búa þar.