15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 129 í D-deild Alþingistíðinda. (2506)

211. mál, vegáætlun 1964

Lúðvík Jósefsson:

Það eru hér nokkur orð í tilefni af því , sem hæstv. samgmrh, sagði hér. Fyrst vík ég þá að ummælum hans, Þeim sem hv. 1. þm. Austf. var nú að ljúka við að ræða um, en það kemur einmitt inn á meginatriði þess, sem ég vildi ræða hér um að öðru leyti af því, sem hæstv. ráðh. talaði um.

Hæstv. samgmrh. sagði, að ætlunin væri ekki að greina hér í vegáætluninni frá hugsanlegum lántökum og vegaframkvæmdum í þeim efnum. En ég vil í þeim efnum upplýsa það, að þetta kemur alveg þvert gegn þeim upplýsingum, sem mér voru gefnar, þegar vegalögin voru sett. Þá átti ég kost á því að mæta hjá þeim nefndum, sem þá höfðu með undirbúning málsins hér að gera, og þá bar þetta einmitt sérstaklega á góma, hvernig gert væri ráð fyrir að haga einmitt lántökum og vegaframkvæmdum fyrir lánsfé til meiri háttar framkvæmda. Og ég einmitt spurði sérstaklega um það í nefndum þeim, sem höfðu málið til athugunar, hvort ekki væri þörf á að taka upp sérstök ákvæði um þetta. Ég fékk þá þau svör alveg skýr og greinileg hjá þeim, sem höfðu unnið að undirbúningi málsins, að þannig bæri einmitt að skilja 10. gr. 1., að í vegáætluninni ætti að telja upp allar vegaframkvæmdir, sem ráðgerðar væru á tímabilinu, eins og er í rauninni alveg greinilegt samkv. þessari grein, orðalagi greinarinnar, þar sem segir: ,.En hins vegar þeirri fjáröflun, sem gert er ráð fyrir vegna þeirra“ — að þar sem talað er um að gera grein fyrir fjáröflun, þá ætti það jöfnum höndum við þá föstu tekjustofna, sem byggt væri á, og þær lántökur, sem þyrfti að byggja á í sambandi við framkvæmdir. Sem sagt, um þetta atriði voru gefnar alveg skýlausar yfirlýsingar í þeirri nefnd, sem fjallaði um málið, að svona væri þessu háttað. En nú segir hæstv. ráðh., að hans hugmynd sé, að um þær framkvæmdir, sem hægt yrði að ráðast í fyrir lánsfé, eigi að fjalla alveg sérstaklega. Þetta fær ekki staðizt, miðað við það, sem upplýsingar voru gefnar um á sínum tíma, þegar málið lá hér fyrir til afgreiðslu í þinginu.

Hæstv. ráðh. ræddi svo nokkuð um það, að ég hefði í rauninni látið orð liggja að því, að vegamálastjórnin væri með þessari vegáætlun, eins og hún væri nú lögð fyrir, að bregðast þeim fyrirheitum, sem gefin voru í sambandi við samþykkt vegalaganna og þá nýju fjáröflun, sem þá var samþykkt til vega- og brúargerða. Það er rangt skilið hjá hæstv. ráðh., að ég hafi deilt á vegamálastjórnina fyrir það, að hún hafi brugðizt í þessum efnum. Það, sem ég sagði varðandi þetta atriði, var, að ég teldi, að ef svo færi við afgreiðslu þessa máls, að ekki yrði varið 100 millj. kr. eða þar um bil nú á þessu ári umfram það, sem áður hefði verið varið til framkvæmda, þannig að framkvæmdirnar yrðu sem þessu næmi meiri nú en áður, þá væru það raunverulega brigður á því, sem lofað hefði verið. Og ég skýrði þetta nokkuð frekar með því, að þó að þessum 100 millj. kr., sem nú er aflað umfram það, sem áður var, til þessara mála, yrði nú að mestu leyti varið til þess að greiða upp gamlar skuldir, en sem sagt ekki til þess að auka framkvæmdir, þá hefði það ekki verið sú skýring, sem gefin var, þegar var verið að leggja á þessi nýju gjöld. Því var bæði beinlínis og óbeinlínis heitið, að hér skyldi verða um tilsvarandi meiri framkvæmdir að ræða en áður var. En þá vildi hæstv. ráðh. gera lítið úr því, — þar sem nú væri ætlað að verja 100 millj. kr. meiri upphæð en áður var til vega- og brúargerða, þá vildi hann gera heldur lítið úr því, að þetta ætti í raun og veru að ganga til greiðslu á gömlum skuldum eða umframgreiðslum hjá ríkissjóði, sem orðið hefðu við vegaframkvæmdirnar, — Þá vildi hæstv. ráðh. gera heldur lítið úr því, að þetta mundi verða svona. En það, sem ég hafði fyrir mér í þessum efnum, var beinlínis orðalag þeirra fskj., sem fylgja með þessari þáltill. Þar er ekki talað neinni tæpitungu í þessum efnum. Hæstv. ráðh. hlýtur að hafa veitt því athygli, að þar sem gerð er grein fyrir því í grg. till., hvernig t.d. 23 millj. kr. skuli verða varið til svonefndra þjóðbrauta, þá segir í grg.: „Fjárveiting í ár að upphæð 23 millj. kr. mundi skiptast þannig.“ Og síðan er beinlínis upp talið: „1) Til greiðslu vaxta og afborgana af föstum lánum samkv. framkvæmdaáætlun 1963 4 millj. 685 þús. kr. 2) Til greiðslu bráðabirgðalána: a) Fyrirframgreiðslur úr ríkissjóði 1 millj. 450 þús. b) Bráðabirgðalán úr héraði 5 millj. 150 þús. Samanlagt 6 millj. 600 þús. 3) Til nýrra framkvæmda i ár 11 millj. 715 þús.“ Þetta er sem sagt nákvæmlega eins og ég greindi frá því. Hér er bara sagt alveg fullum hálsi, að þannig verði þessu fé varið á þessu ári. Ég dró svo þá ályktun af þessu, að ef ætti að haga þessu á annan veg en þarna væri til greint, þá yrði vitanlega að gera ráð fyrir nýjum lántökum, sem kæmu þá í greiðslur upp í eldri lánin, svo að hægt væri að halda áfram einhverri aukningu í framkvæmdunum.

