08.05.1964
Sameinað þing: 74. fundur, 84. löggjafarþing.
Sjá dálk 180 í D-deild Alþingistíðinda. (2530)

211. mál, vegáætlun 1964

Ásgeir Bjarnason:

Herra forseti. Það er ekki óeðlilegt, þó að nokkrar umr. falli um þá vegáætlun, sem hér liggur fyrir, því að ég held, að það hafi ekki einungis verið þm., sem biðu spenntir eftir því að sjá, hvað kæmi út úr hinni breyttu löggjöf, sem ríkir nú í vegamálum, heldur hafi einnig þjóðin beðið mjög spennt eftir að vita, hvað fjármagni til framkvæmda liði samkv. þeirri nýju löggjöf. En hins vegar verðum við að horfast í augu við þá bitru staðreynd nú, að við fáum litlu um þokað þeirri áætlun, sem hér liggur fyrir, og að sjálfsögðu liggja að því margar ástæður, sem ég skal ekki rekja nú, en þm. hafa ýmiss konar sjónarmið um, og sjálfsagt hefur hver eitthvað til sins máls. En ég get tekið undir það með hv. 2. þm. Vestf., að mér finnst þó allar horfur á, að við fáum minna út úr þessu vegafé en vonir stóðu til.

En það er nú eitt að gera áætlun, og annað er að láta hana standast í framkvæmd. Við höfum haft áætlanir um vissar framkvæmdir hér á landi. Við höfum t.d. haft áætlanir í raforkumálum. Og sjálfsagt hefur það verið að einhverju leyti til bóta, en hitt held ég, að flestir séu sammála um, að hún hafi engan veginn staðizt, og fyrir því liggja margar orsakir, og að sjálfsögðu verka sömu lögmál á þá áætlun, sem við gerum um vegamál, eins og aðrar áætlanir. Á ég þar ekki sízt við vaxandi dýrtíð og svo vaxandi þarfir hins vegar fyrir vegi um byggðir landsins. Það má segja, að þjóðvegakerfið hafi nokkurn veginn fylgt framleiðslunni. Þar sem þörf hefur verið fyrir góða vegi vegna framleiðsluaðstöðunnar, þar hafa vegirnir komið af sjálfu sér fyrr en annars staðar á landinu. Það er því ekki undarlegt, þótt hrópað sé nú úr hinum dreifðu byggðum, sem tiltölulega nýlega hafa komizt í akvegasamband, um, að þar verði vegakerfið bætt til jafns við það, sem það er annars staðar á landinu. Og sú vegáætlun, sem nú liggur fyrir, fjallar að vísu ekki nema um hluta af þeim framkvæmdum. sem gerðar verða, og ber þar tvennt til, vegna þess að það er búið fyrir fram að eyða verulegum hluta af því fé, sem hér er verið að ráðstafa, í fyrsta lagi, og í öðru lagi reikna ég með að það verði ekki hjá því komizt að hefja nýjar lántökur vegna vegagerðar og það einnig á þessu ári, og um það fjallar þessi áætlun ekki neitt. En því aðeins hefur áætlun sitt gildi, að þar séu öll þau atriði, sem til greina koma, að með þeim sé reiknað, en svo er ekki hér. En á þetta vil ég benda nú við þetta tækifæri, til þess að sú vegáætlun, sem gerð verður á þessu sumri og lögð fyrir Alþingi í haust, verði að öllu betur útbúin en sú áætlun, sem hér liggur fyrir. Og ég efast ekki um, að hugur allra stendur til, að svo megi verða. En því aðeins getur sú vegáætlun orðið nokkurn veginn til samræmis við óskir Alþingis, að þm. sjálfir geri áætlun hver og einn fyrir sitt kjördæmi, þar sem þeir eru kunnugir, og verði þannig í ráðum með vegamálastjóra, sem að sjálfsögðu hefur aðalframkvæmdina með höndum í þeim efnum, eins og eðlilegt er.

