15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 124 í D-deild Alþingistíðinda. (2503)

211. mál, vegáætlun 1964

Landbrh. (Ingólfur Jónsson):

Herra forseti. Það er nú ekki ýkjamargt, sem ég þarf að ræða í tilefni af ræðum þeirra tveggja hv. þm., sem hafa talað, eftir að ég lauk minni framsöguræðu.

Hv. 1. þm. Austf. minntist á það, að hann saknaði þess, að það væri ekkert í sambandi við þessa till. varðandi lánsfé og framkvæmdir, sem unnar væru fyrir lánsfé, og það var nú ekki meiningin, við höfðum ekki skilið það svo, sem með samgöngumálin förum, að það ætti að koma fram í þessari áætlun, heldur einungis þau verk, sem tekjur samkv. þessari áætlun eiga að fara í. Hins vegar liggur það vitanlega í augum uppi, að einhvers staðar verður það að koma fram fyrir augu þingmanna, hvaða framkvæmdir á að vinna fyrir lánsfé, t.d. Reykjanesbrautin, Strákavegurinn og Ennisvegurinn, sem lokið var við á s.l. ári. Vegamálastjóri mun senda grg. til hv. fjvn. um þetta og gera grein fyrir því um þær framkvæmdir, sem fyrirhugað er að vinna að eftir framkvæmdaáætlun ríkisstj., hvernig ætlað er að vinna samkv. þeirri áætlun og afla fjár í því skyni. Og það hefur aldrei verið meiningin að taka af tekjum þessarar vegáætlunar til þess að framkvæma verk eins og Reykjanesbrautina og ekki heldur Strákaveginn. Til þeirra framkvæmda verður að taka lán, og það mun verða gerð grein fyrir því á öðrum vettvangi.

Hv. 5. þm. Austf. flutti hér ræðu, sem mér kom dálítið einkennilega fyrir eyru, því að hann vildi gefa í skyn, að það hefði ekki verið staðið við þau fyrirheit, sem gefin voru, þegar gengið var frá vegalögunum fyrir jólin í vetur. Þetta er vitanlega alveg fráleitt, að halda slíku fram, því að ríkisstj. eða vegamálastjórnin hefur á engan hátt brugðizt því fyrirheiti. Það er í fjárl. sú upphæð, 47.1 .millj. kr., sem heitið var þá, og út frá því hefur ekki verið brugðið. Og það er rúmi. 100 millj. kr. meira fé til ráðstöfunar vegamálanna 1964 heldur en var á fjárlögum fyrir árið 1963. Þetta kemur allt heim og saman við það, sem talað var um, þegar verið var að afgreiða vegalögin. Og mér dettur ekki í hug að ætla það, að hv. þm. hafi vísvitandi viljað halda þessu fram og bera það á vegamálastjórnina, að hér hafi eitthvað verið út af brugðið. Hér hlýtur að vera um einhvern misskilning að ræða hjá hv. þm. Það getur ekki verið annað.

Hv. þm. gerði að umtalsefni lánin, sem hefðu verið tekin á s.l. ári til margs konar framkvæmda, til þess að hrinda verkum áfram í hinum ýmsu kjördæmum, og leggur þessi lán við fjárveitingarnar, og þegar hann hefur lagt lánin við fjárveitingarnar, sem eru á fjárlögunum, þá kemst hann að raun um, að þetta er allhá upphæð og miðað við það sé nú um óverulega hækkun að ræða samkv. vegáætluninni. Þetta gat nú staðizt að nokkru leyti, ef ekki hefði verið tekið lán til vegaframkvæmdanna fyrr en á árinu 1963. En hv. 5. þm. Austf. gleymdi að geta þess, hversu há upphæð af fjárlagafénu 1963 var notuð til þess að greiða skuldir, sem stofnað var til á árinu 1962. Og þegar hv. þm. gerir sér grein fyrir því, að veruleg upphæð af fjárlagafénu 1963 var notuð til þess að greiða skuldir frá árinu 1962, þá kemst hv. þm. að raun um Það, að sú upphæð, sem hann nefndi að hefði verið til ráðstöfunar 1963, til framkvæmda það ár, er miklu lægri. Það var ekki byrjað á að taka lán til vegaframkvæmda 1963. Þetta hefur tíðkazt í mörg, mörg undanfarin ár. Ég held, að petta hafi tíðkazt síðan ég kom á þing, fyrir 22 árum, en misjafnlega mikið á hverju ári, og það er rétt, sem sagt var hér í dag, að þetta hefur farið í krónutölu vaxandi með hverju ári undanfarið.

Ég er sannfærður um Það, að hv. 5. þm. Austf. hefur flutt þessar staðhæfingar hér í dag að lítt athuguðu máli, og þegar hann reiknar dæmið til enda, Þá sér hann, að fullyrðingar hans geta ekki staðizt. Það var ekki á árinu 1963 unnið fyrir fjárlagaféð og lánin, heldur var unnið fyrir það, sem afgangs var, eftir að búið var að greiða það, sem tekið var að láni 1962. Ég hef það ekki hér fyrir framan mig, hvað þetta var mikið, en það man ég, að þessi lán voru allhá 1962, skiptu mörgum milljónum og voru áreiðanlega hátt á 2. tug milljóna til brúa og vega.

