15.04.1964
Sameinað þing: 64. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 139 í D-deild Alþingistíðinda. (2510)

211. mál, vegáætlun 1964

Skúli Guðmundsson:

Herra forseti. Ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svarið við fsp. minni um Strákaveginn, þó að það, sem hann hafði um það að segja, séu ekki gleðitíðindi. Hann segir, að ekki hafi farið fram fullnægjandi athugun á berglögum í fjallinu og þeim athugunum þurfi að ljúka, áður en hægt sé að hefjast handa um að gera jarðgöngin.

Hæstv. ráðh. segist ekki geta fullyrt um, hvort hægt muni að ljúka verkinu á þeim tíma, sem lofað var í fyrra, og hann segir, að tafir, sem verða kunna, séu ekki stjórnarvöldum að kenna, það sé fyrir það, að jarðfræðilegum athugunum sé ekki lokið.

Senn eru liðin 5 ár, síðan byrjað var á jarðgöngum í Strákafjalli í tilraunaskyni, og ég verð að líta svo á, að fullnægjandi rannsóknum, sem nauðsynlegar voru, til þess að hægt væri að halda verkinu áfram, hefði mátt ljúka á þeim tíma, sem síðan er liðinn, og auðvitað átti hæstv. ríkisstj. að hlutast til um, að rannsóknirnar væru framkvæmdar.

Siglfirðingar verða vonsviknir og mjög óánægðir, sem vonlegt er, ef ekki verður unnt að standa við fyrirheitið um að ljúka vegargerðinni sumarið 1965. Ég vil því skora á hæstv. ríkisstj. að gera allt, sem í hennar valdi stendur, til þess að verkinu verði lokið á þessum tíma.