08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 164 í D-deild Alþingistíðinda. (2524)

211. mál, vegáætlun 1964

Einar Ingimundarson:

Herra forseti. Það eru aðeins örfá orð, sem ég ætlaði að segja í tilefni af þeirri ræðu, sem hv. 5. landsk. þm. (RA) flutti hér áðan út af Strákavegi. Mest af hans ræðu snerist nú raunar upp í hnútukast og persónulegar skammir á hæstv. samgmrh. Ég ætla ekki að fara að elta ólar við þær skammir, enda veit ég, að hæstv. ráðh. mun svara því hér á eftir, sem hann telur svaravert af því, sem fram kom í ræðu hv. þm. En þess vil ég Þó geta, að það var ekki hæstv. samgmrh., sem gerði vinnuáætlunina um framkvæmd jarðgangagerðarinnar fyrir Stráka, en þessi vinnuáætlun var gerð í fyrra, heldur voru það allt aðrir embættismenn, sem þar til eru settir.

Hins vegar var það hæstv. samgmrh., sem gaf fyrirmæli um það, að þessi vinnuáætlun skyldi gerð, og hann mun einnig hafa tekið að sér að tryggja fé til þessara framkvæmda, þ.e.a.s. til jarðgangagerðarinnar, og má segja um það, að hvort tveggja þetta var þó meira en fyrirrennarar hans í embætti samgmrh. höfðu gert. Þeir höfðu engin fyrirmæli gefið um að gera vinnuáætlun um framkvæmd þessa verks og ekki heldur útvega fé til framkvæmdarinnar. Og líka get ég fullyrt, að það var ekki hæstv. samgmrh., sem hefur hrært svo í berglögunum í Strákafjalli, að þau reynast nú við rannsókn vera allt öðruvísi en áður hafði verið áætlað af faglærðum mönnum að undangenginni rannsókn.

Annars þykist ég alveg vita það, hvers vegna hv. 5. landsk. þm., sem mér þykir verst að hlýðir ekki á mál mitt, er svo bitur og sár í garð hæstv. samgmrh. og honum verður tíðrætt um þann fund, sem var haldinn um þetta vegamál á Siglufirði í fyrra, en á þeim fundi mun það hafa verið allra manna mál, að hv. þm. hafi ekki sótt gull í greipar hæstv. samgmrh. Annars held ég, að það þurfi engum að koma svo mjög á óvart, þótt nánari tæknileg athugun hafi farið fram og þurfi að fara fram í sambandi við hina fyrirhuguðu jarðgangagerð um Stráka, vegna þess að í framkvæmdaáætlun ríkisstj. frá því í fyrra er einmitt sagt berum orðum, að það verk þarfnist rækilegrar tæknilegrar athugunar og undirbúnings við, áður en það yrði hafið, og það er einmitt sú tæknilega athugun, sem þar var boðuð, sem nú stendur yfir. Hitt hlýtur hins vegar að valda öllum þeim, sem áhuga hafa fyrir því, að vegagerðinni um Stráka ljúki sem fyrst, hinum mestu vonbrigðum, að sú jarðfræðilega athugun, sem fram fór á s.l. sumri, leiddi til allt annarrar og óhagstæðari niðurstöðu en fyrri rannsóknir gerðu, og af þessu leiðir, að jarðgangagerðinni mun eitthvað seinka, en þó vonandi sem allra minnst.

Annars tel ég, að öllum aths. hv. 5. landsk. þm. um framkvæmd jarðgangagerðarinnar um Stráka sé raunverulega fullkomlega svarað í grg. þeirri, sem vegamálastjóri sendi fjvn. með vegáætluninni fyrir 1964, en þar er nákvæmlega rakið og gerð grein fyrir, hvers vegna vinnuáætlun vegamálastjóra frá 1963 um framkvæmd verksins hafi raskazt. Þessi grg. hefur ekki, svo að mér sé kunnugt um, verið birt í málgögnum hv. 5. landsk. þm. Ég skal ekki beint leiða neinum getum að því, hvers vegna það hafi ekki verið gert, en þó mætti segja mér, að það sé vegna þess, að sannleikurinn um þróun Þessa máls er sagður þar.

Þá lét hv. ræðumaður, eftir því sem ég bezt skildi það, liggja að því, að vegamálastjóra og e.t.v. fleirum hafi verið kunnugt um það, þegar vegamálastjóri gerði vegáætlun sína um jarðgangagerðina í fyrra, að verkið væri óframkvæmanlegt á þeim tíma, sem vinnuáætlunin ráðgerði, og þar hafi hann sjálfur, þ.e.a.s. hv. þm., séð betur en vegamálastjóri og starfsmenn hans, því að hann hafi sagt á þessum fræga Siglufjarðarfundi í fyrra, að Það væri ekki hægt að standa við loforð framkvæmdaáætlunarinnar um, að verkinu yrði lokið á

svona stuttum tíma. í sambandi við Þessar aðdróttanir í garð vegamálastjóra verð ég að segja það, að mér finnst þær vera bæði ósæmilegar og ómaklegar aðdróttanir í garð samvizkusams opinbers starfsmanns, sem áreiðinlega hefur gert sitt bezta í þessu efni sem öðrum.

Eins og segir í grg. vegamálastjóra, sem ég áður nefndi, var ekki vitað um það fyrr en á s.l. vetri, eftir að skýrsla jarðfræðings um framhaldsathugun á jarðlögum í Strákafjalli lá fyrir, að neinir erfiðleikar væru á því að gera jarðgöngin eftir áætluninni frá 1963, og ég kalla það ekki svik á framkvæmdaáætluninni 1963, þótt jarðgangagerðinni seinki af ástæðum, sem þá voru gersamlega ókunnar, vegna tæknilegra erfiðleika, sem þá var ómögulegt að sjá fyrir.

Ég vil svo að lokum spyrja hv. þm., — og segi ég það þá aftur, að mér þykir það leitt, að hann skuli ekki hlýða á mál mitt, svo að ég viti, — mig langaði til að fá svör hans við því, hvort það sé raunveruleg skoðun hans, að hefja eigi nú jarðgangagerðina af fullum krafti, þótt fróðustu menn telji nauðsynlegt, að frekari rannsóknir á fjallinu, sem á að grafa í gegn, fari fram.