Sams konar orðalag er um hina leiðina. Varðandi fjárveitingu til landsbrauta segir alveg á sama hátt: „Fjárveiting í ár að upphæð 24 millj. 595 þús. kr. mundi skiptast þannig.“ Og þegar búið er svo að ráðstafa upp í fyrirframgreiðslur og áður tekin lán 15 millj. 200 þús. kr., þá stendur í þessari grein: „Til nýrra framkvæmda 9 millj. 395 þús.” En jafnframt er greint frá því, að til sams konar framkvæmda hafi árið 1963 verið varið 18 millj. 440 þús. kr. Þá reynir hæstv. ráðh. að smeygja sér út úr þessu með því, að ég hafi misreiknað mig í þessum samanburði með því að halda, að öll fjárveitingin árið 1963 hafi farið til framkvæmda, en það hafi áður verið búið að taka lán og af því hafi farið allmikið af fjárveitingu ársins til þess að greiða þetta erlenda lán, en verður þó að viðurkenna í næstu setningu á eftir, að lántökurnar hafi alltaf farið hækkandi frá ári til árs, m.ö.o. að lántökurnar árið 1963 voru meiri en lántökurnar á undan. Það fór því beinlínis til framkvæmda minna en það, sem áætlað var á fjárlögum. Það er sannleikur málsins. Aðeins með þeim hætti getur þetta orðið, þegar lántökurnar fara hækkandi. Nú er því spurningin um það, eins og ég greindi frá, og hér þarf því að koma fram, að það standi til að taka ný lán, a.m.k. jafnmikil og þau lán voru, sem tekin höfðu verið áður, ef ekki á beinlínis að draga saman framkvæmdirnar frá því, sem áður var. Ég er ekki að segja og hef ekki sagt hér í þessum umr., að vegamálastjórnin sé að svíkja þau loforð, sem hér voru gefin, en ég mundi hiklaust segja, að það væri verið að svíkja þetta, ef svona yrði farið með framkvæmdina, eins og þetta bendir til. Ég vona, að það verði ekki, og ég hafði skilið hæstv. ráðh. þannig, að hans meining væri sú að haga þessu á annan hátt, að reyna að koma því þannig fyrir, að það yrðu tekin ný lán. En þá tel ég, að það vanti algerlega ákvæði um það inn í ályktunina, sbr. þær upplýsingar, sem mér voru gefnar og fleirum um það, hvernig ætti að semja vegáætlunina fyrir hvert tímabil og gera þar grein fyrir öllum framkvæmdum á tímabilinu og allri fjáröflun til framkvæmdanna. Ég vil nú eins og áður leggja á þetta höfuðáherzlu, að það, sem skiptir máli í þessum efnum, er, að þeir nýju skattar, sem voru lagðir á umferðina í landinu með mjög víðtæku samkomulagi hér á Alþingi og voru lagðir á með þeim yfirlýsingum, að nú ætti að gera stærra átak til framkvæmda í vegamálum en gert hefði verið til þessa, — ég legg áherzlu á það, að þessi upphæð skili sér nú þegar á þessu ári í auknum framkvæmdum, en að þetta aukna fjármagn gangi ekki til þess að borga upp gamla skuldahala, sem myndazt hafa. Það tel ég að ganga verulega á snið við það, sem bæði beint og óbeint var lofað í þessum efnum. Sem sagt, aðalatriði málsins er, að það verði unnið í landinu að vega- og brúamálum fyrir um það bil 100 millj. kr. hærri fjárhæð en unnið var t.d. að meðaltali árin 1962 og 1963, eins og ég sagði hér fyrr í þessum umr. Það er aðalatriðið. Hitt er ekki í mínum augum aðalatriðið, hvort það er varið 100 millj. kr. hærri upphæð en áður var til vega- og brúamála og að mjög verulegur hluti upphæðarinnar gangi, eins og ég sagði, til þess að borga vissar umframgreiðslur úr ríkissjóði eða borga upp eldri lán.

