08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 178 í D-deild Alþingistíðinda. (2529)

211. mál, vegáætlun 1964

Axel Jónsson:

Herra forseti. Umferðarvandamálið á Reykjanesbraut milli Hafnarfjarðar og Reykjavíkur hefur borið hér á góma. Hv. 10. landsk. þm. (GeirG) virtist óánægður með það, að á þessari vegáætlun, sem hér liggur fyrir, er ekki gert ráð fyrir fjárframlagi til endurbóta á Reykjanesbraut gegnum Kópavog. Hæstv. samgmrh. hefur upplýst það hér síðar á fundinum, að ástæður fyrir því, að ekki er hægt að hefjast handa um framkvæmdir við Reykjanesbraut á umræddu svæði, eru þær, að ekki er búið að ganga frá skipulagi á þessum slóðum. Það er vissulega ástæða til þess að lýsa óánægju sinni yfir því, að það skuli ekki hafa verið gert. En hverjum er það fyrst og fremst að kenna, að svo er ástatt? Hverjum er það fyrst og fremst að kenna, að ekki er búið að ganga frá skipulagi á Kópavogshálsinum, þannig að hægt sé að hefja nú þegar eða jafnvel fyrr framkvæmdir um endurbætur í því mikla umferðarvandamáli, sem þar er? Ég vil hiklaust staðhæfa, að það er fyrst og fremst að kenna flokksbræðrum hv. 10. landsk. þm., sem farið hafa með stjórn bæjarmála í Kópavogi. Það mun hafa verið í apríl 1961, sem fulltrúi Sjálfstfl. í bæjarráði þar bar fram till. um það, að efnt yrði til samkeppni um hið svokallaða miðbæjarsvæði í Kópavogi, þ.e.a.s. svæði það, sem Reykjanesbrautin liggur um. Þetta var fellt. En 22. jan. 1963 samþykkir bæjarráð að efna til samkeppni um þetta svæði, og þá þegar var hafinn undirbúningur að því, að hægt yrði að bjóða þessa samkeppni út. En það er mikið verk. Þarna er mikil umferðargata, sem liggur í gegnum miðjan Kópavogsbæ, og margar umferðaræðar úr bænum, sem þarf að tengja við hana á viðunandi hátt. Og svo er komið málum, að þessum undirbúningi að útboði er ekki lokið enn, en má vænta þess, að fljótlega verði Því lokið, þannig að hægt verði að auglýsa samkeppnina, en það er þó augljóst, að niðurstaða byggð á úrslitum þeirrar samkeppni mun vart liggja fyrir fyrr en undir næstu áramót, og þá fyrst er hægt að fara að vinna nauðsynleg verkfræðileg undirbúningsstörf, til þess að þessi vegagerð geti hafizt. Ég trúi ekki öðru en hv. 10. landsk. þm. hafi verið þetta kunnugt og hann hafi vitað, hvar sökin lá í þessu efni.

Ég skal ekki eyða mörgum orðum að því mikla vandamáli, sem þarna erum að ræða, það hefur verið margrætt hér á hv. Alþ. í vetur. Ég man það, að á Alþingi 1960 voru þessi mál einnig til umr. hér, og þá þótti þetta mikið vandamál, og þá var vitnað til síðustu umferðartalningar á þessum vegi og þá talið, að færu um þennan veg milli 10 og 11 þús. bifreiðar á dag. Núna er þessi tala 14-15 þús. og mun fara ört vaxandi, þannig að allir, sem þekkja til aðstæðna þarna, sjá, að nauðsyn er á að bæta úr. En sýndartillöguflutningur og óánægja yfir því, að ekki sé ráðizt í framkvæmd, sem ekki er einu sinni búið að ákveða, hvar eigi að vera, það finnst mér vera hins vegar ástæðulítið af þeim, sem eiga að gjörþekkja til aðstæðna.

Það hefur einnig borið á góma að leggja aðra braut austan núverandi byggðar í Kópavogi, og það er tvímælalaus nauðsyn, að hún komi einnig, þrátt fyrir það þó að lögð verði tvöföld akbraut í gegnum Kópavog, um miðbæjarsvæði hans. En það er einnig þá sögu að segja gagnvart lagningu þessa vegar, að skipulagi á innanverðum Kópavogshálsi er ekki lokið. Ég vonast til þess, að yfirvöld í Kópavogi svo og vegamálastjórnin taki höndum saman um það að leysa þetta erfiða vandamál á sem farsælastan hátt fyrir þá mörgu, sem þarna eiga hlut að máli.