Það er einkum þrennt, sem kemur til greina varðandi áætlun samkv. hinum nýju vegal., og á ég þar við, að það sé þrískipt það fjármagn, sem þar er til umráða. Það er í fyrsta lagi til þess að byggja nýja vegi um landið, hvort heldur þeir eru steyptir eða ósteyptir, í öðru lagi til að brúa óbrúuð vatnsföll, og í þriðja lagi fer mikill hluti og vaxandi hluti til að halda því þjóðvegakerfi við, sem þegar er komið og kemur á næstu árum. Og eftir reynslunni verður sá hlutinn, sem fer til viðhalds þjóðveganna í landinu, ört vaxandi, og eigi maður ekki nýtt fjármagn árlega, sem til skipta kemur, verður vegaviðhaldið framkvæmt á kostnað brúargerða og nýbygginga. Þetta liggur ljóslega fyrir af þeirri áætlun, sem hér er, og fyrir þetta verður að byggja þegar á næsta hausti, jafnframt því sem ríkið verður hverju sinni að taka á sig þær auknu byrðar, sem koma af völdum vaxandi dýrtíðar, þannig að það verður ekki hægt að inna sama verk af hendi fyrir það fjármagn, sem upphaflega var áætlað. Sé þetta ekki allt tekið með í reikninginn í fyrstu og endurskoðað með tilliti til þessa árlega, um leið og fjárlög eru afgreidd, hefur áætlun slík sem þessi ákaflega lítið gildi og missir fljótlega marks. Áætlun t.d., sem hefði verið samin um þjóðvegina fyrir rúmu ári, hefði strax, að því er ég hef heyrt og bezt veit, rýrnað að verðgildi um rúm 12%. Og þess vegna verður að hafa í huga hverju sinni dýrtíðarmálin í landinu og mæta dýrtiðinni með því að taka inn nýtt fjármagn, þannig að framkvæmdirnar, eins og þær voru upphaflega áætlaðar, geti gengið fyrir sig á hverju ári, án þess að neitt hindri það.

Það er nú eins með mig og gömlu konuna, sem kunni bezt við „gömlu aðferðina” að ég finn óneitanlega til þess og hef gert, síðan kjördæmabreytingin varð, að ég kynni bezt við að skipta því vegafé, sem til fellur, í mínu gamla kjördæmi einn og óháður og þurfa ekki að skipta mér af hjá öðrum. En að sjálfsögðu þýðir ekki um það að fást, því að mikið af þeim vandamálum, sem við eigum hér við að etja á Alþingi, eru afleiðingar af þeirri kjördæmabreytingu, sem gerð var 1959 og hefur að flestu leyti, að mér finnst, ekki orðið landsfólkinu í heild til bóta.

Þótt ég gjarnan óski þess, að við þm. Vesturl. fengjum miklu meira fjármagn þangað, ætla ég ekki að flytja um það brtt. nú, vegna þess að ég álít slíkt tilgangslaust, og er það ekki fyrir það, að það sé ekki þörf fyrir vegi og þörf fyrir brýr. Það er síður en svo, því að þar er í mörg horn að líta, engu síður en þótt við ferðumst til Austur- eða Vesturlands, og lætur það að vonum, að þar sem nýjar leiðir hafa opnazt, eru auknar þarfir fyrir meira fjármagn og miklu meira fjármagn en nokkru sinni hefur verið fyrir auknar vegaframkvæmdir, enda gefur það auga leið, að við þurfum ekki annað en koma hér út á göturnar í Reykjavík, og við sjáum það fljótt, hve bílafjölgunin er mikil hér í bænum, og sama gildir um landsbyggðina, að þar hefur umferðin stórum vaxið, og það sem meira er. að þær bifreiðar, sem nú þjóta yfir landið, eru miklu stærri og miklu þyngri en við reiknuðum með og þurfa því miklu sterkari og betri vegi en áður hefur verið, þannig að mikið af þeim vegum, sem byggðir hafa verið á undanförnum árum, þótt ekki sé farið nema 10 ár aftur í tímann, eru ekki fullnægjandi fyrir þá bifreiðastærð, sem nú ríkir yfirleitt við vöruflutninga og fólksflutninga út um landsbyggðina. Og þetta á eftir að sýna sig betur á næstu árum, að við verðum, jafnframt því sem við byggjum nýja vegi, þar sem vegleysur eru nú, að endurbyggja mikið af því vegakerfi, sem á undanförnum árum hefur verið talið að væri fullnægjandi til frambúðar.

Ég bendi á þetta, og ég bið þm. að athuga það, að sú vegáætlun, sem lögð verður fyrir Alþingi á næsta hausti, verður því aðeins til bóta og því aðeins hefur hún sitt gildi, að þm. verði þar sjálfir með í ráðum, þar sem þeir bezt þekkja til, jafnframt því sem Alþingi tekur þessi mál til endurskoðunar árlega með hliðsjón af breyttu verðlagi og öðrum aðstæðum, sem þar koma til greina.