Þá sagði hæstv. samgmrh., að sú ábending mín að fara þá leið, að ríkissjóður ætti hreinlega að taka á sig, vegna þess að við vitum nú, að hann hefur fyllilega fjárhagsgetu til þess, þær upphæðir, sem hann er búinn að láta til vega- og brúargerða í landinu umfram beinar fjárveitingar, þ.e. umframgreiðslur, — að ríkissjóður ætti að taka þetta á sig án þess að fara að klípa þetta af þeim tekjum, sem hér er gert ráð fyrir að gangi til brúa- og vegaframkvæmda í landinu, — þá vildi hæstv. ráðh. telja, að þetta væri í rauninni alveg óframkvæmanlegt, eins og einnig að gera þá ráðstöfun, að ríkissjóður sjálfur tæki á sig að greiða upp þau bráðabirgðalán til vegaframkvæmda, sem tekin hafa verið í einstökum héruðum, vegna þess að ef ríkið gerði þetta, þá væri hinum ýmsu aðilum í landinu svo herfilega mismunað. Vitanlega er engin þörf á að mismuna neinum í landinu, þó að þessi háttur verði á hafður. Þeir hafa þá unnið fram að þessu fyrir allmiklu hærri fjárhæð en þeim hafði verið úthlutað á fjárlögum, en þá er vitanlega ekkert annað en taka tillit til þess við næstu úthlutanir. Það er allur vandinn, og það er vitanlega það eðlilega,— en ekki, eins og hæstv, ráðh. bætti við, að úthluta þeim síðan eftir sem áður. Aldrei hef ég látið slík orð falla. Það var það, sem hæstv. ráðh. bjó sjálfur til í þessum efnum, en slíkt kom mér vitanlega ekki til hugar. En ekki ætla ég, að aðrir þeir, sem ekki hafa treyst sér — til þess að taka lán til vegaframkvæmda eða brúargerða og þannig hafa ekki haft eins mikinn hraða á framkvæmdum og hinir, verði miklu bættari, þó að tekið verði af

því fé, sem nú er fastur tekjustofn til brúa og vegaframkvæmda í landinu, upphæð til þess að borga þessar lánaskuldir, sem vitanlega verður til þess, að minna verður eftir til skiptanna, og kemur þetta niður á hinum, sem ekki hafa ráðizt í það að taka þessi lán. Sú aðferðin, sem er beinlínis gert ráð fyrir að fara með grg. þessarar till., mundi einmitt koma mjög ósanngjarnlega niður, því að hún mundi beinlínis bitna, ef ekki yrði tekið tillit sérstaklega til þess við úthlutunina, þá mundi hún auðvitað bitna einnig á þeim, sem hafa farið nákvæmlega eftir fjárveitingu.

Nei, það er staðreynd, sem liggur fyrir, að það hefur verið á undanförnum árum unnið fyrir nokkru meiri fjárhæð úr ríkissjóði en ráðgert hafði verið á fjárlögum og þannig hefur myndazt bráðabirgðaskuld vegagerðarinnar við ríkissjóð. Þessa upphæð álít ég að ríkið eigi nú að leggja fram sem aukaframlag, en innheimta ekki af þessum tekjum, sem hér eru nú til skiptanna í þessum efnum, og ég álít, að hitt væri einnig eðlilegt, að ríkissjóður tæki að sér að greiða þessi bráðabirgðalán, sem tekin hafa verið vegna framkvæmda í hinum ýmsu héruðum, en það yrði ekki gengið inn á þessa tekjustofna, sem hér eru til skipta nú samkv. vegáætluninni, til þess að borga slík lán. Ég sem sagt endurtek þetta sem skoðun mína, því að ég álít, að þetta sé undirstaðan undir það, að hægt sé að vænta þess, að hér geti orðið um að ræða auknar framkvæmdir í þessum málum í hlutfalli við það, sem menn hafa gert sér vonir um miðað við þau hækkuðu gjöld, sem hér voru samþykkt á umferðina.

Ég þarf svo í rauninni ekki að lengja þetta mál meira, en undirstrika aðeins, að það, sem ég sagði hér viðvíkjandi því, hvernig ráðgert er að verja tekjum til vegaframkvæmda, var beinlínis miðað við það, sem segir í grg. till., og að verulegu leyti orðrétt tekið upp af mér upp úr grg. till., svo að hæstv. ráðh. má ekki koma það neitt á óvart, þó að í þetta sé vitnað, Því að þarna er gerð till. beinlínis um að haga framkvæmdinni á þennan hátt.