Ég ætla nú, að þegar hv. þm. gerir sér grein fyrir Þessu, hætti hann að fullyrða, að það hafi eitthvað brugðizt af þeim fyrirheitum, sem gefin voru í vetur við afgreiðslu vegalaganna. Það er nú eins og þá rúmlega 100 millj. kr. meira til ráðstöfunar en var samkvæmt fjárlógum 1963. Það eru 47.1 millj. kr. greiddar úr ríkissjóði til framkvæmdanna, eins og talað var um, þegar við vorum að afgreiða fjárlögin.

Hv. þm. talar um, að það hefði verið unnt að leggja eitthvað meira fram úr ríkissjóði en var á fjárlögum. Og það má geta þess, að það voru greiddar úr ríkissjóði fram yfir fjárlög til vegaviðhaldsins 4 millj. kr., eins og ég tók fram í dag, en það voru ekki miklar upphæðir að öðru leyti, sem ríkissjóður greiddi fram yfir fjárlög til þessara framkvæmda.

Hv. þm. talaði um, að það væri eðlilegt, og reyndar sagði hann, að Það væri sjálfsagt, að ríkissjóður greiddi bráðabirgðalán, sem ýmsir hreppar og héruð hefðu tekið til framkvæmda á s.l. ári. Það væri ekki réttmætt að taka fé, sem úthlutað væri úr vegáætluninni til ýmissa héraða, til þess að greiða þessar skuldir. Ég er hræddur um, að það verði erfitt að skapa réttlæti með því að greiða þetta úr ríkissjóði, því að eitt er víst, að hin ýmsu kjördæmi létu undir höfuð leggjast að stofna til skulda, að taka lán á s.l. ári til vegaframkvæmda, ekki af því, að það væri ekki brýn þörf á slíkum framkvæmdum í kjördæminu, heldur var þetta látið ógert, og kannske er það vegna þess, hversu þm. hafa verið misjafnlega mikið aðgangsharðir og duglegir við lántökurnar. Sumir þm. hafa e.t.v. haft möguleika til útvegunar á lánum, sem aðrir höfðu ekki. Ég spyr nú: Fyndist mönnum það réttlátt, að þeir, sem tóku mest af lánum í fyrra, fengju það nú greitt úr ríkissjóði og úthlutað af hinu almenna vegafé samkv. áætlun eftir sem áður, en þeir, sem tóku ekki lán í fyrra, þótt brýn þörf væri fyrir framkvæmdir, ættu að gjalda þess og fá miklu minna fé í ár vegna framkvæmda heldur en hinir, sem tóku lánin í fyrra? Ég býst við, að hv. 5. þm. Austf. sjái, þegar hann fer að hugsa um þessa fullyrðingu, að hún getur ekki staðizt og er engan veginn réttlát. Ef ástæður væru fyrir hendi að auka framlag ríkissjóðs til vegaframkvæmda, þá ætti vitanlega sú greiðsla að koma inn í vegáætlunina, svo að það yrði meira til þess að skipta upp til hinna ýmsu kjördæma og ýmsu framkvæmda um landið, en sú aukagreiðsla, ef til kæmi, ætti ekki að koma sem verðlaun til þeirra, sem tóku lán í fyrra, eða verka sem refsivöndur á þá, sem tóku ekki lán.

Nú geri ég ráð fyrir því, og ég held, að það sé rétt að taka það hreinlega fram hér, að ég geri ekki ráð fyrir því, að í þetta sinn sé til nokkurs hlutar að fara fram á aukafjárveitingu til vegaframkvæmda á þess u ári. Það er langt liðið á árið, og fjárlög voru afgreidd fyrir áramót, eins og hv. þm. vita, og ég geri ráð fyrir því, að hv. þm. verði að bíða til haustsins með frekari kröfur á ríkissjóð til vegaframkvæmda en orðið er nú. Þá er vitanlega öllum hv. þm. frjálst að koma með brtt. og frekari kröfur á ríkissjóð, og þá með afgreiðslu fjárlaganna verður tekið til athugunar, að hve miklu leyti verður hægt að verða við því að hækka þá fjárupphæð, sem ríkissjóður greiðir í þessu skyni.

Að öðru leyti tel ég ekki ástæðu til að fara fleiri orðum um þetta. Þetta voru smávegis athugasemdir í tilefni af því, sem hér var sagt í dag, og ég fagna því, að báðir þeir ræðumenn, sem til máls tóku, vilja stuðla að því, að málið komist sem fyrst til n., því að það er enginn vafi á því, að nefndarinnar, sem fær þetta mál, bíður mikið starf, og það er nauðsynlegt, að hún fái málið sem fyrst til meðferðar.